Greinasafn fyrir merki: Amsterdam

Meira IBC

Kláraði heimsóknir á IBC og náði að klára til þess að gera snemma. Ekki svo sem mikið spennandi og sumir einfaldlega farnir.

En sama og á mánudeginum, lítil matur, einhver bjór, thai-snarl og svo inn í miðbæinn.. fyrst á In De Wildeman sem er einn uppáhalds bjórbarinn minn. Þaðan að kaupa vindla og svo á næsta uppáhalds bjórbar, Pilsener Club.

Aðeins of mikið af bjór og matur næst á dagskrá. Van de Kaart hefur lengi verið í uppáhaldi en ég kom að hálf tómum kofum hjá þeim, vour reyndar á staðnum en sögðust vera búin að loka veitingastaðnum og væru að sjá um veitingar í bátum. Í öllu falli bentu þau mér á annan franskan stað, Thijs.. sem var mjög góður, en kannski ekki frábær.

Síðan á Satelite barinn að horfa á Arsenal eiga skelfilegt kvöld og tapa fyrir Dortmund..

Næsta heimsókn var á L&B Whisky barinn en lét tvo drykki nægja, Macallan 21 árs og Caol Ila 27 ára – hvort tveggja afbragðsdrykkir.

Aftur á Holland Casino og náði að koma út með 200 Evrur í plús í þetta sinn..

Amsterdam - Whisky bar - 1

IBC

Mætti snemma á IBC sýninguna / ráðstefnuna.. náði einum fyrirlestri og náði að heimsækja talsvert mikið af fyrirtækjum. Afraksturinn var svo sem ekkert sérstakur, en alltaf eitthvað. „Cloud“ var tískuorðið og sumir virtust hafa hengt það í kynninguna bara til að vera með.. jafnvel myndavélaframleiðandi sem bauð ekki upp á neinn hugbúnað kynnti „cloud“.. Aðrir voru með „cloud-ready“ lausnir… hvað svo sem það er.

En kíkti á RT Software og hitti nokkur vænleg fyrirtæki.

En ég var óneitanlega heldur þreyttur í lok dags, nokkrir bjórar, lítill matur yfir daginn, thai-snarl og beint að borða eftir sýningu. Byrjaði reyndar á Café Belgique sem er alltaf jafn skemmtilegur en ákvað svo að gefa ítalska Vasso veitingastaðnum annað tækifæri. Við Iðunn fundum hann fyrir tilviljun 2006 og hann hefur yfirleitt staðist væntingar.. síðast fékk ég vondan mat og hef ekki farið síðan. En.. það var ekkert að matnum í þetta sinn, kannski ekki alveg í fyrri klassa samt.

Hitti svo nokkra íslendinganna „hjá Varða“ og átti ágætt spjall við suma. Þaðan í Holland Casino en náði hvorki að vinna né tapa.

Til Amsterdam

Fór smá krókaleið til Amsterdam, hafði nú pantað flug í seinna fallinu til að þurfa ekki að vakna of snemma, en..

Viktor var að fara til Englands í nám og átti pantað flug eldsnemma. Þannig að auðvitað fórum við saman til Keflavíkur, í morgunmat og svo í sitt hvort flugið.

Ég millilenti í Osló, einhverra hluta vegna var hagstæðast að fljúga til Amsterdam í gegn um Osló, með IcelandAir og Sas.

Keypti aðgang að betri stofu Sas á Gardemoen, svo sem allt í lagi, en ekkert sérstaklega merkilegar veitingar.

Í öllu falli var ég kominn undir kvöld til Amsterdam og eftir stutta „lagningu“ fór ég á Savini, ítalski staðinn á Spuistraat. Fyrsta flokks staður og maturinn frábær, trufflusvepparisottó ekki í boði í þetta sinn, en trufflusveppapasta var ekki mikið síðra.

Eftir matinn gekk ég beint í flasið á nokkrum Rúv-mönnum með Whisky flösku úti á götu. Hafði hugsað mér að kíkja á fyrrum félaga í RT Software en fann ekki.. kom í ljós seinna um kvöldið að þeir sátu á þar næsta bar..

Ég var aftur á De Bekeerde Suster að drekka tvo skammta af eðalbjórnum þeirra.

Flug til Amsterdam 7