Greinasafn fyrir merki: Ölstofa

Rokkhátíð á Ölstofu Hafnarfjarðar

Við Fræbbblar spiluðum á Rokkhátíð Ölstofu Hafnarfjarðar.. mættum með græjur upp úr hádegi, stilltum upp og fengum hljóðið í lag.

Einhverra hluta vegna vorum við mjög seint á dagskrá, náðum þó að færa okkur til 2:00 í stað 3:00.. en ekki heppilegasti tíminn fyrir okkur og ekki góður tími fyrir þá sem kannski hefðu mætt til að sjá okkur. Einhverjir komu nú aðallega til þess en gáfust samt upp á biðinni..

En, mættum frekar seint, enda erfitt að fara að spila eftir að hafa verið að hlusta í marga klukkutíma. Við rétt náðum Sign – sem hljómuðu ágætlega, það sem við heyrðum – síðan kom Guns & Roses Tribute band, rosalega vel gert, en afskapleg finnst mér þetta lítið spennandi tónlist. Einhver kallaði þetta skallapopp með metalhljóm, ekki ég, en skil hvað átt er við. Þá kom 3B blúsband sem var líka mjög vel spilandi en aftur ekki mín tónlist. Við áttum þokkalegt kvöld, held ég, ekki kannski okkar bestu hljómleikar, en langt frá því að vera okkar verstu. Mosi músík (ekki skylt Mosa frænda) luku svo kvöldinu, komu þægilega á óvart.

En frábært framtak hjá Ölstofunni… vonandi fáum við með ef þetta verður endurtekið að ári og vonandi fyrr á ferð.

Ölstofuhljómleikar og jólamatur

Við Fræbbblar spiluðum á Ölstofunni í Hafnarfirði í kvöld. Verð að játa að ég hef ekki komið þarna áður, missti af hátíðinni þeirra í fyrra, en þetta er mjög skemmtilegur staður.. er Hafnarfjörður að verða miðpunktur rokksins? Rokkbarinn búinn að halda úti „lifandi“ tónlistarstað í nokkur ár og Ölstofan hefur verið með rokkhátíð. Fín aðstaða og fínar græjur og Máni sá til að hljóðið var fyrsta flokks.

Reyndar hófu Átrúnaðargoðin „leik“, einhver skemmtilegasta rapp hljómsveit landsins (OK; ég er ekki alveg hlutlaus) og við spiluðum svo blöndu af nýju og gömlu efni.

Mætingin hefði auðvitað mátt vera betri, en kannski er seint á föstudagskvöldi í jólahlaðborðavertíðinni ekki besti tíminn fyrir okkur.. En þeir sem mættu skemmtu sér nokkuð vel að okkur heyrðist, og gaman að sjá að nokkrir gestir frá Rokkbarnum frá síðustu viku voru mættir aftur núna.

En talandi um jólahlaðborð, fyrir spilamennskuna mættum við í jólahlaðborð Staka á Skrúð á Hótel Sögu.. við Iðunn þurftum að fara frekar snemma, en fannst við ekki vera að missa af miklu, þjónusta fyrsta flokks, en maturinn einhvern veginn ekki mjög spennandi, kannski ekki við Hótel Sögu að sakast, kannski er þetta bara orðið frekar þreytt fyrirbæri..