Brussel, Ástrós og Þorfinnur

Hittum Ástrósu og Þorfinn á Grand Plaza torginu.. Byrjuðum á smá bjór, þaðan yfir á sjávarréttastað, átta mig ekki á hvar, kræklingur, humar, rósavín og saltfiskur…

Síðan lá leiðin á íþrótta-bara-rölt til að fylgjast með úrslitaleiknum í franska opna tennismótinu.. þetta entist fram eftir degi.

Ákváðum að nýta okkur gufuna á hótelinu, fengum óætan mat á Brussel grill – var eiginlega með ónot fram eftir kvöldið. Vorum meira að segja nánast sofnuð fyrir allar aldir, en rifum okkur upp miðnætti og fórum á Casino. Iðunn byrjaði að raka saman peningum, var komin 200 Evrur í plús eftir 10 mínútur, það reyttist aðeins af þegar leið á kvöldið. Mér gekk ekki vel framan af en ég náði að komast í smáplús og Iðunn hélt þokkalega á sínu, þannig að við fórum með um 170 meira en við komum með… fyrir utan það sem við vorum búin að leggja undir og tilbúin að tapa.

Undarlegt samt hversu margir voru að spila rúllettu þar sem lágmarkið var 5 evrur á talnaborðinu og 25 á summuboðrinu. Fleiri, fleiri borð.. öll troðfull.

Gouda, Westmalle, Brussel

Laugardagurinn fór svo í að þvælast frá Gouda til Brussel með viðkomu í Westmalle, þar sem við létum reyndar einn bjór duga.. Enda ekkert bruggtengt sýnilegt.

Vorum komin frekar seint til Brussel, erfitt að komast að hótelinu og svo að skila bílaleigubílnum upp á flugvöll. Fórum svo til þess að gera seint á ítalska La Mia Cucina, fengum frábæran mat hjá líflegum ítölskum eldri manni og fleirum.. Lax, túnfisk og sverðfisk carpaccio í forrétt, trufflusveppapasta í aðalrétt.. Frábær matur en engan veginn gefinn.

Gouda áfram..

Eiginlega stefnulaus dagur sem leið ágætlega yfir nákvæmlega ekki neinu.. Ráfuðum um, drukkum kaffi, bjór, fengum frábæran mat á Buiten ( Eten + Trinken).. Og kvöldið endaði á sérkennilegum en skemmtilegum skemmtistað… vorum samt ekki svo lengi fram eftir.

Gouda

Mættum snemma til Gouda, enda stutt að fara og létt umferð. Byrjuðum á ostamarkaðinum, en gátum eiginlega ekki keypt mikið.. eigum eftir að vera á flakki og erum ekki með kæli í vasanum.

Drukkum nokkra bjóra og fengum okkur snarl á meðan heljar skýfall gekk yfir.. á mörkunum að tjöldin yfir útisvæði barsins þyldi álagið.

Tókum kvöldið svo frekar snemma á hinum indverska New Tandoor, frábær matur, eins indverskur matur gerist bestur.

Þaðan í smá rauðvín, lítinn hljómleikastað þat sem alveg ágæt ‘cover’ hljómsveit var að spila, og skemmti sér ekki síður – og eiginlega betur – en gestirnir.

Tveir bjórar (á hvort okkar) á leiðinni inn á hótel, þar sem við reyndum að fá framburðarkennslu á nafni bæjarins.. kannski (h+r+g+k)/4+áda.

Tilburg, La Trappe

Fórum til Tilburg á miðvikudagsmorgun, höfðum fundið allt-í-lagi hótel í jaðri bæjarins.

Aðalatriðið var að það var stutt í La Trappe brugghúsið / klaustrið.

Smökkuðum 6 bjóra, flesta fyrsta flokks, jafnvel með þeim betri í ferðinni. Smá ostabakki og brauð sem er bakað úr dreggjum bjórframleiðslunnar.

Restin af deginum fór svo í ráp um miðbæinn, rétt sluppum við eitt skýfallið, en svo ringdi talsvert á okkur.

Duttum inn á steikarstaðinn Rodeo, sem leigubílstjóri hafði bent á.. ég fékk frábæra nautalund og Iðunn, sem hefur ekki verið neitt sérstaklega dugleg að klára matinn sinn í ferðinni, torgaði 500 gramma T-Bone.

En fórum snemma upp á hótel, smá pool með ónýtum kjuðum og snemma að sofa.