Jarðarför og Evrópuleikur

Hallgrimur, pabbi Steina og Stínu… og Hallmundar.. og auðvitað Óskars, Fúsa og Gunnu var jarðaður í dag. Já, og tengdapabbi, afi og langafi.. ansi merkilegur einstaklingur fallinn frá og verður sárt saknað.

Kíkti svo á leik Blika í Evrópukeppninni á móti Santa Coloma, auðveldur 4-0 sigur sem hefði gjarnan mátt vera miklu stærri.

 

Fótboltasunnudagur

Fyrri hlutinn fór í löngu tímabæran garðslátt, en svo tók fótboltinn við.

Fór með Viktori, Arnari, Andra og Orra á Fram-Breiðablik – hittum Dagmar & Hólmbert, Friðjón & Sæunni og Sylvíu – og Skúla… Þekkti ekki mitt lið í fyrri hálfleik, en þeir voru svo miklu betri í þeim seinni og munurinn á liðunum talsvert meiri í seinni hálfleik en þeim fyrri – að það var frekar erfitt að kyngja bara einu stigi.

Þaðan í Kaldasel þar sem Arnar & Unnur og Júlía & Orri mættu í mat og úrslitaleik álfukeppninnar. Maturinn var frábær, að venju, og leikur Brasílíu og Spánar bauð svo sem  upp á fullt af góðum fótbolta, en þetta var einhvern veginn helst til einhliða..

Skrýtinn dagur…

Kom heim úr vinnunni í fyrra fallinu í gær.. norska stúlkan sem veit ekki aura sinna tal og spreðar peningum eins og .. var mætt eftir að hafa verið hent út af þremur veitingastöðum og Kringlunni, betlaði rauðvín sem hún ætlaði að borga mér fyrir, en gerði ekki, pissaði hressilega á sig, fór í freyðibað með rauðvínið, kallaði okkur öll geðveik og fór.

Þá mætti ábúðarfullur ungur maður frá póstinum með ábyrgðarbréf, bað um skilríki og undirskrift – og þó ég væri alveg viss um að hann hefði ekki hugmynd um innihaldið þá datt mér helst í hug að einhver væri að stefna mér (án þess að geta ímyndað mér fyrir hvað) eða heimta að ég borgaði einhverja skuld (sem ég gat ekki ímyndað mér hver ætti að vera). Þetta reyndist þó langþráð tilkynning frá Landsbankanum um endurreikning láns, og það sem meira er, eilítið hagstæðari en ég hafði átt von á.

Löng helgi í Barcelona

Við fengum þrjá daga í Barcelona eftir siglingu.. komum að morgni laugardags og flugum heim seint á mánudagskvöld.

Hótelið okkar, Sunotel Central, var svo sem vel staðsett og ekkert sérstaklega dýrt, 10-15 mínútna ganga frá miðbænum, en ljóslítið herbergi og undarlegar rafmagnstengingar fóru aðeins í skapið á mér. Við uppgötvuðum allt of seint að það var sundlaug uppi i á þaki.

Laugardagurinn fór að mestu í rölt um bæinn, enduðum á frábærum ítölskum stað, Buoni e Cattivi, í hliðargötu af hliðargötu, í síðbúinn hádegismat. Um kvöldið fórum við á grænmetisstaðinn Teresa Carles, sem bauð upp á ágætis rétti og vingjarnlega en svolítið utan-við-sig þjónustu. Og skelfilegt loftleysi. Jonni kom pakksaddur eftir hamborgara og eftir matinn fórum við og sóttum forláta gítar sem Kassandra hafði gefið honum og fórum með upp á hótel til okkar – Jonni hafði áhyggjur af að geyma hann lengur í íbúðinni. Sátum svo á háskólatorginu eitthvað fram eftir, en entumst ekki lengi, enda dagurinn tekinn snemma.

Á sunnudeginum kom Haukur til okkar frá Manresa,  þar sem hann spilar körfubolta, þeas. yfir veturinn. Við fórum og reyndum að finna hvar foreldrar Sylvíu, Helgi og Doris, höfðu búið í Barcelona í borgarastyrjöldinni. Fundum líkast til staðinn en húsið hefur væntanlega verið rifið. Þaðan á Míró safnið sem var svo sem ágætt en mátulega merkilegt og stoppuðum á útsýnisstað yfir borgina á leiðinni niður í bæ. Þar fengum við okkur síðbúinn hádegismat á Senyor Parellada, eðal veitingastað þar sem við fengum frábæra rétti. Næsti staður var Reial torgi þar sem vinur Hauks bauð okkur upp á kaffi og bjór á veitingastað, Rei De Copes, sem hann, þeas. vinur Hauks, á. Kvöldmaturinn var á spænska veitingastaðinn La Luna og vorum ekki svikin þar, skemmtilegur veitingastaður með góðan mat. Eftir matinn fórum við niður á höfn þar sem mikil hátíð var í gangi, einhvers konar gamlárskvöld þeirra Barcelonabúa, dagur Sant Juan, með flugeldasýningu og endalausum hvellhettum.

Mánudagurinn var svo frídagur og flestar verslanir lokaðar, fórum reyndar stutt í verslunarmiðstöðina Maremagnum.. en duttum tvisvar í tapas – á Bilbao Bistro í seinna skiptið – og svo á 9granados um kvöldið, eftir að uppgötva að áfangastaðurinn Etapes opnaði ekki fyrr en klukkan átta. Við fengum ágætan mat þar en staðurinn stóð ekki undir væntingum þeirra sem vildu grænmetisrétti þrátt fyrir yfirlýsingar þjónanna um að grænmetisréttir væru ekkert vandamál þegar við vorum að ákveða hvort við ættum að borða þarna. Jonni hafði ætlað að koma með okkur en gekk illa að fá staðfestingu á fluginu, hann sagðist svo vera hættur við að koma með okkur, en reiknaði með að koma fljótlega og þá með Kassöndru. Við vorum svo rétt að koma á flugvöllinn þegar Jonni hringdi aftur og sagði að þau væru bæði búin að bóka sig í flugið með okkur.. og það gekk eftir, þau rétt náðu í flug og komu með okkur.

Flugið, með Vueling, var með þeim leiðinlegri sem ég hef lent í, enn þrengri sæti en ég á að venjast, sem betur fer vorum við Iðunn með þrjú sæti, gat aðeins dottað þegar leið á, en var einhvern veginn í hnút alla ferðina.

FB - Vefur - Barcelona - eftir siglingu - 50

Aftur til Barcelona

Vorum að klára frábæra siglingu, komum í land í Barcelona 22. júní, þaðan sem lagt var af stað viku fyrr. Við fórum með Sovereign skipinu frá Pullmantur félaginu.

Nú er Pullmantur ekki alveg í sama klassa og Holland-America.. ég gæti nefnt 20-30 atriði, en ekkert þeirra skiptir í rauninni svo miklu máli. Aldursdreifingin var önnur í þessu skipi en hjá Holland-America, líkari því sem gengur og gerist almennt.

Maturinn var fínn þó Anna, Skúli og synir hefðu þegið betri grænmetisrétti, en sem sagt oftast mjög fínn, sjaldan slakur og aldrei vondur. Enda ekkert mál að panta annan rétt ef svo bar undir að við kynnum ekki að meta eitthvað.

Ekki nóg með að allir drykkir væru innifaldir, bjór, vín, kokteilar og alvöru kaffi… heldur voru þjónarnir á stöðugum hlaupum, boðnir og búnir að færa okkur meira. Og það var ekkert verið að sleppa billega, til dæmis voru allir kokteilar skreyttir að hætti hússins.

Spilavítið hefði mátt bjóða upp á meiri póker, aðeins þrjú mót og það að degi til. Alli náði þriðja sæti í einu mótinu, en ég klúðraði yfirburðastöðu í einu þeirra.. hefði átt að vinna. Á kvöldin var bara boðið upp á rúllettu, 21 og undarlega útgáfu af póker, sem engin leið var að skilja.

Við slepptum danskennslu, líkamsrækt, nuddi, snyrtistofu, borðtennis og smátennis – og ekki náði Iðunn að prófa klifurvegginn.

Við létum eina skipulagða skoðunarferð nægja, til Túnis, en hefðum kannski betur sleppt henni. Annars fórum við alltaf í land og kíktum í kring um okkur.

Þá mættum við Iðunn bara á tvær kvöld sýningar í leikhúsinu, annars vegar einhvers konar rokk-sýning semvar skelfileg og hins vegar töfrabrögð sem var alveg í góðu lagi.

En við röltum á milli, drukkum bjór, kokteila og vín.. lágum í leti, kjöftuðum, drukkum meiri kokteila, lásum og Iðunn náði aðeins að liggja í sólbaði… skruppum í land og sötruðum Pina Colada, Mojito, Kir, rauðvín, bjór og…

Tvennt skipti nú samt mestu máli… annars vegar einstaklega góð þjónusta þar sem þjónarnir lögðu sig alla fram um að veita sem besta þjónustu (kannski að hinum rúmenska Marian undanskildum sem fór öfugu megin fram úr fyrir eina kvöldvaktina).

Hitt, sem skiptir ekki minna máli, er hversu heppin við vorum með ferðafélaga. Anna-Lind og Skúli áttu hugmyndina að ferðinni og mættu með synina, Darra, Teit, Berg Mána og Glóa. Tengdarforeldrarnir, Sylvía og Magnús bættust í hópinn og Alli kom með. Og í stuttu máli small þetta sérstaklega vel saman.