Flokkaskipt greinasafn: Spjall

Fótbolti og fótbolti

Kíkti á restina af fyrri hálfleik og allan þann seinni hjá „Breiðablik – Fram“. Leikurinn tapaðist 1-2, þrátt fyrir talsvert mikla yfirburði Blika það sem ég sá, nema í því eina sem skiptir máli – að skora. Þar höfðu Framarar yfirhöndina… þeir voru væntanlega sáttir við sigurinn og að tryggja endanlega sæti í efstu deild, en mikið svakalega vorkenndi ég þeim að sparka eitthvað út í loftið og hlaupa svo á eftir boltanum megnið af seinni hálfleik.. og byrja að tefja þegar meira en hálftími er eftir. Þetta hefði kannski verið minna pirrandi ef Hólmbert hefði skorað en hann fór út af í hálfleik.

En talandi um Blika, mér er nú eiginlega fyrirmunað að skilja hvernig og hvers vegna sumarið er að enda svona hjá annars stórgóðu og flottu liði. Evrópusætið fjarlægist stöðugt en þótt ótrúlegt megi virðast er það enn mögulegt og jafnvel ekki einu sinni svo fjarlægt. Ef liðið spilar af fullri getu og klárar síðustu þrjá leikina þá þarf ekki mikið til að stela Evrópusætinu aftur á lokasprettinum.

Svo í Postula fótboltann um kvöldið, Jonni mætti í fyrsta sinn í nokkur ár, og augljóst að það er nokkuð síðan hann hefur spilað, en líka augljóst að hann hefur fínan leikskilning og skoraði fimm mörk. En þetta var eitt af þessum leiðinlegu fótboltakvöldum þar sem óhemjugangur og frekja eru það eina sem maður man eftir.

Menningarnótt

Þetta var nú eiginlega með slappari menningarnóttum hjá okkur, kannski einhver þreyta eftir gærkvöldið.

En, við Fræbbblar spiluðum á Dillon seinni partinn. Þetta tók ansi mikla snúninga, mikinn burð langar leiðir.. Þetta er, held ég, tíunda árið sem við spilum á Menningarnótt og aldrei hefur verið vandamál að koma græjum á staðinn, en núna voru allar götur lokaðar.. öryggisástæður voru gefnar upp. Gott og vel, en það má alveg vera einhver skynsemi. Og það þarf þá að vera valkostur að nota strætó. Og það hefði verið óvitlaust að kynna þessar breytingar almennilega. Urrrr…

En spilamennskan gekk að mestu slysalaust þrátt fyrir að Assi væri fjarverandi og þrátt fyrir að talsvert ólag væri á græjum og hljóðkerfi.. við höfum sennilega spilað þetta af gömlum vana, við heyrðum til þess að gera lítið í okkur á sviðinu en þetta virðist hafa hljómað þokkalega.

En, Dillon á hrós skilið fyrir að standa að tónleikum á Menningarnótt.

Það tók svo talsverðan tíma að koma dótinu til skila, var ekki kominn aftur í bæinn fyrr en rúmlega sex. Við Iðunn fórum að finna okkur mat, Forréttabarinn varð fyrir valinu, frábær matur eins og venjulega og þjónustufólkið lipurt.

Iðunn - forréttabar - Menningarnótt - minni

Þetta tók hins vegar allt sinn tíma, enda Menningarnótt og við ákváðum að þiggja far heim hjá Andrési, í stað þess að treysta á leigubíla eða strætó. Vorum komin heim um hálfellefu… flugeldasýningin virkaði ágætlega í fjarska.