Greinasafn fyrir merki: Fræbbblarnir

Matlock kemur

Glen Matlock kemur í byrjun maí að spila á Punk 2014 kvöldinu á menningardögum Kópavogs. Hann verður í þetta sinn einn og spilar lögin á kassagítar og syngur sjálfur. Ég neita því ekki að þetta er undarleg hugmynd, en ég hef séð skemmtileg viðtöl við hann þar sem hann segir frá því hvernig lögin urðu til.

Við Fræbbblar spilum á undan. Einnig Q4U.

Við höfum ekki náð að æfa mikið, en náðum tveimur dögum í röð.

Já, og ef einhver veit ekki hver Glen Matlock er, þá er hann bæði núverandi og upphaflegur bassaleikari Sex Pistols – samdi flest lögin og spilaði á plötunni.

Skák, karate og æfing

Tiltölulega þétt dagskrá, skákmót Símans og dótturfélaga seinni partinn, svo karate og þaðan á Fræbbblaæfingu.

Skákmótið gekk nú eiginlega ekki neitt, ég náði öðru sæti í fyrra og þá datt allt með mér… í þetta sinn voru grófu afleikirnir nokkuð margir í þeim skákum sem ég var að tefla þokkalega framan af. Í staðinn náði ég að „stela“ vinningum í þeim sem ég tefldi illa frá upphafi.

Punk í Kópavogi

Hitti Lista- og menningarráð Kópavogs vegna hugmynda um að taka aftur upp Punk hátíðirnar í Kópavogi.

Byrjuðum á að rölta um gömlu undirgöngin, væri gaman að gera eitthvað þar, en staðurinn þolir nú varla stóra eða langa hljómleika. Ég var svo sem ekki mikið þarna á þessum árum, en staðurinn tengist tónlist áranna í huga margra.

Undirgöngin - 4 - lítil

En það er greinilega mikill áhugi hjá ráðinu að gera eitthvað, við stefnum á að halda hátíðina 2014 í tengslum við lista og menningardaga Kópavogs. Mögulega verðum við Fræbbblar með eitt kvöld í lok þessa árs þar sem 35 ár eru liðin frá því að við spiluðum fyrst.

MK afmæli

Menntaskólinn í Kópavogi er fjörutíu ára þessa dagana og einn liðurinn í „uppáhaldinu“ var afmælishátíð á SPOT í gær. Við Iðunn (sem eiginkona og söngkona Fræbbblanna) mættum í matinn ásamt Helgu Sigurjóns, við Helga vorum reyndar einu sjötíu-og-níu útskriftarnemendurnir í matnum. Humarsalatið kom meira að segja skemmtilega á óvart. En við vorum í góðum hóp, sátum með Auði & Steina, Rúnu & Krissa og Vilmari og svo bættust nokkrir úr okkar árgangi í hópinn eftir mat – já, og meira að segja úr öðrum árgöngum, Assi og Stína mættu auðvitað strax eftir mat.

En flott kvöld, gaman að heyra upprifjun Margrétar skólameistara á móttökuræðu fyrir nokkuð mörgum árum, Gissur Páll magnaður og Sigtryggur skemmtilegur sem Bogomil Font. Það var svo bókstaflega stanslaust stuð þegar við Fræbbblar spiluðum nokkur lög á tíu mínútum, það var eitthvað að rafkerfinu og í hvert sinn sem ég snerti míkrófóninn fékk ég rafstuð. Spilamennskan gekk líka mjög vel og heyrði ekki betur en að flestir væru sáttir. Neil McMahon var heiðraður fyrir einstakt úthald við kennslu, en Sigríður „á skrifstofunni“ komst ekki.

Svo var gaman að hitta stúlkurnar sem voru að segja mér frá því þegar ég steig (óvart að sjálfsögðu) á fingurnar á þeim (bókstaflega) í Kópavogsbíói 1980. Konni „játaði“ að hafa fundið stuttmynd sem við gerðum í MK. Og eins og ég segi… gaman að hitta Hjördísi, Hjördísi, Svenna, Stebba (Sigvalda), Neil, Bjössa Örvar, Hilmar, Sibba, Gullu, Hólmfríði, Gullu, Jóhann, Ingibjörgu, Sigga, Karítas, Gylfa, Ása, Ásgeir, Andrés, Trygga, Vilmar, Bjössa, Eyvind, Margréti, Sigtrygg, Baldur, Maríu og nú gleymi ég örugglega jafnmörgum en móðga vonandi engan, bjórarnir voru orðnir nokkuð margir þegar á leið! (svo má alltaf senda mér áminningu)

Takk, Andrés, Vilmar, Tryggvi og þið hin sem stóðuð að þessu!

Fræbbblar á Einifelli

Við Fræbbblar fórum á Einifell um helgina, Auður, Kristín og með en aðrir misstu af – og Gummi þurfti að fara snemma í bæinn í fertugsafmæli mágs síns.

En við settum upp mini græjur í skemmunni og tókum nokkrar „æfingar“ – Auður og Iðunn á heimatilbúinni trommu á þeirri síðustu.Fræbblahelgi

Svo var aðeins hugsað um mat, grilluð hrossalund í forrétt að hætti Gumma var ein besta steik sem við höfum fengið – og erum við ýmsu vön. Hnetusteikin okkar Iðunnar átti eiginlega ekki möguleika sem aðalréttur á eftir þessu, fyrir utan að hún var ekki alveg á pari. Laxasalat Assa & Stínu á laugardag og frábær kjúklingaréttur Auðar & Steina um kvöldið.. og tveir eftirréttir. Svo slatti af víni, bjór, smá Whisky, jafnvel Gin & Toník.. Og alls kyns samantekt á sunnudeginum, alvöru bacon, omeletta..

Jú og Steini vann Petanque mótið.

Nýtt Fræbbblalag, My Perfect Seven

Þá er nýja Fræbbblalagið, My Perfect Seven, loksins komið út. Grunnurinn var tekinn upp hjá Friðriki Helgasyni 2011 og við höfum aðeins verið að velta þessu fyrir okkur… en Ríkharður H. Friðriksson sá um hljóðblöndun og upptökur á söng og viðbótargíturum.

Lagið er kannski ekki dæmigert Fræbbblalag, frekar hreinræktað popplag… en voru ekki öll lögin okkar hrein og klár popplög ef út í það er farið?

Lagið má finna hér MyPerfectSeven, ef einhver vill styrkja útgáfuna þá er það til sölu fyrir smáaura á GogoYook (www.gogoyoko.com) og vonandir mjög fljótlega á „tonlist.is“.

Annars má finna meira um okkur á www.fraebbblarnir.com.