Flokkaskipt greinasafn: Tónlist

Oqko & Ríkharður á Myrkum músíkdögum

Kíkti á Rikka á Myrkum músíkdögum í Norðurljósum Hörpu.. var nú ekki betur undirbúinn en svo að ég hélt að Oqko og hann væri að spila verkið saman, en það kom á daginn að þetta var sitt hvort verkið.

Þetta er svo sem ekki alveg mín tegund af tónlist, en virkilega gaman að taka smá tíma og ná einhverju allt öðru vísi.

Oqko var mjög sérstakt, gaman að heyra, en ekki viss um að ég myndi sækja svona oft.. Rikki notaði svo ótal (tuttugu og níu minnir mig) hátalara til að búa til verk sem er ekki líkt neinu sem ég hef heyrt áður, kannski er hans tónlist eitthvað nær því sem heillar mig, mögulega bakgrunnurinn, veit ekki.. en klárlega einn framsæknasti tónlistar maður landsins.

Fullveldispönk

Gunnar Lárus Hjálmarsson (Dr. Gunni) skipulagði svokallaða Fullveldispönk hjómleika á Hard Rock í nafni pönksafnsins.

Upphaflega áttum við Fræbbblar, Taugadeildin, Q4U og Jonee Jonee að spila. Árni Daníel veiktist og bæði Taugadeild og Q4U duttu sjálfkrafa út [þrátt fyrir loforð Gunna að hlaupa í bassaskarð Taugadeildar] – en Suð komu inn í staðinn og Tappi Tíkarrass.

Þannig að tvær hljómsveitir (JJ og TT) voru að spila í fyrsta sinn (að mestu) í hátt í þrjátíu og fimm ár! Og Suð nýlega komnir í gang aftur – og með flotta plötu.

Hard Rock er með frábæran hljómleikastað, mjög skemmtilegt umhverfi.

Fullt af fólki mætti og við Fræbbblar fórum fyrstir á svið – enda vorum við fyrstir! Í þetta sinn langaði okkur einfaldlega að slaka á eftir spilamennskuna og sjá aðra, enda ekki á hverjum degi sem svona hljómsveitir taka upp þráðinn [það er ekki við hjómleikahaldara að „sakast“ að við byrjuðum, einhverjir voru að benda á að þetta hafi kannski ekki verið besta röðin, en þetta var sem sagt okkar ósk].

En… okkur gekk vel, spilamennskan var fín, við skemmtum okkur mjög vel og móttökurnar og viðbrögðin eftir á bentu til að gestum hafi ekkert leiðst sérstaklega á meðan við spiluðum.

Suð eru alltaf mjög skemmtileg hljómsveit, liðu kannski í þetta sinn fyrir að flestir hljómleikagestir voru mættir í svona um það bil 1981 stemmingu.. en topp hljómsveit.

Tappinn var flottur, Gummi og Jakob með því besta sem ég hef heyrt hjá trommu- og bassaleikara – ekki svo að skilja að aðrir meðlimir hafi verið slakir! Gaman að sjá hvað Viktor kveikti vel á að heyra í þeim í fyrsta skipti.

Og Jonee Jonee eru einstakir, trommur + bassi + söngur, man alltaf þegar ég sá þá í MS í fyrsta skipti. Og þeir voru heldur ekkert sérstaklega leiðinlegir í kvöld..

Sem sagt, alveg sérstaklega vel heppnað kvöld, Gunni á skilið sex stjörnur af fimm fyrir skipulag og kynningu – og Stefán / Hard Rock heldur betur fyrir aðrar sex stjörnur fyrir flottan hljómleikastað – og já, ekki gleyma Silla sem sá um hljóðið, það munar alltaf svo miklu að hafa topp hljóð.

Lokadagur Airwaves

Aftur varð eitthvað minna úr flakki en bestu áform höfðu gert ráð fyrir. Þurfti auðvitað að byrja að horfa á Arsenal-Tottenham.. og svo komst ég bara ekki af stað, langaði að sjá Heiðu og Svavar Knút og fleiri.

Komst svo loksins af stað og mætti í Iðnó þar sem norska hljómsveitin Make Dreams Concrete náði engan veginn að heilla mig. Finnska hljómsveitin Pertti Kurikan Nimipäivät var hins vegar ansi sérstök, sennilega eina hljómsveitin sem ég hef hlustað á sem spilar styttri lög en við Fræbbblar. Örstutt, einföld, keimlík lög og kannski frekar ómerkileg í sjálfu sér, en það er samt eitthvað heillandi við þá.

Næst yfir á BarAnanas þar sem ég náði í endann á Lefty Hooks & The Right Thingz, með „Gnúsa“ innanborðs og svo Amabadama, mjög skemmtileg – og nýja efnið virkar mjög vel… ekki leiðinlegt að heyra að gamli skólabróðirinn Jón Stefánsson, á einn textann.

Jæja, svo kíkti ég með Jonna og Skúla á PJ Harvey í Valshöllinni. Mjög flottir hljómleikar og sé ekki eftir að hafa farið. Sáum reyndar Mammút á undan og þau voru talsvert miklu betri en þegar ég sá þau síðast (reyrndar fyrir einhverjum árum), ekki kannski alveg mín deild en þeim á örugglega eftir að ganga vel.

En, að PJ Harvey, mjög flottir hljómleikar, duttu kannski aðeins niður um tíma, en virkilega góðir hljómleikar, ég segi ekki á topp tíu, enda fáránlegt að raða hljómleikum upp í ímyndaða gæðaröð.. amk vel yfir meðallagi. Hljómsveitin reyndar fjölmennari en ég átti von á, tíu manns, tveir trommarar, þrír að spila á hljómborð, fjórir á gítar, einn á bassa, nokkrir á saxófón…

airwaves-sunnudagur-4

Ég hef reyndar verið að hljómleikum þar sem flytjandi spjallar meira við áhorfendur, en kannski hafði hún ekkert að segja.

AirWaves, annar dagur

OK, þetta er auðvitað þriðji dagur á Airwaves, en sá annar hjá okkur. Við tókum daginn ekkert rosalega snemma, enda vinnudagur, en..

Fórum með Jonna á Kex að hlusta á Kate Tempest á Kex, rétt sluppum inn áður en röðin lengist úr hófi… Krissi & Rúna komu einhverjum mínútum seinna og áttu ekki möguleika á að komast inn.

En Kate var flott, minnti að einhverju leyti á Streets, að einhverju leyti á Crass en svo sem aðallega á sjálfa sig.

Þaðan röltum við svo á Dillon og hittum Krissa og Rúnu. Sátum reyndar úti í tjaldi lengi vel, en Grit Teeth voru ekki okkar tebolli, Captain Syrup voru mjög skemmtilegir í byrjun, en ég var ekki alveg að átta mig á þeim þegar á leið.

Við höfðum hugsað okkur að hitta Önnu-Lind & Skúla og Viktor & Dóru í miðbænum, OMAM á Nasa en fengum þær fréttir að biðröðin væri komin út að Café Paris löngu áður en þau áttu að byrja. Þannig að við ákváðum að halda okkur á Dillon og sjá Dr. Spock.. Á jákvæðu nótunum var þetta vissulega kraftmikið og þétt og gaman að þeim í nokkra stund.. en fúli-kallinn í mér varð fljótt frekar þreyttur í loftleysinu á að hlusta á svo sem ágæt riff en ekki annað en (þori ég að segja?) tveir æstir kallar að gjamma eitthvað óskiljanlegt, engar laglínur og einhvern veginn frekar einhæft, sem þarf ekki endilega að vera slæmt. En nei, nei, þeir voru fínir, en ég er kannski ekki að missa mig eins og margir félaganna..

Í öllu falli, þurftum við aðeins næði og fengum okkur litla rándýra bjóra á Mikkeler áður en við stefndum á að ná Önnu-Lind og Skúla á Iðnó. Þau voru auðvitað nýfarin þegar við komum, Valdimar átti tvö lög eftir, svo sem fínasta efni og mjög vel flutt. Trommarinn í næstu hljómsveit, Moji & The Midnight Sons.. benti okkur á að við þyrftum endilega að kíkja á þau, sem við gerðum. Iðunn var svona rosalega heilluð og dansaði nánast allan tímann. Ég var minna spenntur, eiginlega alls ekki heillaður, vel gert og fín söngkona.. en ég get ekki svona efni, örugglega mitt vandamál, en ég er bara svona skrýtinn.

Þá var að reyna að hitta Viktor & Dóru, reyndum að kíkja á Hótel Borg, skilst að barinn þar sé fínn.. en Viktor & Dóra voru á Húrra að kíkja á Shades Of Reykjavík. Við gripum sitt hvora bæjarins bestu áður en við fórum þangað, en aftur var allt of löng biðröð. Þannig að við duttum inn á Dubliner, þau komu svo þangað.. og ég var eiginlega búinn að fá of mikið af bjór þannig að við kláruðum ekki einu sinni bjórana áður en við gripum leigubíl og fórum heim.

En… þetta biðraðakerfi er út úr öllu korti.

airwaves-fostudagur-1

AirWaves, fyrsti dagur (hjá mér)

Kíkti í Hörpuna um kvöldið, fyrsta mál á dagskrá var að heyra í Lydon, en var aðeins of seinn.. Viktor & Dóra voru einhverjum mínútum á undan mér og fóru beint inn, en það smellpassaði, ég var nánast næstur inn þegar hann hætti. En Viktor náði einhverjum skemmtilegum spurningum og þau höfðu mjög gaman af..

Ég sé á myndum að Bubbi er farinn að hlusta á Ramones, vonandi hefur JL ekki tekið því illa að hann væri að flagga þeim.

Næst voru Fufanu, sem voru alls ekki slæmir, frekar rólegt og kunnuglegt – nokkuð sem þarf auðvitað alls ekki að vera slæmt í sjálfu sér – vel gert og allt það – en óneitanlega afskaplega óspennandi og gleymanlegt. (æ, þetta átti ekki að hljóma svona neikvætt).

Rölti með Heiðu yfir á Húrra þar sem Die Nerven voru að spila en náðu engan veginn að heilla mig þannig að ég ákvað að rölta aftur yfir í Hörpu þar sem Sonics voru að fara að byrja.. margir félaganna mjög spenntir fyrir þeim. Sonics voru svo sem ekkert slæmir, ágætlega þétt og svona klassískt sjöundaáratugar rokk. En einhvern veginn stóðu þau ekki undir öllu lofinu og væntingunum, ætli yfirkeyrt hljómborðið hafi ekki farið mest í taugarnar á mér.. á köflum var þetta eins og að hlusta á einn gaur með skemmtara. (já, ég hef skrýtinn smekk, ef einhver er að undrast að hafa ekki getað lesið í það).

Þannig að ég ákvað að kíkja aftur yfir á Húrra þar sem Pink Street Boys voru að spila, hafði einmitt hitt einn þeirra á leiðinni frá Die Nerven, og sagði mér að hann hefði gaman af að sjá mig. Og það var svo sem gagnkvæmt, alvöru kraftur og líf og einhver skemmtilegasta hljómsveit sem ég hef lengi séð – flottir grunnar að lögum, en ef ég má gefa þeim einhver ráð [já, ég veit að þeir lesa þetta varla] þá mættu sönglínur vera meira sjálfstæðar [já, ég veit líka, það er ekki eins og ég hafi mikið fram að færa um hvað virkar og hvað virkar ekki – bara minn undarlegi smekkur].

En, einhverra hluta vegna ákváðu barþjónarnir að hætta að selja bjór af krana rétt þegar röðin kom að mér og buðu bara upp á flöskubjór.. átta mig ekki á hvaða stælar það eru.. en mig langaði í góðan bjór þannig að ég kvaddi, sama saga á Frederiksen þannig að ég rölti yfir á Nasa, þar sem Viktor og Dóra voru að horfa á Úlf úlf… kraftur og mikil stemming, en tónlistin kannski ekki minn tebolli.