Einifell

Enn ein Einifells helgin… allt of langt síðan við fórum síðast, og alltaf jafn gaman að koma.

Upphaflega átti þetta að vera Goutons Voir helgi en Stína veiktist og þau Assi komust ekki. En við hin gerðum okkar besta.

Heitur pottur við komuna á föstudeginum, geitaostur í forrétt í boði Krissa & Rúnu, lax í boði Auðar & Steina, við Iðunn settum saman Irish Coffee eftir matinn, en úthaldið var lítið og við fórum frekar snemma að sofa, smá spjall og vindill úti fyrir svefninn.

Sveppatínsla á laugardeginum eftir úrvals morgunmat, sem við Steini slepptum. Aspas frá Auði & Steina í hádegismat, svo Petanque mót fram eftir degi, Iðunn vann hnífjafnt mót á „markatölu“.

Rúna & Krissi buðu upp á rækjur í beikon í forrétt og svo tókum við góða pásu áður en við Iðunn buðum upp á heimilis grísasnitsel í sítrónusósu. Við höfðum gleymt raspi, Auður átti eitthvað, en ég bjó til það sem á vantaði. Flestir fóru snemma að sofa en ég sat aðeins með Whisky og tónlist eftir smá frágang.

Pylsur, beikon og egg í morgunmat… svo gufa áður en við fórum af stað í bæinn.
Einifell - september 2017 - 11-1.jpg

Vetrarstarfið

jæja, komið haust og „vetrarstarfið“ að hefjast.

Vonandi verða æfingar Fræbbblanna reglulegri og vonandi klárum við efni á nýja plötu. Það er einhverra hluta vegna, alltaf snúið að ná mörgum æfingum yfir sumarið. Það er einhver spilamennska framundan, að minnsta kosti Iceland Airwaves í byrjun nóvember, og vonandi nokkur skipti, þar fyrir utan.

Svo er fótbolti með stórskemmtilegum Postulahóp á hverju mánudagskvöldi, alltaf hörkukeppni og ekki verra að hafa titil að verja í þetta sinn.

Þá er karate hjá Breiðabliki tvisvar til þrisvar í viku, í þetta skipti stefnt á fyrsta „alvöru“ beltið, þeas. það brúna… verður væntanlega erfitt, en ég ætti að geta mætt reglulega – sem er, auk góðra þjálfara, lykillinn að því að ná framförum.

Við gerum ráð fyrir að spila póker einu sinni í mánuði, spilakvöld sem snúast ekki síður um bjórsmökkun en póker, en hafa heppnast sérstaklega vel.

Og þá treysti ég á reglulega matarklúbbshittinga, bæði hjá Goutons Voir og Rúv-Tops… (sem hefur ekkert lengur með Rúv að gera).

Þarf fyrir utan grunar mig að við eigum eftir að bjóða góðu fólki í mat og jafnvel að okkur verði boðið í mat þegar svo ber undir… og ef ekki, þá fer ekkert illa um okkur hér í Kaldaselinu.

Ein löng helgarferð er komin á dagskrá, Prag í lok september, með Brynju & Óskari. Prag er næst síðasti staðurinn sem við eigum eftir að heimsækja af löngum lista sem við settum upp fyrir 15-20 árum – sá síðasti Whisky ferð til Skotlands.

Í þetta skiptið verða breytingar í vinnunni hjá mér, ég verð ekki lengur launþegi heldur dottinn aftur í að vera með eigin rekstur.

Skólafélagar Viktors

Hópur frá háskólanum í Southampton, voru á ferðinni á landinu, smanemendur, kennarar og aðrir sem Viktor þekkir til… hann var þeim auðvitað innan handar við að skipuleggja ferðina.

Og auðvitað buðum við þeim í mat, mjög vel heppnað lambalæri og svo kúrbítur og buff fyrir fjórar grænmetisætur.. en stórskemmtilegur hópur og frábærlega vel heppnað kvöld – hefði kannski betur tekið því örlítið rólegar.

Róleg helgi

Það var heldur betur kominn tími á rólega helgi, þeas. að mestu „koju-fyllirí“, við sátum heima og sötruðum bjór, rauðvín… það er svo sem ekkert leiðinlegt að sitja í góðum félagsskap með góðar veigar í frábæru umhverfi hér í Kaldaselinu.

Jarðarför Öldu var á föstudeginum, svo fengum við Jón Eyfjörð okkur bjór eftir að hafa náð samkomulagi (svona að mestu) um framhaldið.

Sylvía kíkti á laugardeginum og þær Iðunn fóru til Hveragerðis í mat á Heilsuhælinu.

Reyndar vonbrigði að sjá Arsenal spila skelfilega illa á móti Liverpool á sunnudeginum og tapa eftir því.

Sunnudagskvöldið var svo rólegt, Friðfinnur kom í heimsókn til að horfa á Game Of Thrones með börnunum, tylltum okkur út á pall á meðan við biðum.

Iðunn, afmæli

Iðunn - maí - 2017Þá er Iðunn komin á sextugsaldurinn… við verðum bæði á sextugsaldri í rúm tvö ár, svona að því gefnu að við tórum.

En fínasti afmælisdagur, Brynja og Sylvía kíktu upp úr hádegi og svo fórum við að borða á Caruso. Ágætur matur, frábærir forréttir, sniglar og carpaccio, Iðunn var heppin með humarpasta en sjávarrátta risottóið mitt var svona og svona. Eftirréttirnir og kaffið svo fínt.

Þá spillti ekki að Anna & Palli höfðu ákveðið að detta inn á sama stað á brúðkaupsafmælinu sínu og við náðum góðri stund með þeim fyrir utan með eftirréttina.

Menningarnótt

Við vorum eiginlega hálf lúin eftir afmælisveislu Alexöndru, en fengum okkur góðan morgunmat, sátum aðeins úti í sólinni og kíktum svo í bæinn.

Fyrsta stopp var stórskemmtileg ljótu-gjafa-sýning Helga & Þóru og Írisar & Sigga.

Þaðan ætluðum við að ná á Dillon með hljóðfærinu en þurftum að leggja á Ránargötu til að fá bílastæði og rölta þaðan… sem var svo sem ekki mikið mál.

En við þorðum ekki að skilja hljóðfærin eftir og sátum á Dillon, horfðum á svekkjandi tap Arsenal, drukkum eitthvað af bjór og fylgdumst með skemmtilegum hljómsveitum úr öllum áttum.

Við Fræbbblar spiluðum rétt rúmlega sjö og gekk bara nokkuð vel, garðurinn vel þéttur, móttökurnar fínar og mikið um jákvæðar undirtektir.

Við dóluðum okkur þarna aðeins en ákváðum að fara heim áður en flugeldasýningin byrjaði, bæði orðin ansi þreytt, amk. ég, og svo var fínt að losna við umferðina… eiginlega var valkosturinn að fara heim fyrir ellefu eða taka góða törn og vera fram eftir.

Menningarnótt - 1.jpg

Alexandra, afmælispartý

Alexandra hélt upp á þrjátíu og fjögurra ára afmælið – og það fyrsta með nýtt nafn.

Þetta var ein af þessum alvöru afmælisveislum í Kaldaselinu, klárlega partý ársins..

Bæði var fínasta mæting, örugglega hátt í hundrað manns þegar flest var og mjög skemmtileg blanda af fjölskyldu, gömlum vinum, pírötum og öðrum.

Það var bæði skemmtilegt að sjá hvernig Alexandra kynnti tilefnið og Viktor Orri hélt svo þessa afbragðs ræðu.

Ég lét nægja að vaka til tvö, en var svona næstum því farinn niður aftur… en Iðunn stóð sig betur og vakti til rúmlega fjögur.

Eitthvað af, ekkert sérstaklega tæknilegum góðum, en skemmtilegum myndum hér.. Flickr.

Alexandra - afmæli - 42