Greinasafn fyrir merki: Lefty Hooks & The Right Thingz

Lokadagur Airwaves

Aftur varð eitthvað minna úr flakki en bestu áform höfðu gert ráð fyrir. Þurfti auðvitað að byrja að horfa á Arsenal-Tottenham.. og svo komst ég bara ekki af stað, langaði að sjá Heiðu og Svavar Knút og fleiri.

Komst svo loksins af stað og mætti í Iðnó þar sem norska hljómsveitin Make Dreams Concrete náði engan veginn að heilla mig. Finnska hljómsveitin Pertti Kurikan Nimipäivät var hins vegar ansi sérstök, sennilega eina hljómsveitin sem ég hef hlustað á sem spilar styttri lög en við Fræbbblar. Örstutt, einföld, keimlík lög og kannski frekar ómerkileg í sjálfu sér, en það er samt eitthvað heillandi við þá.

Næst yfir á BarAnanas þar sem ég náði í endann á Lefty Hooks & The Right Thingz, með „Gnúsa“ innanborðs og svo Amabadama, mjög skemmtileg – og nýja efnið virkar mjög vel… ekki leiðinlegt að heyra að gamli skólabróðirinn Jón Stefánsson, á einn textann.

Jæja, svo kíkti ég með Jonna og Skúla á PJ Harvey í Valshöllinni. Mjög flottir hljómleikar og sé ekki eftir að hafa farið. Sáum reyndar Mammút á undan og þau voru talsvert miklu betri en þegar ég sá þau síðast (reyrndar fyrir einhverjum árum), ekki kannski alveg mín deild en þeim á örugglega eftir að ganga vel.

En, að PJ Harvey, mjög flottir hljómleikar, duttu kannski aðeins niður um tíma, en virkilega góðir hljómleikar, ég segi ekki á topp tíu, enda fáránlegt að raða hljómleikum upp í ímyndaða gæðaröð.. amk vel yfir meðallagi. Hljómsveitin reyndar fjölmennari en ég átti von á, tíu manns, tveir trommarar, þrír að spila á hljómborð, fjórir á gítar, einn á bassa, nokkrir á saxófón…

airwaves-sunnudagur-4

Ég hef reyndar verið að hljómleikum þar sem flytjandi spjallar meira við áhorfendur, en kannski hafði hún ekkert að segja.