Greinasafn fyrir merki: París

Ísland – Austurríki

Leikdagur. Úrslitadagur. Tólfan hafði boðað hitting hjá Rauðu myllunni, og eftir morgunmat og einhverja bið eftir Alla og Viktori, drifum við okkur þangað en vorum ekki komin fyrr en milli tvö og þrjú. Þar var heldur betur stemming og við sátum að bjórdrykkju þar til það var löngu kominn tími til að fara. Þarna hittum við Dísu & Magga & Fannar og fullt af fólki, en kannski hlutfallslega fáa sem við þekktum. Það gekk svo ekkert að finna snarl en létum það liggja á milli hluta.

Troðfull lest að leikvanginum þar sem verðirnir buðu upp á andlitsmálningu fyrir þá sem vildu, einfaldur stimpill var fín leið til að afgreiða þetta hratt og vel. Ég greip hálfa pylsu fyrir utan völlinn og eitthvað sem líktist kjúklingasamloku þegar inn var komið og sullaði í mig vatnsþynntum bjórnum.

En frábær stemming fyrir leik og enn betri á leiknum. Mér tókst víst að hoppa á stóru tánni á Iðunni þegar Ísland komst 1-0 yfir… það blæddi talsvert og Viktor linnti ekki látum fyrr en hún fór í aðhlynningu. Þau misstu af vítinu sem Austurríki klúðraði og markinu sem var dæmt af Íslendingum.

Eftir að Austurríkismenn minnkuðu muninn tóku við ansi langar mínútur og þær síðustu 10 voru fáránlega lengi að líða. Við vorum á þriðja bekk, aftan við mark Íslands í fyrri hálfleik og Austurríkis í seinni hálfleik. Í öllum leikjunum höfðum við verið fyrir aftan annað markið og öll mörkin höfðu verið skoruð hinum megin á vellinum. Það er að segja þar til Ísland komst í 2-1 með síðustu spyrnu leiksins. Staðsetningin hjá okkur var samt þannig að við sáum boltann ekki fara inn, héldum að skotið hefði endað í hliðarnetinu… svo byrjuðu leikmenn og áhorfendur að fagna.

Frábært! Bókstaflega hrikalega frábært..

Við Iðunn og Alli fórum út svo þau gætu reykt, en þegar við vorum komin að hliðinu var búið að loka öllum útgönguleiðum af lögreglu á hestum. Enda byrjaði að rigna og Iðunn fann ekki regnhlífina í töskunni.. (þeas. ekki fyrr en við vorum komin í lestina). Eftir nokkra stund tókst okkur að komast í troðfulla lestina og fórum út á Place de Clichy. Þar leituðum við að veitingastað og Viktori og félögum, tók sinn tíma og slatta af ruglingi, en hafðist á endanum. Fengum frekar ómerkilega hamborgara á Indiana og horfuðum á leik Svía og Belga yfir matnum.

Eftir matinn tókum við nokkra bjóra, hittum slatta af fólki og þekktum nú talsvert fleiri en áður, þmt. Frey, sem tók viðtal við okkur sbr. Sarpinn hjá Rúv. En einhvern veginn var allur vindur úr okkur, O‘Sullivans barinn (sem var einhvers konar miðstöð) var ýmist troðfullur og/eða með dúndrandi hávaða. Við fundum ekki Dísu & Magga, sem voru á hóteli á horninu og tókum bíl niður í bæ um eitt / hálf tvö. Við gleymdum að láta Viktor vita, sem var reyndar með fullt af félögum, en fengum okkur Gin og Tonic á bar í nágrenni við hótelið.. svona fyrir svefninn.

París - leikur - 3

Parísarrölt

Þetta var skoðunarferðadagurinn og við ætluðum að grípa einhver söfn, td. sem Freyr Eyjólfs hafði bent okkur á. En dagurinn gekk hægt, fyrst röltum við að Eiffel, svo bjór, þurfti Viktor (eðlilega) að sjá þinghúsið, svo röltum við þangað til við hittum Hafstein og Sigga (sem býr þarna). Viktor „skaust“ aðeins að skoða Sigurbogann og svo röltum við undir leiðsögn Sigga sem leið lá inn að næsta bjór og snarli. Við Iðunn fengum ostaplatta sem var akkúrat það sem við þurftum. Þarna hittum við Steve McManaman og náðum að sannfæra hann um að Englendingum stafaði engin hætta af Íslendingum ef svo skyldi fara að liðin mættust (sbr. fá vopn).

Áfram stýrði Siggi okkur að næsta íþróttabar, The Great Canadian Pub, þar sem við horfðum á leiki kvöldsins, átum hamborgara og grísasamlokur, drukkum talsvert af bjór og leystum málin. Tommi kíkti með okkur á seinni hálfleik Spánverja og Króata og við slógum upp fámennum Sambindisfundi.

Þessi dagur var einhver sérstakur tónlistardagur og tónlistarmenn að spila frá 17:00 og fram undir morgun, nánast á hverju götuhorni. Við duttum á mjög skemmtilegt götuhorn, hlustuðum á einhvers konar trommusveit, horfðum á Norður-Íra – sem voru að fagna sæti í sextán liða úrslitum – baða sig í gosbrunni á staðnum og gripum svo Kebab fyrir svefninn. Og Leffe og vindil í garðinum á hótelinu, svona líka rétt fyrir svefninn!

París - nótt - 3

Til Parísar

Þá var komið að ferðinni til Parísar.. Við gerðum svo sem ekki meira um morguninn en að pakka og fá okkur morgunmat og auka kaffi. Tókum bíl upp á flugvöll um hádegi og flugum til Parísar um hálf þrjú. Við vorum svo komin niður í miðbæ þar sem hótelið okkar, Carina, var á besta stað í bænum, rétt hjá Eiffel. Þeir eru hins vegar ekkert að gefa bjórinn á veitingastöðunum, 10 Evrur fyrir hvern, takk fyrir.

Um kvöldið hittum við Gyðu & Jón í mat á ítalska staðnum, Au Moulin á Vent, í latínuhverfi Parísar – svona í miðri þvottatörn hjá Alla. Iðunn og Viktor fengu sér froskalappir og snigla og við fengum okkur öll nautalund. Mín var full mikið steikt.. jafnvel eftir að við Gyða skiptum (enda höfðu pantanirnar sennilega ruglast). Fínasta steik, en ég geri nú betur sjálfur þegar vel tekst til.

Kíktum svo á seinni hálfleik á England – Slóvakía á bar í nágrenninu. Þar var bjórinn á viðráðanlegu verði á þokkalega skemmtilegum bar, en af svipnum á Jóni að dæma þá var rauðvínsglasið hálfgert sull. Við entumst svo sem ekki lengi og tókum bíl upp á hótel.

París - kvöld - 2