Greinasafn fyrir merki: Gaukurinn

Lýðræðishljómleikar

Við Fræbbblar spiluðum á Lýðræðishljómleikum Gauksins og gekk eiginlega bara nokkuð vel held ég.. enda erum við ekkert minna en frábær þegar vel tekst til.

En fyrst að sækja græjur, stilla upp og prófa hljóðið hjá Hróa á Gauknum. Svo í karate, heim í mat og beint að spila.

Fínasta mæting þó þetta sé fimmtudagskvöld og ekki annað að heyra og sjá en að fólk hafi skemmt sér vel.. eiginlega mjög margir sem nefndu hvað þetta hefði komið þeim skemmtilega á óvart.

Þá var gaman að hitta foreldra Dóru.

Norðanpaunk og Stakaferðasögugrill

Gönguferðahópur Staka boðaði grill [með afgöngum úr ferðinni], myndir og ferðasögu eftir vinnu. Eitthvað var fyrirvarinn stuttur og/eða áhuginn lítill en við mættum þrír, ég, Alli og Hákon. Við drógum konur og eitthvað af börnum með og fengum fínasta mat og úrvals rauðvín. En gaman að sjá myndir og heyra ferðasöguna.

Við Iðunn fórum svo með Alla og Áslaugu á Gaukinn þar sem upphitun fyrir Norðanpaunk var í gangi.

Ég vil ekki vera leiðinlegur [jú, gott og vel, sennilega er ég leiðinlegur]

En, ég geri ekki lítið úr kraftinum og hraðanum og hversu vel spilandi hljómsveitirnar voru. En fyrir minn skrýtna smekk þá á þetta ósköp lítið skylt við „punk“, að minnsta kosti var tónlistin víðsfjarri því „punki“ sem ég féll fyrir í lok áttunda áratugar síðustu aldar [úff, næstum fjörutíu ár!], jú, jú það komu alveg fyrir skemmtilegir hljómagangar og jafnvel taktar, en.. það er bara ekki nóg.

Því ekkert af því sem ég heyrði á nokkuð skylt við þá tónlist sem ég hafði gaman af og kveikti minn áhuga á „punkinu“, frá hljómsveitum eins og Ramones, Clash, Jam, Sex Pistols, Stiff Little Fingers, Stranglers [og ég er að gleyma slatta].

Einhverra hluta vegna enduðum við heima hjá Áslaugu að hlusta á tónlist, byrjuðum á Strange Little Girl frá Stranglers, en drukkum svo meiri bjór, sem reyndist ekki góð hugmynd daginn eftir.. þeas. meiri bjórdrykkja, gaman að kíkja heim með Áslaugu.

Ojba Rasta á Gauknum

Kíkti á Gaukinn á Ojba Rasta.. verð að játa að það var nokkuð erfitt að koma sér af stað eftir að hafa dottað í stólnum í stofunni. En ferðin var heldur betur þess virði.

Það er ekkert leyndarmál að mér finnst Obja Rasta einhver skemmtilegasta hljómsveit landsins.. en eins og gengur eru hljómleikarnir þeirra mismunandi. En ég er ekki frá því að þetta hafi verið einhverjir bestu hljómleikar sem ég hef séð hjá þeim.. veit kannski ekki hvers vegna, en stemmingin í hljómsveitinni einhvern veginn frábær.

Ekki verra að hitta Arnar, Alla, Brynju, Óskar, Jón Stefáns… og nokkra fleiri.

Hitti svo nokkra Breiðablikskaratesvartbeltinga rétt þegar ég var á leið í leigubíl heim á leið.. hefði verið gaman að kíkja með þeim á næsta bar (Dubliner) en mikið að gera á morgun – og sennilega verið minna gaman að hafa haldið áfram… svona fer nú skynsemin með mann (stöku sinnum) á þessum aldri.

Fótbolti, forréttabar og Cornwell

Kíktum á seinni hálfleik Arsenal-Newcastle á English Pub, misstum af þremur mörkum á ferðinni á milli staða.

Hittum svo Gumma trommara og afmælisbarn með Ragnheiði systur hans – og þaðan á Forréttabarinn þar sem Rikki slóst í hópinn. Fínn matur og til þess að gera ekkert sérstaklega dýr.

En aðal tilefni kvöldsins voru hljómleikar Hugh Cornwell á Gauknum. Pétur Ben hitaði upp (svona í óeiginlegri merkingu, ég var amk. alveg að sofna) og mér fannst frekar lítið til Hugh koma.. einhvern veginn eins og að vera á sveitaballi þar sem hljómsveitin laumaði áhugalaus inn nokkrum Stranglers lögum, röddin var jú þarna, en ég saknaði kraftsins og „karaktersins“. Rokkabillý band spilaði svo í lokin, eflaust ágætlega gert hjá þeim, en einhvern veginn er þessi tónlist alls ekki minn tebolli.

En samt var þetta stórskemmtilegt kvöld, fullt af skemmtilegu fólki sem við höfum ekki hitt lengi og það nægir til að skapa stórskemmtilega stemmingu.

Vantrú, Elín Helena og Gaukurinn

Við ákváðum að taka því rólega þetta föstudagskvöldið.. enda nóg á gera á morgun.

Ég fékk mér reyndar bjór eftir vinnu, yfir „pool“.. og Iðunn mætti í ekki-lengur-rauða-sófann í bjór með sínum vinnufélögum.

Það lá leiðin svo á Hornið þar sem Vantrúarfólk hittist í mat.. alltaf skemmtilegar umræður þegar þessi hópur hittist.

Vantrú - Hornið - apríl 2014 - lítil

Við fórum reyndar áður en samkvæminu lauk til að ná í útgáfuhóf Elínar Helenu á Dillon. Náðum nokkrum lögum með Morgan Kane, flott eins og alltaf.. og sáum Elín Helenu, einhver skemmtilegasta hljómsveit landsins í dag. Nýju vinnufélagarnir mættir þangað, enginn friður…

ElínHelena-Dillon - apríl 2014 - lítil

 

En þar hittum við Jón Örn og fleiri og létum tilleiðast að reyna að ná Bootlegs á Gauknum, enda einhvers konar stuðnings hljómleikar fyrir Gaukinn – og sjálfsagt að styrkja þann frábæra stað.

Við náðum þó ekki að bíða eftir Bootlegs, tvær hljómsveitir eftir áður en kom að þeim.

Og þetta átti jú að vera rólegt föstudagskvöld.

Ojba Rasta á gauknum

Kíkti á Ojba Rasta á Gauknum, flottir hljómleikar á einhverjum skemmtilegasta hljómleikastaðnum í bænum. Skal samt játa að þetta rapp-skot hjá þeim er ekki að gera mikið fyrir mig. Var reyndar hálf þreyttur eftir smá törn og karate æfingu fyrr um kvöldið, þannig að ég lét mér nægja fyrri hlutann, beið reyndar nokkuð lengi eftir að seinni hluti hæfist…

Ojba Rasta - Gaukurinn

Hljómleikar, hljómleikar og smá pool

Iðunn fékk hálfan vinnustaðinn í partý í gær.. þannig að ég fór á smá flakk með Alla, fyrst í pool í Lágmúlanum, sem gekk alveg ágætlega.

Þaðan á Gaukinn að hlusta á OjbaRasta sem alltaf eru betri og betri, en náði ekki að klára þá hljómleika – þurfti að spara leigubíla og nýta ferðir – og rauk á Rokkbarinn í Hafnarfirði. Þar voru svo þrjár hljómsveitir hver annarri betri, Casio Fatso, Morgan Kane og Dorian Gray. Nánar um það í sér bloggfærslu.

Að lokum heim í Kaldaselið þar sem samkvæmið var enn í fullu fjöri og stóð fram eftir nóttu.