Greinasafn fyrir merki: St Etienne

Ísland – Portúgal

Leikur í St. Etienne og við fórum af stað rétt fyrir hádegi. Stoppuðum aðeins á leiðinni og vorum kominn upp úr þrjú að borginni. En það tók óratíma að komast inn í borgina, finna hótelið, „Centre International de Séjour André Wogenscky“ og koma okkur fyrir þar. Ekki merkilegt hótel, eiginlega nær því að vera gistiheimili, en vel staðsett og hreint. En engin handklæði og engar sápur. Við gátum leigt handklæði en það var einfaldlega engin sápa í boði.

Við fundum veitingastað rétt hjá hótelinu sem leit vel út en var lokaður og sá næsti var niðri á einu torginu. Þar var okkur sagt að það væri ekki matur í boði fyrr en eftir þrjú korter.. allt í lagi, fengum okkur bjór og settumst niður. En þegar þar að koma var heldur enginn matur í boði.. Vorum orðin sátt við að fá bara eitthvað, hittum Aniku & Örn, sem voru nýbúin að panta pizzu á næsta torgi, laust borð við hliðina á þeim, en þá var okkur sagt að það væri allur matur búinn. Við fundum á endanum stað sem seldi rétt svo ætar pizzur og létum okkur hafa það. Við sátum við hliðina á fjórum skotum sem voru spenntir fyrir leiknum. Viktor var svo kominn og fann okkur að lokum á staðnum. Orðið ansi langt síðan við hittum hann… En ákváðum að rölta á FanZone og fá okkur bjór, þegar þangað kom voru flestir farnir á völlinn þannig að við stoppuðum stutt og fórum svo líka. Enda kannski eins gott, það tók sinn tíma að komast inn. Við vorum búin að reyna lengi að hitta Krissa & Rúnu og Salóme, en þau voru alltaf einu skrefinu á undan okkur og eftir leik þurftu þau að drífa sig til baka til Lyon.

Það var ótrúleg stemming á leiknum og við höfum nú eiginlega ekki upplifað annað eins.. og vorum við þó í Amsterdam í haust þegar Ísland vann Holland. Frábært að ná þessu jafntefli og fýlupúkagangurinn í Ronaldo gerði nú ekki annað en að gera þetta enn sætara.

Eftir leikinn langaði okkur Iðunni að fá okkur bjór í örlítið meiri rólegheitum en var í boði á börunum við völlinn þannig að við röltum af stað í áttina að hótelinu en Viktor varð eftir með vinum sínum.. Það fækkað alltaf opnum stöðum eftir því sem við fjarlægðumst völlinn, helst Kebab staðir með dósabjór í boði. Iðunn vildi eiginlega bara fara inn á hótel en eitthvað tókst mér að þrjóskast við, duttum að lokum inn á torgið frá því fyrr um daginn og þar var nóg opið. Og þarna hittum við fullt af fólk í góðum gír, Bjössi, Árni Páll, Þórhallur (Dagbjartar og tengdasonur Hákonar og Kötu), skotarnir sem við hittum fyrr um daginn og fullt af fólki sem við höfum ekki hitt áður – við sátum fram til tvö, þorðum ekki að sitja lengur enda þurftum við að losa herbergið klukkan tvö daginn eftir.

St. Etienne - leikur - 2