Greinasafn fyrir merki: Bláa kannan

Hlíðarfjall og annað…

Möguleikinn á skíðum í Hlíðarfjalli var eitt aðdráttarafl ferðarinnar.

Við mættum um ellefu og leigðum búnað fyrir þrjá, Iðunn var auðvitað með sínar græjur. Það væri góð hugmynd að gera „óvönum“ grein fyrir að þeir þurfa að skrá sig í kerfin skíðaleigunnar áður en þeir geta leigt. Enda þurfa „vanir“ ekki að skrá sig! Þannig þurftum við – eins og greinilega margir aðrir – að fara fyrst í biðröðina við afgreiðsluna, fá þar þær upplýsingar að við þurfum að fara í aðra biðröð til að skrá okkur í kerfið og að því loknu þurfum við að fara aftur í biðröðina fyrir afgreiðslu.

En skv. verðskrá var dagspassi í einn dag ódýrasti kosturinn – fimm þúsund krónur á mann – fimm hundruð svo til baka þegar passanum var skilað. En við komumst að því stuttu seinna að það voru miklu fleiri möguleikar í boði og hægt að komast af með miklu ódýrari aðgang, sérstaklega fyrir okkur sem vorum ekki vön og höfðum bara áhuga á að prófa. Þegar við spurðum hvers vegna við hefðum ekki verið látin vita af öðrum og ódýrari möguleikum var svarið einfalt, „þið spurðuð ekki“.

En stóalyftan lokaði fljótlega vegna veðurs og lítið spennandi að vera í leiðindaveðri. Það var ekki annað að skilja á starfsmönnum að þetta hefði verið ljóst frá því áður en við keyptum passana.

Þannig var nú upplifunin ekkert sérstaklega skemmtileg, ég hafði svona á tilfinningunni að allt væri gert til að hafa sem mestan pening af okkur með sem minnstri fyrirhöfn. Kannski vorum við eitthvað óheppin, en ég fer amk. ekki þarna aftur.

En, af Hlíðarfjalli fórum við Hof í heldur betur frábæran mat, ég fékk eðal fiskisúpu á meðan þau voru í smurbrauðinu.

Kaffi á Bláu könnunni og svo í heitan pott í nístingskulda og bálhvössu roki.

Við fengum svo staðfest að Steinar hafði teiknað bústaðinn, verulega skemmtileg hönnun og flottur staður.

Akureyri - Tréstaðir - heitur pottur

Þorðum ekki að grilla lamba-fillet úti og kannski ekki alveg eins og það átti að vera… en aftur var ekkert að mat eða vínum – endingin var samt ekki til að auglýsa, vorum full framlág eftir enn eitt ofátið og létum gott heita tiltölulega snemma.