Greinasafn fyrir merki: Bryndís

Flachau, afmælisdagur

Við vöknuðum enn fyrr en venjulega og vöktum Bryndísi fyrir allir aldir með því að ráðast inn á herbergið með hefðbundinn afmælissöng. Síðan var Mimosa með morgunmatnum auk þess sem Bryndís fékk þennan svaka kokteil frá fjölskyldunni í Unterberghof.

Aftur dreif hópurinn sig á skíði á meðan ég mætti í kennsluna. Þetta skiptið fékk ég tvo einkakennara og gekk talsvert betur… ég prófaði aðeins að renna mér eftir kennsluna, en hætti eiginlega allt of snemma – svona eftir á að hyggja.

En afmælisveislan var seinni partinn á Dampfkessel og var boðuð klukkan þrjú. Ég rölti þangað og fékk mér „smá“ hádegismat, Gúllasið sem ég hélt að væri smáréttur hefði nægt heilli herdeild í fyrri heimsstyrjöldinni. Ég kunni ekki við annað en að gæða mér á góðum hluta, en átti ekki möguleika á að klára.

Flachau - 2014 - 042 - lítil

Afmælið sjálft hófst svo seinni partinn, fyrst með fljúgandi hreindýrinu (Jägermeisterflaska í Red Bull), freyðivíni, hvítvíni, þremur matarfjöllum og nokkrum bjór. Stórskemmtileg afmælisveisla og ekki spillti stemmingin á staðnum, fólk dansandi upp á borðum að hætti Iðunnar og Bryndís fékk nokkur óskalög – ja, að minnsta kosti eitt, Sweet Caroline. Ég reyndi að segja nokkur orð og fara með eina limru fyrir afmælisbarnið, en hávaðinn í tónlistinni hjálpaði ekki til – og svo kom Arna hálf slösuð til okkar, hafði fengið klakaskot í andlitið, sem betur fer ekki alvarlegt.

En innihaldið var nú eitthvað á þá leið að það væri alltaf við hæfi að flytja afmælisbörnum limru. Limrur þurfa auðvitað ekki að hafa stuðla eða höfuðstafi og sumum þykir „fínast“ að rímorðið í síðustu línu sé það sama og annað hvort rímorðið í fyrstu eða annarri línu. Og lang best ef það er sama orðið með sitt hvorri merkingunni, td. getur vín bæði verið drykkur og höfuðborg landsins sem við erum stödd, bjór getur líka verið drykkur og lítið dýr – og fyrir afmælisbarnið er auðvitað „Valur“ sem er að bæði pabbi hennar og liðið sem hún spilaði lengst fyrir. Iðunn hafði fundið upp nýtt orð fyrir skál, „bolta!“ borið fram hægt með austantjaldshreim.

Þá er harðbannað að nefna afmælisbarninu eitthvað til hróss, ég mætti alls ekki nefna knattspyrnuferilinn, hvorki titlana, fjölda landsleikja eða að hún var fyrsta íslenska konan sem varð atvinnumaður í íþróttum. Þá var engan veginn við hæfi að tilgreina hversu góður starfskraftur hún er, vinnur vel undir pressu og klárar það sem þarf að klára. Kannski Iðunn hefði mátt nefna að henni virðist nú ætla að takast ágætlega upp með Snædísi.. en ekki ég. Og ekkert má segja um hversu gaman getur verið að ræða við hana um heima og geima og hversu heimspekilegar vangaveltur geta verið áhugaverðar. Það mætti reyndar tilgreina hversu mikil stemmingsmanneskja hún er þegar kemur að hvers kyns skemmtunum, snafsar og aðrir drykkir fá alltaf sinn tíma, en helst með tilvísun í einhverja vandræðalega sögu. Skíðaáhugann mætti að sama skapi nefna, en bara ef hún hefði orðið fyrir óhappi eða minni háttar slysi.

Limran ætti auðvitað að tína til allt það neikvæða sem hægt er, vandræðalegar sögur og óheppni.

En þar sem mér datt ekkert í hug endaði þetta sem:

  • Ég þekkti eitt sinn stelpu mjög stolta
  • sem vann við að sparka í bolta
  • en nú vill hún skíða
  • og detta vel í’ða
  • og önnur hver setning er „bolta!“.

Þarna mætti reyndar vera „sem starfaði við ‘spark í bolta’“ fyrir þá sem endilega vilja hafa höfuðstaf með stuðlunum.

Bryndís rifjaði reyndar upp að hún var spurð á Ítalíu fyrir nokkrum árum hvað kæmi til að hún talaði svona góða ítölsku. Svarið var (eitthvað á þessa leið)… jú, sjáðu til, fyrir nokkrum árum voru bara tveir útlendingar í Napólí. Þeir unnu báðir við að spila fótbolta. Annar var Maradona. Hinn var ég.

Þannig mætti bæta limruna og hafa eitthvað á þessa leið

  • Ég þekkti eitt sinn stelpu mjög stolta.
  • Sem starfaði við ‘spark í bolta’.
  • Hún vann bara svona
  • með Maradona
  • í Napolí við spark í bolta.

Flachau - 2014 - 079 - lítil

Nú, við rétt kláruðum að snæða matinn þarna áður en við mættum í fjögurra rétta kvöldmatinn á hótelinu. Ég er ekki frá því að ég hafi verið orðinn ansi saddur um kvöldið.