Greinasafn fyrir merki: Ísland – England

Ísland – England

Þá var komið að síðasta „legg“ ferðarinnar, þeas. áður en við færum heim. Við vorum búin að panta lestarferðir frá Tréport gegnum Abbeville og París. Það rigndi hressilega og við ákváðum að panta leigubíl. Sá var orðinn frekar seinn fyrir og við hefðum varla náð að ganga þetta, en hann kom nú samt tímanlega. Þegar á stöðina kom var engin lest en ég sá að rútan var merkt Abbeville og sama fyrirtæki, þannig að mér datt í hug að spyrja bílstjórann hvort við ættum nokkuð að fara með honum, sem var einmitt tilfellið.

En rútan stoppaði í Abbeville, þaðan tók við lest, til þess að gera langt stopp í Amiens áður en hún hélt áfram til Parísar. Við fengum þokkalegasta Spaghetti Bolognese beint á mót Gare du Nord lestarastöðinni áður en við héldum áfram til Amsterdam.

Reyndar kom í ljós í lestinni að það voru einhverjir aðrir í sætunum okkar. Og þegar betur var að gáð hafði ég pantað ferðina á morgun. Við gátum þó setið í næstu sætum til Brussel og stóðum svo í veitingavagninum megnið af ferðinni þaðan, rétt tylltum okkur síðasta spölinn frá Schiphol til miðbæjarins. Þannig að þetta hafðist… en við þorðum ekki fyrir okkar litla líf að spyrja ráða í lestinni, vorum smeyk um að verða hent út.

Við vorum svo komin upp á Krasnapolsky um sex leytið, stutt sturta og skipt um föt og svo yfir á Savini að borða Carpaccio og trufflusveppa Risotto. Máltíðin var reyndar trufluð talsvert að heiman og ég náði nú einhvern veginn ekki að njóta matarins. Leikur Ítalíu og Spánar var í gangi og Ítalir unnu, enda vorum við á ítölskum stað… en áhuginn á leiknum var nú reyndar ekki mikill.

Svo var spurning hvar við ættum að horfa á Ísland-England. Satellite við Leidseplein er svo sem fínn íþróttabar, en smá spöl í burtu og við gerðum kannski ráð fyrir að ensku áhorfendurnir yrðu aðallega þar. Það eru tveir þokkalegir barir við Warmoesstraat, en þó Belushi‘s væri með leikinn á fullt af skjám og ágætis úrval af bjór, þá var spiluð hávær tónlist og engin áform að skipta yfir á hljóðið frá leiknum.

Þannig að við fórum á Players, fengum fín sæti og fínan bjór. Meirihluti annarra gesta var Englendingar að fylgjast með sínu liði, en allir aðrir virtust halda með Íslandi. Við þorðum nú samt ekki að vera í „tólfu-peysunum“.

Það þarf svo sem ekki að segja mikið um leikinn, smá svekkelsi í upphafi, frábært að fá jöfnunarmark og alveg galið að fá sigumarki. Englendingarnir ógnuðu ekki mikið og íslenska liðið í rauninni nær því að skora þriðja markið (og það í tvígang), en þeir ensku að jafna. Síðustu mínúturnar voru reyndar óendanlega lengi að líða og ég óttaðist að örvæntingarfullar tilraunir Englendinga myndu skila marki, sérstaklega eftir að Rashford kom inn á, hann virtist talsvert meira ógnandi en aðrir leikmenn Englendinga.

En ég get ekki annað en minnst á íslensku áhorfendurna. Þeir yfirgnæfðu þá bresku nánast allan leikinn.. „búmm“ mjög áberandi og íslensku frasarnir heyrðust skýrt og greinilega.

Eftir leik röltum við niður að „nýja markaði“ og keyptum okkur bjór á De Bekeerde Suster. Við vorum svo sem ekki lengi, en röltum (óhjákvæmilega) í gegn um rauða hverfið á leiðinni upp á hótel.

Amsterdam - Players - Ísland - England