Jólakveðja úr Kaldaseli

Það hafa reyndar verið helst til litlar breytingar á högum okkar, Valli er enn hjá Staka, Iðunn á BUGL og Andrés hjá Símanum. Guðjón flutti heim í sumar en Viktor flutti hins vegar til Southampton, þar sem hann stundar framhaldsnám í stjórnmálafræði.

Matarklúbburinn GoutonsVoir hefur oft verið duglegri að hittast en á móti koma auðvitað talsverð gæði í mat og drykk og skemmtun. Aðrir matarklúbbar og hefðbundin matreiðslukvöld hafa líka verið með minna móti. Á hinn bóginn hefur verið óvenju mikið að gera í „óreglulegum“ viðburðum, leikhúsferðum, fótboltaáhorfi, hljómleikum, afmælum, fjölskylduhittingum, matarboðum, skíðaferðum, vínsmökkunum, póker, „pool“ – að ógleymdum Áramóti Iðunnar í bridge og Jólamót Jonna í skák.

Fyrsta utanlandsferð ársins var skíðaferð til Flachau í Austurríki þar sem Bryndís hélt upp á fimmtugsafmælið. Iðunn lét sig hafa það að elta þaulvant skíðafólkið út um allar trissur á meðan Valli reyndi að læra að standa í lappirnar hjá skíðakennara.

Þá helgarferð til London, í þetta sinn voru tvær leikhúsferðir en enginn fótbolti.

Valli fór svo með hálfum fótboltahópnum til Manchester, Leeds og Liverpool að horfa á tvo leiki, meira að segja í fyrsta skipti að sjá Derby County spila.

Næsta ferð var pöntuð fyrir smá mistök en snarlega breytt í tíu daga bjórsmökkunarferð um Belgíu og Holland – Brussel, Hoegaarden, Maastricht, Brugge, Tilburg, Gouda, Westmalle og aftur Brussel.

Haustferðin var snúnari, Valli byrjaði í Amsterdam á árlegri sýningu, þaðan fórum við bæði til Benalmadena, vorum þar fyrst ein og síðan með Magnúsi og Sylvíu. Stutt stopp í London á heimleiðinni, hittum frændfólk Iðunnar og heimsóttum Viktor til Southampton.

Eitthvað var um ferðir innanlands, Sambindið fór í sumarhús í Kjós í janúar, við fórum í skíðaferð til Akureyrar, bara tvisvar á Einifell og svo í Laugarás til Arnars & Unnar í vetur.

Við Fræbbblar gáfum út eitt lag á árinu en höfðum annars frekar hægt um okkur. Kannski var stærsti viðburður ársins Punk 2014 hátíðin í Kópavogi þar sem Glen Matlock spilaði líka.