Greinasafn fyrir merki: EM2016

Ísland – England

Þá var komið að síðasta „legg“ ferðarinnar, þeas. áður en við færum heim. Við vorum búin að panta lestarferðir frá Tréport gegnum Abbeville og París. Það rigndi hressilega og við ákváðum að panta leigubíl. Sá var orðinn frekar seinn fyrir og við hefðum varla náð að ganga þetta, en hann kom nú samt tímanlega. Þegar á stöðina kom var engin lest en ég sá að rútan var merkt Abbeville og sama fyrirtæki, þannig að mér datt í hug að spyrja bílstjórann hvort við ættum nokkuð að fara með honum, sem var einmitt tilfellið.

En rútan stoppaði í Abbeville, þaðan tók við lest, til þess að gera langt stopp í Amiens áður en hún hélt áfram til Parísar. Við fengum þokkalegasta Spaghetti Bolognese beint á mót Gare du Nord lestarastöðinni áður en við héldum áfram til Amsterdam.

Reyndar kom í ljós í lestinni að það voru einhverjir aðrir í sætunum okkar. Og þegar betur var að gáð hafði ég pantað ferðina á morgun. Við gátum þó setið í næstu sætum til Brussel og stóðum svo í veitingavagninum megnið af ferðinni þaðan, rétt tylltum okkur síðasta spölinn frá Schiphol til miðbæjarins. Þannig að þetta hafðist… en við þorðum ekki fyrir okkar litla líf að spyrja ráða í lestinni, vorum smeyk um að verða hent út.

Við vorum svo komin upp á Krasnapolsky um sex leytið, stutt sturta og skipt um föt og svo yfir á Savini að borða Carpaccio og trufflusveppa Risotto. Máltíðin var reyndar trufluð talsvert að heiman og ég náði nú einhvern veginn ekki að njóta matarins. Leikur Ítalíu og Spánar var í gangi og Ítalir unnu, enda vorum við á ítölskum stað… en áhuginn á leiknum var nú reyndar ekki mikill.

Svo var spurning hvar við ættum að horfa á Ísland-England. Satellite við Leidseplein er svo sem fínn íþróttabar, en smá spöl í burtu og við gerðum kannski ráð fyrir að ensku áhorfendurnir yrðu aðallega þar. Það eru tveir þokkalegir barir við Warmoesstraat, en þó Belushi‘s væri með leikinn á fullt af skjám og ágætis úrval af bjór, þá var spiluð hávær tónlist og engin áform að skipta yfir á hljóðið frá leiknum.

Þannig að við fórum á Players, fengum fín sæti og fínan bjór. Meirihluti annarra gesta var Englendingar að fylgjast með sínu liði, en allir aðrir virtust halda með Íslandi. Við þorðum nú samt ekki að vera í „tólfu-peysunum“.

Það þarf svo sem ekki að segja mikið um leikinn, smá svekkelsi í upphafi, frábært að fá jöfnunarmark og alveg galið að fá sigumarki. Englendingarnir ógnuðu ekki mikið og íslenska liðið í rauninni nær því að skora þriðja markið (og það í tvígang), en þeir ensku að jafna. Síðustu mínúturnar voru reyndar óendanlega lengi að líða og ég óttaðist að örvæntingarfullar tilraunir Englendinga myndu skila marki, sérstaklega eftir að Rashford kom inn á, hann virtist talsvert meira ógnandi en aðrir leikmenn Englendinga.

En ég get ekki annað en minnst á íslensku áhorfendurna. Þeir yfirgnæfðu þá bresku nánast allan leikinn.. „búmm“ mjög áberandi og íslensku frasarnir heyrðust skýrt og greinilega.

Eftir leik röltum við niður að „nýja markaði“ og keyptum okkur bjór á De Bekeerde Suster. Við vorum svo sem ekki lengi, en röltum (óhjákvæmilega) í gegn um rauða hverfið á leiðinni upp á hótel.

Amsterdam - Players - Ísland - England

Ísland – Austurríki

Leikdagur. Úrslitadagur. Tólfan hafði boðað hitting hjá Rauðu myllunni, og eftir morgunmat og einhverja bið eftir Alla og Viktori, drifum við okkur þangað en vorum ekki komin fyrr en milli tvö og þrjú. Þar var heldur betur stemming og við sátum að bjórdrykkju þar til það var löngu kominn tími til að fara. Þarna hittum við Dísu & Magga & Fannar og fullt af fólki, en kannski hlutfallslega fáa sem við þekktum. Það gekk svo ekkert að finna snarl en létum það liggja á milli hluta.

Troðfull lest að leikvanginum þar sem verðirnir buðu upp á andlitsmálningu fyrir þá sem vildu, einfaldur stimpill var fín leið til að afgreiða þetta hratt og vel. Ég greip hálfa pylsu fyrir utan völlinn og eitthvað sem líktist kjúklingasamloku þegar inn var komið og sullaði í mig vatnsþynntum bjórnum.

En frábær stemming fyrir leik og enn betri á leiknum. Mér tókst víst að hoppa á stóru tánni á Iðunni þegar Ísland komst 1-0 yfir… það blæddi talsvert og Viktor linnti ekki látum fyrr en hún fór í aðhlynningu. Þau misstu af vítinu sem Austurríki klúðraði og markinu sem var dæmt af Íslendingum.

Eftir að Austurríkismenn minnkuðu muninn tóku við ansi langar mínútur og þær síðustu 10 voru fáránlega lengi að líða. Við vorum á þriðja bekk, aftan við mark Íslands í fyrri hálfleik og Austurríkis í seinni hálfleik. Í öllum leikjunum höfðum við verið fyrir aftan annað markið og öll mörkin höfðu verið skoruð hinum megin á vellinum. Það er að segja þar til Ísland komst í 2-1 með síðustu spyrnu leiksins. Staðsetningin hjá okkur var samt þannig að við sáum boltann ekki fara inn, héldum að skotið hefði endað í hliðarnetinu… svo byrjuðu leikmenn og áhorfendur að fagna.

Frábært! Bókstaflega hrikalega frábært..

Við Iðunn og Alli fórum út svo þau gætu reykt, en þegar við vorum komin að hliðinu var búið að loka öllum útgönguleiðum af lögreglu á hestum. Enda byrjaði að rigna og Iðunn fann ekki regnhlífina í töskunni.. (þeas. ekki fyrr en við vorum komin í lestina). Eftir nokkra stund tókst okkur að komast í troðfulla lestina og fórum út á Place de Clichy. Þar leituðum við að veitingastað og Viktori og félögum, tók sinn tíma og slatta af ruglingi, en hafðist á endanum. Fengum frekar ómerkilega hamborgara á Indiana og horfuðum á leik Svía og Belga yfir matnum.

Eftir matinn tókum við nokkra bjóra, hittum slatta af fólki og þekktum nú talsvert fleiri en áður, þmt. Frey, sem tók viðtal við okkur sbr. Sarpinn hjá Rúv. En einhvern veginn var allur vindur úr okkur, O‘Sullivans barinn (sem var einhvers konar miðstöð) var ýmist troðfullur og/eða með dúndrandi hávaða. Við fundum ekki Dísu & Magga, sem voru á hóteli á horninu og tókum bíl niður í bæ um eitt / hálf tvö. Við gleymdum að láta Viktor vita, sem var reyndar með fullt af félögum, en fengum okkur Gin og Tonic á bar í nágrenni við hótelið.. svona fyrir svefninn.

París - leikur - 3

Ísland – Ungverjaland

Næsti leikdagur og heilsan eitthvað með lakara móti. Reyndar þegar leið á daginn var ég alveg að sálast, hafði varla heilsu til að horfa á leikinn og skreið heim á hótel þar sem ég ýmist skalf eða kófsvitnaði.

Allt of margir að reyna að hitta á okkur og við að reyna að hitta á allt of marga.. sérstaklega á stað sem við þekkjum ekkert til… eiginlega gengur ekki mikið að stilla svona saman í tölvupóstum Facebook skilaboðum, SMS-um .. maður veit varla hvar maður er sjálfur, lítið hægt að ákveða hvert við förum næst eða hvenær.

En.. við hittum Helgu & Tomma & Arnheiði í strætó á leiðinni á FanZone.. sá strætó hætti að ganga og sendi okkur í Metró. Flest Metróin voru hins vegar lokuð, en við fundum á endanum eitt sem nægði inn að vellinum. Þá fengum við þau skilaboð að það væri ekkert gagn að þessu FanZone og þar sem það var ansi langt að fara þangað ákváðum við að rölta í áttina að vellinum og fá okkur bjór. Ekki tókst að hitta á Þorvald & .. Jón Einars & Gyðu eða Dísu & Magga.

Okkur var ráðlagt að mæta snemma inn á völl, enda í fersku minni hversu illa gekk að komast inn á völlinn í St. Etienne. Á vellinum kom í ljós að Dísa & Maggi & sonur voru í sætunum við hliðina á okkur! En fín stemming og ógleymanlegt að vera þarna… þó það hefði verið enn ógleymanlegra ef Gylfi eða Eiður hefðu haft heppnina mér sér í blálokin.

Marseille - fyrir leik - 1

 

Ísland – Portúgal

Leikur í St. Etienne og við fórum af stað rétt fyrir hádegi. Stoppuðum aðeins á leiðinni og vorum kominn upp úr þrjú að borginni. En það tók óratíma að komast inn í borgina, finna hótelið, „Centre International de Séjour André Wogenscky“ og koma okkur fyrir þar. Ekki merkilegt hótel, eiginlega nær því að vera gistiheimili, en vel staðsett og hreint. En engin handklæði og engar sápur. Við gátum leigt handklæði en það var einfaldlega engin sápa í boði.

Við fundum veitingastað rétt hjá hótelinu sem leit vel út en var lokaður og sá næsti var niðri á einu torginu. Þar var okkur sagt að það væri ekki matur í boði fyrr en eftir þrjú korter.. allt í lagi, fengum okkur bjór og settumst niður. En þegar þar að koma var heldur enginn matur í boði.. Vorum orðin sátt við að fá bara eitthvað, hittum Aniku & Örn, sem voru nýbúin að panta pizzu á næsta torgi, laust borð við hliðina á þeim, en þá var okkur sagt að það væri allur matur búinn. Við fundum á endanum stað sem seldi rétt svo ætar pizzur og létum okkur hafa það. Við sátum við hliðina á fjórum skotum sem voru spenntir fyrir leiknum. Viktor var svo kominn og fann okkur að lokum á staðnum. Orðið ansi langt síðan við hittum hann… En ákváðum að rölta á FanZone og fá okkur bjór, þegar þangað kom voru flestir farnir á völlinn þannig að við stoppuðum stutt og fórum svo líka. Enda kannski eins gott, það tók sinn tíma að komast inn. Við vorum búin að reyna lengi að hitta Krissa & Rúnu og Salóme, en þau voru alltaf einu skrefinu á undan okkur og eftir leik þurftu þau að drífa sig til baka til Lyon.

Það var ótrúleg stemming á leiknum og við höfum nú eiginlega ekki upplifað annað eins.. og vorum við þó í Amsterdam í haust þegar Ísland vann Holland. Frábært að ná þessu jafntefli og fýlupúkagangurinn í Ronaldo gerði nú ekki annað en að gera þetta enn sætara.

Eftir leikinn langaði okkur Iðunni að fá okkur bjór í örlítið meiri rólegheitum en var í boði á börunum við völlinn þannig að við röltum af stað í áttina að hótelinu en Viktor varð eftir með vinum sínum.. Það fækkað alltaf opnum stöðum eftir því sem við fjarlægðumst völlinn, helst Kebab staðir með dósabjór í boði. Iðunn vildi eiginlega bara fara inn á hótel en eitthvað tókst mér að þrjóskast við, duttum að lokum inn á torgið frá því fyrr um daginn og þar var nóg opið. Og þarna hittum við fullt af fólk í góðum gír, Bjössi, Árni Páll, Þórhallur (Dagbjartar og tengdasonur Hákonar og Kötu), skotarnir sem við hittum fyrr um daginn og fullt af fólki sem við höfum ekki hitt áður – við sátum fram til tvö, þorðum ekki að sitja lengur enda þurftum við að losa herbergið klukkan tvö daginn eftir.

St. Etienne - leikur - 2

Frakklandsferð, 12. – 13. júní

Addi skutlaði okkur út á flugvöll um tíu-leytið, áttum alveg eins von á einhverjum töfum, sem var nú reyndar ástæðulaust ótti. Smá snarl, tveir bjórar og svo flogið til Dusseldorf. Þar lentum við um 6:00 og þurftum (á endanum) að bíða í tæpa sex tíma eftir fluginu til Marseille. Fór reyndar aðeins betur um okkur eftir að við uppgötvuðum að við höfðum aðgang að Priority Lounge. En vorum orðin frekar þreytt þegar við komum til Marseille um tvö og þaðan tók við bílaleigubíll og akstur til Lourmarin.

Í Lourmarin áttum við pantað herbergi á fjögurra stjörnu Bastide Spa hótel, en eitthvað var stjörnugjöfinni ofaukið.. herbergið var lítið, engir skápar eða fatahengi, ekkert sturtuhengi (þannig að allt baðherbergið fór á flot, og jafnvel svefnherbergið er við fórum ekki varlega) og engar innstungur til að hlaða síma (nema taka ljósin úr sambandi), enginn bar á hótelinu (reyndar boðið upp á rándýran og volgan bjór úr kæliskáp) og „spa“ hlutinn var lokaður í dag.

Röltum samt niður í bæ, fengum ágætan bjór, rauðvín, osta, skinkur á stað sem sérhæfði sig í afurðum frá Korsíku. Um kvöldið fengum við svo afbragðs nautasteik á Brasserie L’Insolite.. og horfðum á restina á leik á bar staðarins.

Marseille - aðflug - 1