2006

31. desember 2006

Gamlárskvöld í fyrsta skipti í Kaldaseli, sögusagnir um frábært útsýni og fjölmenni á hæðinni áttu ekki við rök að styðjast. En Magnús og Sylvía og svo Sæunn, Friðjón, Sylvía Dagmar, Hólmbert og Marel mættu í sérstaklega vel heppnaðan mat. Og áramótapartýið svo aftur til þess að gera fámennt. En Krissi og Rúna mættu með ostrurnar.

30. desember 2006

Áramót Iðunnar í bridge haldið í 11 sinn (eða svo), Bjarni Torfi og Óskar unnu en við Iðunn náðum öðru sæti, talsverðar framfarir frá síðasta ári.

29. desember 2006

Matarklúbbur og afmæli hjá Assa og Stínu. Frábær matur en vínsmökkun kom okkur niður á jörðina, vissum einfaldlega ekki neitt. Assi taldi 16 léttvínsflöskulík eftir okkur 8. Ostrurnar urðu hins vegar eftir í tengifluginu hjá Krissa.

28. desember 2006

Jólamót Jonna í skák, vorum að hugsa um að sleppa þessu – eða fresta – vegna daprar mætingar, en reyndist fjölmennasta mótið, 13 mættu.

13. nóvember 2006

Kjartan Árnason, vinur minn frá í sjö ára bekk dó í morgun eftir 25 ára baráttu við MS sjúkdóminn, til minningar um hann.

3-6. nóvember 2006

Fór með postulunum Magga og Þórhalli til London, sáum West Ham – Arsenal og Tottenham – Chelsea sama dag. Hitti umboðsmann Stranglers og gekk frá því að þeir koma aftur, 6. mars 2007.

15.-20. september 2006

Frábær ferð til Krissa og Rúnu í Luxemborg með Assa og Stínu og Auði og Steina. Matarklúbburinn skírður GoutOnVa, eða eitthvað í þá áttina.

10-13. september 2006

IBC sýningin í Amstersdam. Mikið að sjá og gaman í Amsterdam.

26. ágúst 2006

Fertugsafmælið hjá Iðunni heima í Kaldaseli, fullt af fólki, rosalega vel heppnuð veisla, myndir hér

22. júní – 11. júlí 2006

Sumarfrí, fyrst hjá Krissa og Rúnu í Luxembourg, svo keyrðum við gegnum Frakklandi og stoppuðum 10 daga í Nice, þaðan gegnum Ítalíu og Austurríki til Berlínar, þar sem við settumst aftur upp á Krissa og Rúnu – og sáum úrslitaleik HM í Sony Center í næst-bestu sætum í borginni.

13. apríl 2006

Þá er Agga systir mín orðin sextug, mér finnst ég alltaf verði eldri systkinin eiga afmæli en þegar ég sjálfur bæti við ári.

16.-21. febrúar 2006

Fertugsafmælisferð Brynju, Kristínar og Iðunnar. Löng helgi á Lúxushótelinu Krasnapolski í hjarta Amsterdam, myndir hér

Kjartan Árnason, til minningar

Við Kjartan kynntumst í 7 ára bekk. Okkur þótti báðum óstjórnlega fyndið að bekkurinn var látinn standa upp og syngja lag í upphafi skóladags – ég gjóaði augunum aftur á næsta sæti og við sprungum úr hlátri. Traustur grunnur að ævilangri vináttu.

Við veinuðum af hlátri yfir dægurlögunum í óskalagaþáttum gufunnar, ef ekki óbreyttum, þá okkar eigin útgáfum. Við gerðum okkar eigin „útvarpsþætti“ 9 ára, rugluðum nöfnunum okkar saman og máluðum klessumálverk undir listamannanöfnunum KjarVal og Tan[n]Garður 10 ára, við stofnuðum hljómsveit 11 ára, spiluðum fótbolta í strákafélagi, að ógleymdum leynifélögum og öðrum hefðbundnum uppátækjum þessara tíma.

Eftir stutt hlé lágu leiðir okkar aftur saman í Menntaskólanum í Kópavogi. Nú var drifkrafturinn, greindin og húmorinn farinn að beinast í markvissari farveg. Kjartan var formaður nemendafélagsins, ritstjóri skólablaðins og sat í skólastjórn. Ein minning situr öðrum ofar, seint um nótt, þegar verið var að klára skólablaðið eftir margra sólarhringa vinnu, Kjartan búinn að sitja lengi að, en var samt manna líflegastur að leiðbeina öðrum og bæta sjálfur við efni á síðustu metrunum.

Eftir MK skildu leiðir um stund, Kjartan bjó erlendis, en var samt aldrei fjarri. Í heimsókn til þeirra Eddu í Osló, rétt undir dögun á mánudagsmorgni, eftir góða helgi, ákváðum við að norskur félagi hans mætti gjarnan við því að halda að hann væri að vakna með kvenmann hjá sér eftir stífa bjórdrykkju. Okkur kom saman um að Kjartan þyrfti að leika „hlutverkið“ en það flækti málið aðeins að Kjartan var þá fúlskeggjaður. Hann tímdi ekki skegginu en eftir miklar vangaveltur sættumst við á þá, að okkur fannst, frábæru málamiðlun að raka skeggið af öðru megin og snúa þeirri hlið að norðmanninum. Einhverra hluta vegna féllu viðbrögð félagans þegar við vöktum hann í skuggann af viðbrögðum Eddu þegar hún mætti Kjartani með hálft skegg um morguninn.

Það ræður enginn sínum örlögum en við ráðum hvernig við bregðumst við þeim. Kjartan var ótrúlegur að þessu leyti, hvernig hann brást við erfiðum aðstæðum með jafnaðargeði, æðruleysi og húmor. Hann neitaði að gefast upp og var alltaf tilbúinn að sjá hina hliðina á öllum málum. Nafnið á útgáfufyrirtæki hans, Örlagið, var gott dæmi um húmorinn, hann hafði þó stjórn á einu „örlagi“.

Núna er sorgin og söknuðurinn yfirþyrmandi. En þegar frá líður lifir minningin, þakklæti fyrir að kynnast Kjartani og hafa þó fengið að hafa hann þetta lengi hjá okkur.

Sjúkdómurinn hafði betur að lokum í baráttunni við líkamann, en enginn tekur frá okkur minninguna um Kjartan og enginn sjúkdómur getur sigrað þau verk sem hann sendi frá sér. Og ef við lifum áfram gegnum börnin okkar þá lifir Kjartan góðu lífi.