Greinasafn fyrir merki: Einifell

Einifell

Kíktum á Einifell um helgina í jólalaxareykingu. Þetta er orðin hálfgerð hefð hjá okkur fyrir jólin. Óvenju hlýtt og þægilegt að standa í þessu núna.. reykingar gengu vel, laxinn óvenju fallegur og afraksturinn ansi girnilegur.

Svo var eitthvað eldað af góðum mat, alls kyns aðkeyptu snarli gerð góð skil, jólabjór smakkaður og eðalvín opnuð. Steini eldaði önd á laugardagskvöldinu og Silverado rauðvínið frá Hafliða var frábært.

Iðunn náði reyndar að sulla fyrsta flokks víni yfir gestgjafana. Og kannski hefðum við mátt fara varlegar í Gin og Whisky þegar leið á laugardagskvöldið, þeas. fyrir utan Steina sem hafði rænu á að kasta inn „drykkju-handklæðinu“ tiltölulega snemma.

2014, það sem situr kannski frekar eftir

Einhverra hluta vegna eru það ekki alltaf „stóru“ stundirnar eða viðburðirnir sem sitja eftir á hverju ári… heldur einhverjar allt aðrar.

Ef ég lít til dæmis til baka yfir 2014…

 • Við Iðunn fórum út að borða með Bryndísi í skíðaferðinni í Flachau síðasta daginn, þegar færðin bauð ekki lengur upp á skíðaferð. Stórskemmtileg og viðburðarík ferð með skemmtilegu fólki og stórveislu að hætti Bryndísar.. en einhvern veginn er það þessi rólega stund sem situr helst eftir.
 • Við Iðunn fórum svo á flakk um Belgíu og Holland í byrjun sumars… vorum mjög heppin með staði, veitingastaði, bari, bjóra, rauðvín og hótel. En það sem situr eftir er þegar við vorum búin að keyra til Maastricht úr fluginu, komum okkur fljótlega fyrir uppi á hóteli og drifum okkur í bjór og snarl úti í garði.
 • Jú, reyndar var heimsóknin á TakeOne bjórbarinn í Maastricht minnistæð, áhugasamir barþjónar með mikið úrval af bjór.
 • Og ekki má gleyma garðinum á ítalska veitingastaðnum og heimsóknin á einn sérstakasta bar sem við höfum dottið inn á.
 • Í London komumst við óvænt að því að veitingastaðir vilja síður gesti á sunnudagskvöldum.. Jón & Jóhanna voru í London og við ætluðum á hinn frábæra japanska Roka, sem var (auðvitað) lokaður.. Það hófst hálfgerð neyðarleit að opnum veitingastað í grenjandi rigningu. Loks fundum við opinn stað, grískur staður, Elysée.. ekki bara til að bjarga okkur, heldur var maturinn frábær.
 • Við stóðum að Punk 2014 hátíð með Kópavogsbæ í vor þar sem Glen Matlock úr Sex Pistols kom í heimsókn. Hljómleikarnir voru stór skemmtilegir, en kvöldið fyrir var eiginlega enn eftirminnilegra… við Iðunn fórum með Glen á frábæran veitingastað.
 • Þá fórum við Iðunn mjög skemmtilega flakk-ferð í haust, en kvöldið á Benalmadena þegar við röltum heim í íbúð frá smábátahöfninni, með Magnúsi & Sylvíu, er svona eitt það eftirminnilegasta.
 • Við stoppuðum svo í Southampton og kíktum vil Viktors, var reyndar hálf lasinn.. en fínt kvöld á ítölskum stað.
 • Einifellsferðir eru alltaf með bestu ferðum ársins, en sú stund sem helst situr eftir er sunnudagskvöld með Auði & Steina, eftir annars stórvel heppnaða helgi með matarklúbbnum GoutonsVoir. Við elduðum afganga og annað lauslegt úr ísskápnum og settumst út í kvöldsólina um tíuleytið, í fínum hita og nutum vel heppnaðrar eldamennsku.

Svo eru ekki allar minningarnar endilega jákvæðar…

 • Stórskemmtileg ferð í Laugarnes til Arnars & Unnar & Unnsteins endaði með ansi slæmum veikindum. Nokkurra klukkutíma bið, þar sem ég var einn veikur í sumarbústað (skammt frá „höfuðstöðvunum“) með bilað klósett og beið eftir að ná heilsu til að keyra heim.
 • Magnús tengdapabbi hefur verið veikur og á Þorláksmessu vorum við vakin snemma morguns og sagt að þetta liti alls ekki vel út. Fljótlega kom þó í ljós að þetta var (væntanlega) ekki tengt sjálfum veikindum og það reyndist að ná tökum á þessu og eftir nokkra stund leit hann miklu betur út.
 • Þá vorum við Iðunn stöðugt að detta og sækja marbletti á árinu. Eða réttara sagt, ég datt einu sinni og Iðunn í öll hin skiptin. Eitt skiptið datt hún mjög illa á andlitið, marðist illa.. og ég var ekki fyrir nokkurn mun að kveikja á því hversu illa hún hafði dottið… ekki góð tilfinning þegar ég loksins kveikti á perunni.

Einifells ferð

Mættum á Einifell að borða góðan mat, drekka slatta af bjór og rauðvíni – og fleiri drykkjum – og hjálpa aðeins til við laxareikingu.

Við höfðum ætlað okkur að mæta snemma en heilsan (aðallega á Iðunni!) leyfði ekki að leggja af stað fyrir hádegi… vorum eiginlega ekki komin fyrr en um fjögur.. og Iðunn gafst upp fyrir miðnætti (það má auðvitað ekki segja frá svona).

En þetta eru alltaf rosalega skemmtilegar ferðir enda, félagsskapurinn frábær, þetta er orðin nokkurs konar hefð að mæta fyrir jólin í einhvers konar reyk stúss.

.Einifell - læri Einifell - lax

Fræbbblar á Einifelli

Við Fræbbblar fórum á Einifell um helgina, Auður, Kristín og með en aðrir misstu af – og Gummi þurfti að fara snemma í bæinn í fertugsafmæli mágs síns.

En við settum upp mini græjur í skemmunni og tókum nokkrar „æfingar“ – Auður og Iðunn á heimatilbúinni trommu á þeirri síðustu.Fræbblahelgi

Svo var aðeins hugsað um mat, grilluð hrossalund í forrétt að hætti Gumma var ein besta steik sem við höfum fengið – og erum við ýmsu vön. Hnetusteikin okkar Iðunnar átti eiginlega ekki möguleika sem aðalréttur á eftir þessu, fyrir utan að hún var ekki alveg á pari. Laxasalat Assa & Stínu á laugardag og frábær kjúklingaréttur Auðar & Steina um kvöldið.. og tveir eftirréttir. Svo slatti af víni, bjór, smá Whisky, jafnvel Gin & Toník.. Og alls kyns samantekt á sunnudeginum, alvöru bacon, omeletta..

Jú og Steini vann Petanque mótið.