Flokkaskipt greinasafn: póker

Vetrarstarfið

jæja, komið haust og „vetrarstarfið“ að hefjast.

Vonandi verða æfingar Fræbbblanna reglulegri og vonandi klárum við efni á nýja plötu. Það er einhverra hluta vegna, alltaf snúið að ná mörgum æfingum yfir sumarið. Það er einhver spilamennska framundan, að minnsta kosti Iceland Airwaves í byrjun nóvember, og vonandi nokkur skipti, þar fyrir utan.

Svo er fótbolti með stórskemmtilegum Postulahóp á hverju mánudagskvöldi, alltaf hörkukeppni og ekki verra að hafa titil að verja í þetta sinn.

Þá er karate hjá Breiðabliki tvisvar til þrisvar í viku, í þetta skipti stefnt á fyrsta „alvöru“ beltið, þeas. það brúna… verður væntanlega erfitt, en ég ætti að geta mætt reglulega – sem er, auk góðra þjálfara, lykillinn að því að ná framförum.

Við gerum ráð fyrir að spila póker einu sinni í mánuði, spilakvöld sem snúast ekki síður um bjórsmökkun en póker, en hafa heppnast sérstaklega vel.

Og þá treysti ég á reglulega matarklúbbshittinga, bæði hjá Goutons Voir og Rúv-Tops… (sem hefur ekkert lengur með Rúv að gera).

Þarf fyrir utan grunar mig að við eigum eftir að bjóða góðu fólki í mat og jafnvel að okkur verði boðið í mat þegar svo ber undir… og ef ekki, þá fer ekkert illa um okkur hér í Kaldaselinu.

Ein löng helgarferð er komin á dagskrá, Prag í lok september, með Brynju & Óskari. Prag er næst síðasti staðurinn sem við eigum eftir að heimsækja af löngum lista sem við settum upp fyrir 15-20 árum – sá síðasti Whisky ferð til Skotlands.

Í þetta skiptið verða breytingar í vinnunni hjá mér, ég verð ekki lengur launþegi heldur dottinn aftur í að vera með eigin rekstur.

Pool mót Staka

Þurfti að láta bikarinn fyrir Pool mót Staka… enda ekki við öðru að búast, hef ekki spilað leik í ár. En byrjuðum heima hjá Jóni (og Jóhönnu) í afbragðsmat, bjór, hvítvíni, rauðvíni og jafnvel Whisky.

Þaðan á Poolstofuna í Lágmúla þar sem mér gekk nú eitthvað betur en ég þorði að vona, náði amk. í milliriðil, en átti ekki erindi lengra. Sævar vann svo Fribba í úrslitaleik.

Í einhverjum vitleysisgangi datt ég inn í póker á Magma, gekk þokkalega þar til einhver rak á eftir mér að fara í bæinn að hitta Iðunni, sem var á Kalda.. tók smá áhættu og tapaði með tvær áttur á móti tveimur nýjum. En hitti bæði þá sem enn stóðu uppi af Staka fólki og svo Iðunni á Kalda, þar sem við hittum amk. Nínu, gamla æskuvinkonu hennar. Aldrei þessu vant vildi ég segja þetta gott, en Iðunn dró okkur á Ölstofuna, sem var svo sem fínt, hittum Kötu og Jón Stefáns (og eitthvað af fólki sem ég er búinn að gleyma hverjir voru!). Tókum bíl með Fribba og Tóta svona eitthvað nálægt klukkan fimm.

Amsterdam, laugardagur, IBC

Var rosalega þreyttur áður en ég fór að sofa, ákvað að slökkva á vekjaraklukkum og leyfa svefninum að hafa sinn gang. Enda svaf ég eins og steinn, svaf vel út en ekkert óheyrilega lengi. Morgunmatur á nálægum veitingastað og svo á IBC. Náði að heimsækja þokkalega mörg fyrirtæki, mikil þróun, betra streymi, meira gagnamagn, meiri upplausn, stærri skjáir og almennt svona frekar stöðugt framhald og fyrirtækin að ná hvert öðru.

360 gráðu myndavélar voru alls ráðandi í „Future Zone“ en eins flott og þetta er, hvort sem það eru hjálmar, hanskar eða kúlur.. þá sé ég ekki gagnið í framtíðinni.

Náði restinni af Arsenal-Southampton, fór á Paste e Basta og fékk frábæran mat, eðal þjónustu og alvöru stemmingu – þjónarnir skiptast á að syngja!

Svo upp á hótel í Sauna  og pott, datt inn á frekar undarlegan bar, fann engan frá RT Software en hitti Árna á EuroPub… Árni var hins vegar á leiðinni heim.  De Bekeerde Suster var lokuð þannig að þrátt fyrir að nenna ekki í Casino datt ég nú samt þangað, tapaði 50 Evrum í póker fyrir óþolandi heppnum náunga sem ætlaði að tudda mér út með tvær fimmur á móti mínum tveimur drottningum.. og gaurinn datt einmitt um þriðju fimmuna.

En, þarf svo sem ekki að kvarta, er í fínum plús á Casino heimsóknum.

Þaðan á LB Whisky barinn, þeir státa sig af hátt í þrettán hundruð tegundum af Whisky en áttu ekkert handa mér fyrr en í áttundu tilraun. Rölti svo upp á hótel í rigningunni, hafði hugsað mér að grípa einhvers konar rusl fæði en borgin var búin að loka.

Síðasta spilakvöld vetrarins

enda komið sumar.

En Alli, Alli, Áslaug, Brynja og Óskar mættu í grillað lambafillet og síðustu pókermót tímabilsins – Guðjón spilaði fyrsta mótið. Og Agla mætti án þess að spila..

Alli F., gerði alvöru Bernaise sósu – og matseldin tókst eiginlega bara nokkuð vel.

Mér tókst að verjast áhlaupi Óskars og vinna 2015-2016 mótaröðina.

En einstaklega skemmtileg kvöld, enda einstaklega skemmtilegur hópur. Kannski ekki alltaf rosalega skynsemi í að byrja þriðja mótið, eigum til að vera allt of lengi fram eftir.

Póker - júní - 2