Greinasafn fyrir merki: Flachau

2014, það sem situr kannski frekar eftir

Einhverra hluta vegna eru það ekki alltaf „stóru“ stundirnar eða viðburðirnir sem sitja eftir á hverju ári… heldur einhverjar allt aðrar.

Ef ég lít til dæmis til baka yfir 2014…

 • Við Iðunn fórum út að borða með Bryndísi í skíðaferðinni í Flachau síðasta daginn, þegar færðin bauð ekki lengur upp á skíðaferð. Stórskemmtileg og viðburðarík ferð með skemmtilegu fólki og stórveislu að hætti Bryndísar.. en einhvern veginn er það þessi rólega stund sem situr helst eftir.
 • Við Iðunn fórum svo á flakk um Belgíu og Holland í byrjun sumars… vorum mjög heppin með staði, veitingastaði, bari, bjóra, rauðvín og hótel. En það sem situr eftir er þegar við vorum búin að keyra til Maastricht úr fluginu, komum okkur fljótlega fyrir uppi á hóteli og drifum okkur í bjór og snarl úti í garði.
 • Jú, reyndar var heimsóknin á TakeOne bjórbarinn í Maastricht minnistæð, áhugasamir barþjónar með mikið úrval af bjór.
 • Og ekki má gleyma garðinum á ítalska veitingastaðnum og heimsóknin á einn sérstakasta bar sem við höfum dottið inn á.
 • Í London komumst við óvænt að því að veitingastaðir vilja síður gesti á sunnudagskvöldum.. Jón & Jóhanna voru í London og við ætluðum á hinn frábæra japanska Roka, sem var (auðvitað) lokaður.. Það hófst hálfgerð neyðarleit að opnum veitingastað í grenjandi rigningu. Loks fundum við opinn stað, grískur staður, Elysée.. ekki bara til að bjarga okkur, heldur var maturinn frábær.
 • Við stóðum að Punk 2014 hátíð með Kópavogsbæ í vor þar sem Glen Matlock úr Sex Pistols kom í heimsókn. Hljómleikarnir voru stór skemmtilegir, en kvöldið fyrir var eiginlega enn eftirminnilegra… við Iðunn fórum með Glen á frábæran veitingastað.
 • Þá fórum við Iðunn mjög skemmtilega flakk-ferð í haust, en kvöldið á Benalmadena þegar við röltum heim í íbúð frá smábátahöfninni, með Magnúsi & Sylvíu, er svona eitt það eftirminnilegasta.
 • Við stoppuðum svo í Southampton og kíktum vil Viktors, var reyndar hálf lasinn.. en fínt kvöld á ítölskum stað.
 • Einifellsferðir eru alltaf með bestu ferðum ársins, en sú stund sem helst situr eftir er sunnudagskvöld með Auði & Steina, eftir annars stórvel heppnaða helgi með matarklúbbnum GoutonsVoir. Við elduðum afganga og annað lauslegt úr ísskápnum og settumst út í kvöldsólina um tíuleytið, í fínum hita og nutum vel heppnaðrar eldamennsku.

Svo eru ekki allar minningarnar endilega jákvæðar…

 • Stórskemmtileg ferð í Laugarnes til Arnars & Unnar & Unnsteins endaði með ansi slæmum veikindum. Nokkurra klukkutíma bið, þar sem ég var einn veikur í sumarbústað (skammt frá „höfuðstöðvunum“) með bilað klósett og beið eftir að ná heilsu til að keyra heim.
 • Magnús tengdapabbi hefur verið veikur og á Þorláksmessu vorum við vakin snemma morguns og sagt að þetta liti alls ekki vel út. Fljótlega kom þó í ljós að þetta var (væntanlega) ekki tengt sjálfum veikindum og það reyndist að ná tökum á þessu og eftir nokkra stund leit hann miklu betur út.
 • Þá vorum við Iðunn stöðugt að detta og sækja marbletti á árinu. Eða réttara sagt, ég datt einu sinni og Iðunn í öll hin skiptin. Eitt skiptið datt hún mjög illa á andlitið, marðist illa.. og ég var ekki fyrir nokkurn mun að kveikja á því hversu illa hún hafði dottið… ekki góð tilfinning þegar ég loksins kveikti á perunni.

Flachau, heimferð

Jæja, þetta var stutt, en þetta átti að vera stutt… verst að missa þessa daga í tafir á flugi.

En við lögðum tímanlega af stað frá hótelinu og vorum komin nokkuð fyrir klukkan eitt á flugvöllinn, enda flugið ekki fyrr en klukkan þrjú.

Flachau - 2014 - 027 - lítil

Þar tók við ansi leiðinleg bið, og ansi löng. Einhvern veginn hélt ég að Wow myndi nú hugsa fyrir að við fengjum góða þjónustu. En við innritun var starfsmaður í þjálfun (já, bókstaflega) og innritun tók heila eilífð. Rétt eftir að henni lauk, fimmtán mínútur yfir tvö var farið að kalla út í vél, þegar við vorum komin í gegnum öryggishlið (sem tók ekki langan tíma) var komið að síðasta kalli og rekið hressilega á eftir okkur. Engin smuga var að fá sér nokkuð að borða og löng bið á eina veitingastaðnum. En við létum okkur hafa það og fórum út í vagninn sem flytur farþega út í flugvél.. þar biðum við svo drykklanga stund, um tíu mínútur eftir að síðasti farþeginn var kominn. Það hjálpaði svo ekki til að eini rétturinn á matseðli Wow sem mér fannst girnilegur var búinn.

En ég hafði bitið í mig að við lentum klukkan átta en ekki sex, en sem betur fer báði ég í Viktor og hann kom strax og sótti okkur… við fengum fínan tíma að skoða og velja vín í fríhöfninni.

Viktor varð svo fyrir því óláni að bakka á bíl fyrir utan húsið hjá Bryndísi, en það voru engar skemmdir sjáanlegar í myrkrinu.

Flachau, lokadagur

Nú var farið að snjóa og skyggni ekkert sérstaklega gott. Þau fóru þó öll að reyna að skíða en entust mislengi. Ég hafði verið að gæla við að leigja skíði, finna létta brekku og sjá hvernig mér tækist til, en ákvað að vera ekki að taka áhættu í þessu skyggni.

Við Iðunn fórum með Bryndísi á veitingastaðinn Hoagascht, sem ég hafði fundið í fyrradag. Maturinn var fínn, en spaghettiíð heldur mikið soðið í þetta skiptið. En fínasti matur og gott rauðvín. Bryndís og Iðunn fengu kaupæði og vildu kaupa nánast allt sem var notað á staðnum, við að bera fram mat og drykki, glös, sjússamæla… og ekkert sjálfsagðara. Enda sáum við á leiðinni út að þetta var allt til sölu.

Flachau - 2014 - 052 - lítil

Við náðum inn á hótel um fimm leytið og rétt náðum síðustu mínútum í leik Íslendinga og Pólverja á EM, enda nóg að sjá þær. Þaðan fórum við yfir á ApreSki barinn sem var beint fyrir utan svalirnar okkar Iðunnar og hafði dúndrað skelfilegri tónlist yfir til okkar alla dagana. En þetta var hluti af stemmingunni og við skruppum yfir til að upplifa hana. Ég entist reyndar ekki lengi, ákvað að ná nokkrum mínútum í gufu fyrir matinn.

Kvöldmaturinn var svo gala-dinner og enn einu sinni margrétta. Við leyfðum þjóninum að velja vín með hverjum rétt og hann stóð sig satt að segja nokkuð vel, sérstaklega rauðvínið með síðasta réttinum. Það var svo eftirréttahlaðborð sem við prófuðum vel og vandlega.

Eftir matinn var farið í „actionary“ sem aftur lauk með stórmeistarajafntefli.

Við sátum eitthvað fram eftir, ég náði síðustu mínútunum af Arsenal-Coventry og svo sátum við Iðunn eins og svo oft áður með vín og vindil úti á svölum.

Flachau, afmælisdagur

Við vöknuðum enn fyrr en venjulega og vöktum Bryndísi fyrir allir aldir með því að ráðast inn á herbergið með hefðbundinn afmælissöng. Síðan var Mimosa með morgunmatnum auk þess sem Bryndís fékk þennan svaka kokteil frá fjölskyldunni í Unterberghof.

Aftur dreif hópurinn sig á skíði á meðan ég mætti í kennsluna. Þetta skiptið fékk ég tvo einkakennara og gekk talsvert betur… ég prófaði aðeins að renna mér eftir kennsluna, en hætti eiginlega allt of snemma – svona eftir á að hyggja.

En afmælisveislan var seinni partinn á Dampfkessel og var boðuð klukkan þrjú. Ég rölti þangað og fékk mér „smá“ hádegismat, Gúllasið sem ég hélt að væri smáréttur hefði nægt heilli herdeild í fyrri heimsstyrjöldinni. Ég kunni ekki við annað en að gæða mér á góðum hluta, en átti ekki möguleika á að klára.

Flachau - 2014 - 042 - lítil

Afmælið sjálft hófst svo seinni partinn, fyrst með fljúgandi hreindýrinu (Jägermeisterflaska í Red Bull), freyðivíni, hvítvíni, þremur matarfjöllum og nokkrum bjór. Stórskemmtileg afmælisveisla og ekki spillti stemmingin á staðnum, fólk dansandi upp á borðum að hætti Iðunnar og Bryndís fékk nokkur óskalög – ja, að minnsta kosti eitt, Sweet Caroline. Ég reyndi að segja nokkur orð og fara með eina limru fyrir afmælisbarnið, en hávaðinn í tónlistinni hjálpaði ekki til – og svo kom Arna hálf slösuð til okkar, hafði fengið klakaskot í andlitið, sem betur fer ekki alvarlegt.

En innihaldið var nú eitthvað á þá leið að það væri alltaf við hæfi að flytja afmælisbörnum limru. Limrur þurfa auðvitað ekki að hafa stuðla eða höfuðstafi og sumum þykir „fínast“ að rímorðið í síðustu línu sé það sama og annað hvort rímorðið í fyrstu eða annarri línu. Og lang best ef það er sama orðið með sitt hvorri merkingunni, td. getur vín bæði verið drykkur og höfuðborg landsins sem við erum stödd, bjór getur líka verið drykkur og lítið dýr – og fyrir afmælisbarnið er auðvitað „Valur“ sem er að bæði pabbi hennar og liðið sem hún spilaði lengst fyrir. Iðunn hafði fundið upp nýtt orð fyrir skál, „bolta!“ borið fram hægt með austantjaldshreim.

Þá er harðbannað að nefna afmælisbarninu eitthvað til hróss, ég mætti alls ekki nefna knattspyrnuferilinn, hvorki titlana, fjölda landsleikja eða að hún var fyrsta íslenska konan sem varð atvinnumaður í íþróttum. Þá var engan veginn við hæfi að tilgreina hversu góður starfskraftur hún er, vinnur vel undir pressu og klárar það sem þarf að klára. Kannski Iðunn hefði mátt nefna að henni virðist nú ætla að takast ágætlega upp með Snædísi.. en ekki ég. Og ekkert má segja um hversu gaman getur verið að ræða við hana um heima og geima og hversu heimspekilegar vangaveltur geta verið áhugaverðar. Það mætti reyndar tilgreina hversu mikil stemmingsmanneskja hún er þegar kemur að hvers kyns skemmtunum, snafsar og aðrir drykkir fá alltaf sinn tíma, en helst með tilvísun í einhverja vandræðalega sögu. Skíðaáhugann mætti að sama skapi nefna, en bara ef hún hefði orðið fyrir óhappi eða minni háttar slysi.

Limran ætti auðvitað að tína til allt það neikvæða sem hægt er, vandræðalegar sögur og óheppni.

En þar sem mér datt ekkert í hug endaði þetta sem:

 • Ég þekkti eitt sinn stelpu mjög stolta
 • sem vann við að sparka í bolta
 • en nú vill hún skíða
 • og detta vel í’ða
 • og önnur hver setning er „bolta!“.

Þarna mætti reyndar vera „sem starfaði við ‘spark í bolta’“ fyrir þá sem endilega vilja hafa höfuðstaf með stuðlunum.

Bryndís rifjaði reyndar upp að hún var spurð á Ítalíu fyrir nokkrum árum hvað kæmi til að hún talaði svona góða ítölsku. Svarið var (eitthvað á þessa leið)… jú, sjáðu til, fyrir nokkrum árum voru bara tveir útlendingar í Napólí. Þeir unnu báðir við að spila fótbolta. Annar var Maradona. Hinn var ég.

Þannig mætti bæta limruna og hafa eitthvað á þessa leið

 • Ég þekkti eitt sinn stelpu mjög stolta.
 • Sem starfaði við ‘spark í bolta’.
 • Hún vann bara svona
 • með Maradona
 • í Napolí við spark í bolta.

Flachau - 2014 - 079 - lítil

Nú, við rétt kláruðum að snæða matinn þarna áður en við mættum í fjögurra rétta kvöldmatinn á hótelinu. Ég er ekki frá því að ég hafi verið orðinn ansi saddur um kvöldið.

Flachau, fimmti dagur

Dagurinn var tekinn snemma með alvöru morgunmat og á meðan aðrir drifu sig af stað í smá ferðalag mætti ég í skíðakennslu.

Flachau - 2014 - 025 - lítil

Þessi kennsla var talsvert gagnlegri en sú sem ég sótti fyrsta daginn. Kannski munaði mestu um að hún fór fram á svæði þar sem var snjór. Ég lét klukkutíma nægja og hafði um eitthvað að hugsa, sumar hreyfingarnar voru frekar „ónáttúrulegar“ eða stönguðust á við eðlisávísunina. Og það sem meira var, voru nokkuð á skjön við það sem ég var að horfa á þegar ég fylgdist með fólki skíða niður brekkuna fyrir utan svalirnar hjá okkur.

Flachau - 2014 - 037 - lítil

Ég ákvað svo að leita að tilbreytingu í veitingastöðum, var satt að segja ekkert sérstaklega spenntur fyrir matnum í fjallakofunum, þó bjórinn væri góður þar og stemmingin fín. Ég fann ítalskan stað La Luna, en hann reyndist lokaður – reyndar eins og ansi margir veitingastaðir, sem virðst opna þetta frá þrjú til sjö.

En ég datt að lokum inn á Hoagascht, fékk frábært Carpaccio og úrvals spaghetti með kjötsósu og spínati.. og meira að segja fínasta rauðvín með.

Ég pantaði svo nudd fyrir okkur Iðunni á hótelinu, sem reyndist bara nokkuð gott. Iðunn reyndar tæp á að ná í nuddið klukkan hálf sex því þau höfðu farið ansi langt milli fjallanna.

Um kvöldið var tekin létt „actionary“ upphitun.. sem lauk með fullu húsi beggja liða.

Flachau, fjórði dagur

Morgunmaturinn tekinn jafn snemma og hina dagana – og rokið af stað að ná lyftunni um leið og hún opnaði.

Ég ákvað að skoða aðra möguleika á skíðakennslu og komst að því að ég væri betur settur í einkakennslu hjá First Ski School, en ekki fyrr en á morgun.

Flachau - 2014 - 021 - lítil

En nóg að gera að skoða bæinn og ráfa um og reyna aðeins að ná áttum. Fór svo með Iðunni og Evu til Altenmarkt, þurfti að láta laga lesgleraugun og Eva var að skoða möguleika á skíðagleraugum. Nú var Bryndís komin í freyðivínssmökkun en sat ein að sumbli.

En við söfnuðum saman nokkrum drykkjum og fengum okkur fordrykk uppi á herbergi, fyrst freyðivín í boði Bryndísar, svo gin frá okkur og Bryndísi, fyrst ódýrt íslenskt og svo ekki alveg eins ódýrt Hendricks gin. Það var nú eiginlega talsverður munur, Hendricks í vil.

Flachau, þriðji dagur

Ég hef ekki stigið á skíði síðan ég var eitthvað um tíu/tólf ára.. þá gömul tré skíði með bindingum og skíðabrekkan var bara brekkan heima.

En ég var nú búinn að ákveða, og lofa Iðunni.. og öðrum – að fara í kennslu og reyna að ná þessu. Mér fannst þetta eiginlega ekki geta verið svo merkilegt, mæta í smá kennslu og vera svo klár á morgun. Ég skráði mig í hóptíma hjá skíðaskóla Hermann’s Maier, leigði græjur og mætti klukkan tíu. En eftir labb á skíðaskónum yfir þveran bæinn gekk ekkert sérstaklega vel að ná tökum á þessu. Kannski voru leiðbeiningar kennarans ekkert sérstaklega hjálplegar og kannski var einfaldlega vonlaust að ná einhverju á svellinu þar sem kennslan fór fram.

Flachau - 2014 - 017 - lítil

Ég var að minnsta kosti ekki að fara á skíði á morgun.

En ég tók kláfinn upp til hópsins og fékk mér hádegismat með þeim.

Hugmyndin var svo að hitta Bryndísi og hjálpa henni að smakka freyðivín fyrir afmælisveisluna á veitingastaðnum Dampfkessel en eitthvað fórumst við á mis.

Við nýttum okkur svo margs konar gufubað í kjallaranum, sauna, ilm/eimbað, gufubað og svo var líka einhvers konar infrarautt gufubað. Það var gert ráð fyrir að gestir væru naktir í sameiginlegu baðinu, nokkuð sem við svindluðum á þegar við vorum saman, en ég lét mér í léttu rúmi liggja þegar ég mætti einn í gufu og aðrir voru á skíðum eða að dansa.