Greinasafn fyrir merki: Agadir

Síðasti dagur á Kenzi

Síðasti dagurinn á Kenzi og nú var aðeins farið að hitna, hitinn kominn í 38 gráður. Við Iðunn fórum á „O Playa“ í hádeginu og fengum fínan mat, en engan vegin eins góðan og í fyrrakvöld. Þaðan á ströndina, Iðunn fékk sér bráðabirgða „tattoo“ og eftir að hafa soðið aðeins í hitanum fór ég í nudd á Kenzi.

Iðunn - tattoo

Við Iðunn gleyptum matinn í okkur og fórum á „English Pub“ að horfa á Middlesbrough – Arsenal, sem lauk sem betur fer með sigri Arsenal.

Kvöldið fór að mestu í að pakka og reyna að skipuleggja hvað fór í hvaða tösku. En svona alveg að lokum röltum við með Önnu-Lind og Skúla niður að strönd og mynduðum okkur með fjallið í bakgrunni.

Agadir - Fjall

Páskadagur

Páskadagur. Jóna litla var ekki alveg að skilja tilganginn með því að fela páskaeggin, enda bara þriggja.

„Ég vil fá að fela mitt páskaegg sjálf!“..

Svo fór hún og faldi eggið hans Glóa.. fór beint og sótti hann og dró hann að egginu og sýndi honum hvar hún hafði falið það!

Glói „faldi“ hennar páskaegg, eða réttara sagt, setti það á augljósan stað.. hún hljóp nokkrum sinnum fram hjá því fram og til baka áður en hún áttaði sig.

En það var komið að því að við fengjum okkar bílaleigubíl, Skúli skutlaði mér upp á flugvöll og sem betur fer var ég með útprentun því mér var ekki hleypt inn á flugvöllinn.. en vörðurinn hringdi á bílaleiguna og þetta hafðist á endanum.

Svo fórum við í þjóðgarðinn, Souss Massa, aðallega til að reyna að sjá pelíkana, en þeir voru ekki á staðnum þegar við komum. Okkur bauðst reyndar að skoða annan sjaldgæfan fugl (sem ég man ekki hvað heitir) en okkur þótti þetta full mikið mál, klukku tíma akstur í bíl. En te og appelsínusafi í Auberge veitingahúsinu og svo niður á strönd í rennibrautabyggingu í sandinum og smá rölt um nokkuð skemmtilegt svæði.

Þjóðgarður - strönd - 2

En það vildi enginn fá að prófa að sitja á kameldýri, enda Bergur búinn að fullyrða að þetta væri ákveðin misnotkun á dýrum.
Þjóðgarður - 8
Fínn dagur en kannski vorum við svolítið að sækja vatnið yfir lækinn, svona eftir á að hyggja.

Afmæli

Skúli átti afmæli og Anna-Lind bauð honum og Bergi í einhvers konar fjórhjóla- og „buggy“ ferð í nærliggjandi sveit, að okkur skildist var þetta mjög vel heppnað.. Við buðum svo upp á freyðivín fyrir matinn og svo héldum við öll út að borða. Það var reyndar ekki hlaupið að því að finna veitingastað sem bauð upp á grænmetisrétti, en við fundum „O Playa“ sem var með borð fyrir 7 með litlum fyrirvara, „vegetarian friendly“, sá sem svaraði talaði ensku, staðurinn var ekki langt í burtu og fékk fína einkunn á TripAdvisor, nr. 4 í Agadir.

Við pöntuðum öll pizzur nema Iðunn, sem fékk þennan frábæra smokkfisk, ekki djúpsteiktan en svakalega vel heppnaðan. Ég sá strax eftir pizzu pöntuninni, enda ekkert sérstök og aðrir réttir mjög girnilegir. Reyndar þurftum við að bíða talsvert eftir eftirréttunum og börnin voru farin að ókyrrast, en þeir höfðu gleymt að láta vita að það þurfti að útbúa vatnsdeigsbollurnar með ís (sem Iðunn pantaði) og aðra rétti sérstaklega – það var ekkert verið að bera fram tilbúna frosna rétti. En alvöru veitingastaður og við Iðunn settum á bak við eyrað að kíkja aftur.

Mottukaup

Anna-Lind, Skúli og börn fóru í Paradísargarðinn en við Iðunn röltum upp í UniPrix.. Eiginlega var allt verð þarna út í hött, við misstum okkur aðeins, enda vörurnar seldar á brot af því sem þær kosta jafnvel á útsölum heima. Gott og vel, ekki alvöru merki, en reynslan er nú að þessi „alvöru“ merki endast ekkert endilega lengi. En þegar Iðunn var komin með 7 mottur og einn „setupúða“, þá ákváðum við að fara aftur upp á hótel og núllstilla okkur aðeins.

Strönd

Þá var kominn tími til að kíkja á ströndina, sem var ekki langt frá, tekur kannski 5-10 mínútur að rölta. Við Iðunn fórum á undan hinum, fengum okkur bjór og tylltum okkur svo á svæði hótelsins, sem auðvitað var með sér hólf á ströndinni, okkur að kostnaðarlausu. Við gripum svo allt-í-lagi hádegismat á Del Mar og hringdum í Öggu og óskuðum henni til hamingju með daginn. Anna-Lind og Skúli mættu svo með fjölskylduna. Ég var eitthvað uppgefinn á hitanum og fór fljótlega upp á hótel. Um kvöldið röltum við Iðunn niður göngugötuna að ströndinni og létum pranga einhverju dóti inn á okkur áður en við settumst niður á spænska veitingastaðinn „Tio Pepe“ og skiptum lítilli hvítvín með okkur.

Lestarferð og fuglagarður

Við ákváðum að taka nokkurs konar leikfangalestarferð um bæinn, sem var svo sem allt í lagi, en við ákváðum að rölta aðeins um eftir ferðina og duttum inn í einhvers konar fuglagarð – sem var nokkuð skemmtilegur. Þegar þaðan kom duttum við inn í hræ ódýra verslun, UniPrix og gleymdum okkur aðeins. Smá Petanque seinni partinn og talsvert letilíf.

Við Iðunn röltum niður göngugötuna í áttina að ströndinni og kíktum í búðir og keyptum eitthvert smáræði. Einn búðareigandinn bauð 1.000 kameldýr fyrir Iðunn, sem ég hafnaði auðvitað, en komst að því seinna um kvöldið að þetta voru um 242 milljónir króna… ég bara fann hann ekki aftur.

Fuglagarður - 2 - Album

Petanque

Það kom okkur á óvart að finna Petanque völl lá Kenzi Europa hótelinu.. við byrjuðum að spila og kenna Önnu-Lind, Skúla og fjölskyldu.

En Asis mætti klukkan þrjú, þá var einmitt skipulagður Petanque tími. Hann hafði greinilega spilað mikið og var stöðugt að kenna okkur. En það var mjög sérstakt að spila á grjóthörðum vellinum, svona þegar við erum vön að spila á Einifelli.

Kenzi - petanque - 1 - Album