Greinasafn fyrir merki: Hugh Cornwell

Fótbolti, forréttabar og Cornwell

Kíktum á seinni hálfleik Arsenal-Newcastle á English Pub, misstum af þremur mörkum á ferðinni á milli staða.

Hittum svo Gumma trommara og afmælisbarn með Ragnheiði systur hans – og þaðan á Forréttabarinn þar sem Rikki slóst í hópinn. Fínn matur og til þess að gera ekkert sérstaklega dýr.

En aðal tilefni kvöldsins voru hljómleikar Hugh Cornwell á Gauknum. Pétur Ben hitaði upp (svona í óeiginlegri merkingu, ég var amk. alveg að sofna) og mér fannst frekar lítið til Hugh koma.. einhvern veginn eins og að vera á sveitaballi þar sem hljómsveitin laumaði áhugalaus inn nokkrum Stranglers lögum, röddin var jú þarna, en ég saknaði kraftsins og „karaktersins“. Rokkabillý band spilaði svo í lokin, eflaust ágætlega gert hjá þeim, en einhvern veginn er þessi tónlist alls ekki minn tebolli.

En samt var þetta stórskemmtilegt kvöld, fullt af skemmtilegu fólki sem við höfum ekki hitt lengi og það nægir til að skapa stórskemmtilega stemmingu.