Jólakveðja úr Kaldaseli

Það hafa reyndar verið helst til litlar breytingar á högum okkar, Valli er enn hjá Staka, Iðunn á BUGL og Andrés hjá Símanum. Guðjón flutti heim í sumar en Viktor flutti hins vegar til Southampton, þar sem hann stundar framhaldsnám í stjórnmálafræði.

Matarklúbburinn GoutonsVoir hefur oft verið duglegri að hittast en á móti koma auðvitað talsverð gæði í mat og drykk og skemmtun. Aðrir matarklúbbar og hefðbundin matreiðslukvöld hafa líka verið með minna móti. Á hinn bóginn hefur verið óvenju mikið að gera í „óreglulegum“ viðburðum, leikhúsferðum, fótboltaáhorfi, hljómleikum, afmælum, fjölskylduhittingum, matarboðum, skíðaferðum, vínsmökkunum, póker, „pool“ – að ógleymdum Áramóti Iðunnar í bridge og Jólamót Jonna í skák.

Fyrsta utanlandsferð ársins var skíðaferð til Flachau í Austurríki þar sem Bryndís hélt upp á fimmtugsafmælið. Iðunn lét sig hafa það að elta þaulvant skíðafólkið út um allar trissur á meðan Valli reyndi að læra að standa í lappirnar hjá skíðakennara.

Þá helgarferð til London, í þetta sinn voru tvær leikhúsferðir en enginn fótbolti.

Valli fór svo með hálfum fótboltahópnum til Manchester, Leeds og Liverpool að horfa á tvo leiki, meira að segja í fyrsta skipti að sjá Derby County spila.

Næsta ferð var pöntuð fyrir smá mistök en snarlega breytt í tíu daga bjórsmökkunarferð um Belgíu og Holland – Brussel, Hoegaarden, Maastricht, Brugge, Tilburg, Gouda, Westmalle og aftur Brussel.

Haustferðin var snúnari, Valli byrjaði í Amsterdam á árlegri sýningu, þaðan fórum við bæði til Benalmadena, vorum þar fyrst ein og síðan með Magnúsi og Sylvíu. Stutt stopp í London á heimleiðinni, hittum frændfólk Iðunnar og heimsóttum Viktor til Southampton.

Eitthvað var um ferðir innanlands, Sambindið fór í sumarhús í Kjós í janúar, við fórum í skíðaferð til Akureyrar, bara tvisvar á Einifell og svo í Laugarás til Arnars & Unnar í vetur.

Við Fræbbblar gáfum út eitt lag á árinu en höfðum annars frekar hægt um okkur. Kannski var stærsti viðburður ársins Punk 2014 hátíðin í Kópavogi þar sem Glen Matlock spilaði líka.

Skata

Hefðbundin skötuveisla á Þorláksmessu hjá Öggu.. þeas. skata, saltfiskur og plokkfiskur. Ég lét saltfiskinn duga, bæði Iðunn, Jonni og Viktor réðust á skötuna, aðrir af „yngri kynslóðinni“ sem er svo sem ekki lengur svo ung, þáðu plokkfisk.

Einstaklega vel heppnað kvöld og þessar skötuveislur eru að verða jafn mikið tilhlökkunarefni en sjálf jólin.

Slepptum að þessu sinni að fara á flakk, enda kalt, mikið að gera og dagurinn óvenju langur eftir „ræsingu“ eldsnemma.

Ojba Rasta á Gauknum

Kíkti á Gaukinn á Ojba Rasta.. verð að játa að það var nokkuð erfitt að koma sér af stað eftir að hafa dottað í stólnum í stofunni. En ferðin var heldur betur þess virði.

Það er ekkert leyndarmál að mér finnst Obja Rasta einhver skemmtilegasta hljómsveit landsins.. en eins og gengur eru hljómleikarnir þeirra mismunandi. En ég er ekki frá því að þetta hafi verið einhverjir bestu hljómleikar sem ég hef séð hjá þeim.. veit kannski ekki hvers vegna, en stemmingin í hljómsveitinni einhvern veginn frábær.

Ekki verra að hitta Arnar, Alla, Brynju, Óskar, Jón Stefáns… og nokkra fleiri.

Hitti svo nokkra Breiðablikskaratesvartbeltinga rétt þegar ég var á leið í leigubíl heim á leið.. hefði verið gaman að kíkja með þeim á næsta bar (Dubliner) en mikið að gera á morgun – og sennilega verið minna gaman að hafa haldið áfram… svona fer nú skynsemin með mann (stöku sinnum) á þessum aldri.

Fótbolti, forréttabar og Cornwell

Kíktum á seinni hálfleik Arsenal-Newcastle á English Pub, misstum af þremur mörkum á ferðinni á milli staða.

Hittum svo Gumma trommara og afmælisbarn með Ragnheiði systur hans – og þaðan á Forréttabarinn þar sem Rikki slóst í hópinn. Fínn matur og til þess að gera ekkert sérstaklega dýr.

En aðal tilefni kvöldsins voru hljómleikar Hugh Cornwell á Gauknum. Pétur Ben hitaði upp (svona í óeiginlegri merkingu, ég var amk. alveg að sofna) og mér fannst frekar lítið til Hugh koma.. einhvern veginn eins og að vera á sveitaballi þar sem hljómsveitin laumaði áhugalaus inn nokkrum Stranglers lögum, röddin var jú þarna, en ég saknaði kraftsins og „karaktersins“. Rokkabillý band spilaði svo í lokin, eflaust ágætlega gert hjá þeim, en einhvern veginn er þessi tónlist alls ekki minn tebolli.

En samt var þetta stórskemmtilegt kvöld, fullt af skemmtilegu fólki sem við höfum ekki hitt lengi og það nægir til að skapa stórskemmtilega stemmingu.

Fræbbblar á Rokkbarnum

Við Fræbbblar spiluðum á Rokkbarnum í góðum hópi og skemmtilegum hljómsveitum – PungSig byrjuðu, síðan Saktmóðigur og svo tókum við nokkur lög.

Í þetta skipti spiluðum við til skiptis gamalt efni og nýlega útgefið, aðeins eitt óútgefið lag, Sjór.

En Rokkbarinn er með skemmtilegri hljómleikastöðum á svæðinu, fínar græjur og hljómar vel á sviðinu – vel að verki staðið hjá Sindra Thunderbird sem skipulagði hljómleikana og sá um hljóð og græjur.

Ég er ekki frá því að þetta hafi verið með betri hljómleikum okkar – en mér finnst það svo sem oft eftir hljómleika.. að minnsta kosti fín stemming hjá okkur, lítið um mistök og höfðum gaman af að spila.

Karate gráðun

Mætti í gráðun í karate hjá Breiðablik.. var alveg á báðum áttum að mæta – Iðunn slösuð og ekki til – hef mætt þokkalega upp á síðkastið, en missti mikið úr fyrri hluta vetrar.

En í öllu falli þá hafðist bláa beltið í þetta sinn. En mig grunar að næstu skref gætu orðið erfiðari, enda kannski ekki aðalatriðið, þetta er bæði skemmtilegasta leið sem ég hef fundið til að hreyfa mig, fínn félagsskapur og eitthvað við umhverfið sem heillar mig.

Jólahlaðborð Staka

Mættum með Staka í jólahlaðborð í Síðumúla 1, vel heppnað hefðbundið jólahlaðborð. Kannski aðeins of mikið af rauðvíni, bjór og Whisky. Kvöldinu lauk reyndar á slysi þegar Iðunn rann, datt á andlitið og slasaði sig – glóðarauga og brotin gleraugu. Var ekki alveg að kveikja strax á hvað þetta var slæmt.