Greinasafn fyrir merki: Fræbbbblarnir

Ölstofuhljómleikar og jólamatur

Við Fræbbblar spiluðum á Ölstofunni í Hafnarfirði í kvöld. Verð að játa að ég hef ekki komið þarna áður, missti af hátíðinni þeirra í fyrra, en þetta er mjög skemmtilegur staður.. er Hafnarfjörður að verða miðpunktur rokksins? Rokkbarinn búinn að halda úti „lifandi“ tónlistarstað í nokkur ár og Ölstofan hefur verið með rokkhátíð. Fín aðstaða og fínar græjur og Máni sá til að hljóðið var fyrsta flokks.

Reyndar hófu Átrúnaðargoðin „leik“, einhver skemmtilegasta rapp hljómsveit landsins (OK; ég er ekki alveg hlutlaus) og við spiluðum svo blöndu af nýju og gömlu efni.

Mætingin hefði auðvitað mátt vera betri, en kannski er seint á föstudagskvöldi í jólahlaðborðavertíðinni ekki besti tíminn fyrir okkur.. En þeir sem mættu skemmtu sér nokkuð vel að okkur heyrðist, og gaman að sjá að nokkrir gestir frá Rokkbarnum frá síðustu viku voru mættir aftur núna.

En talandi um jólahlaðborð, fyrir spilamennskuna mættum við í jólahlaðborð Staka á Skrúð á Hótel Sögu.. við Iðunn þurftum að fara frekar snemma, en fannst við ekki vera að missa af miklu, þjónusta fyrsta flokks, en maturinn einhvern veginn ekki mjög spennandi, kannski ekki við Hótel Sögu að sakast, kannski er þetta bara orðið frekar þreytt fyrirbæri..