Greinasafn fyrir merki: Fram

Fótbolti og fótbolti

Kíkti á restina af fyrri hálfleik og allan þann seinni hjá „Breiðablik – Fram“. Leikurinn tapaðist 1-2, þrátt fyrir talsvert mikla yfirburði Blika það sem ég sá, nema í því eina sem skiptir máli – að skora. Þar höfðu Framarar yfirhöndina… þeir voru væntanlega sáttir við sigurinn og að tryggja endanlega sæti í efstu deild, en mikið svakalega vorkenndi ég þeim að sparka eitthvað út í loftið og hlaupa svo á eftir boltanum megnið af seinni hálfleik.. og byrja að tefja þegar meira en hálftími er eftir. Þetta hefði kannski verið minna pirrandi ef Hólmbert hefði skorað en hann fór út af í hálfleik.

En talandi um Blika, mér er nú eiginlega fyrirmunað að skilja hvernig og hvers vegna sumarið er að enda svona hjá annars stórgóðu og flottu liði. Evrópusætið fjarlægist stöðugt en þótt ótrúlegt megi virðast er það enn mögulegt og jafnvel ekki einu sinni svo fjarlægt. Ef liðið spilar af fullri getu og klárar síðustu þrjá leikina þá þarf ekki mikið til að stela Evrópusætinu aftur á lokasprettinum.

Svo í Postula fótboltann um kvöldið, Jonni mætti í fyrsta sinn í nokkur ár, og augljóst að það er nokkuð síðan hann hefur spilað, en líka augljóst að hann hefur fínan leikskilning og skoraði fimm mörk. En þetta var eitt af þessum leiðinlegu fótboltakvöldum þar sem óhemjugangur og frekja eru það eina sem maður man eftir.

Blikabikartap

Kíkti með Arnari (Framara) á „Breiðablik-Fram“ í undanúrslitum bikarsins.

Fyrri hálfleikurinn var með þeim slakari sem ég hef séð til Blika í sumar, minnti óþægilega á leikinn við Fram í deildinni fyrr í sumar. Blikar voru engan veginn nægilega vakandi í fyrsta markinu, kannski treystu þeir á að aðstoðardómarinn hefði séð rangstöðuna og vítið er með þeim ódýrari sem ég hef séð. Fínn seinni hálfleikur dugði ekki til, markvörður Fram varði hvað eftir annað vel og varnarmaður bjargaði á línu þegar á þurfti að halda… aðeins eitt mark og Blikar úr leik.

En Hólmbert fær ósk sína uppfyllta að spila úrslitaleik bikarsins, frábært fyrir hann.

Þá er bara að slá Aktobe út úr Evrópukeppninni og vinna Íslandsmeistaratitilinn…

Annars ætlaði ég að skamma Blika fyrir að samþykkja þennan leiktíma, en sé á viðtölum að þetta var ákveðið af KSÍ í óþökk Blika, átta mig ekki á hvað er í gangi…