Flokkaskipt greinasafn: Spjall

Afmælisdagur

Þrátt fyrir partýið síðasta laugardag þá á Iðunn raunverulega afmæli í dag..

Vorum hálf-löt og hálf-partinn til í eitthvað létt að borða, en ákváðum samt að fara út að borða og fá okkur „eitthvað létt“.. kíktum á Mathús Garðabæjar, að ráði Viktors, og það var heldur betur alvöru máltíð..

Kannski voru það einhverjir fordómar að halda að það væri ekki hægt að finna alvöru veitingastað í Garðabæ, en hvílíkur matur! Geitaosta, rauðrófu, hnetusalat til að byrja með (þeas. eftir smá freyðivín) og sjávarréttapasta annars vegar og frábært andalæri hins vegar voru fyrsta flokks… verst að við höfðum varla lyst á eftirréttinum. Keli veit klárlega hvað hann er að gera…

En frábær lok á alvöru afmæli hjá alvöru konu… held í alvöru að ég sé giftur (já, giftur, ekki kvæntur) flottustu konu sem finnst.. og besti vinur minn.

Rokkhátíð á Ölstofu Hafnarfjarðar

Við Fræbbblar spiluðum á Rokkhátíð Ölstofu Hafnarfjarðar.. mættum með græjur upp úr hádegi, stilltum upp og fengum hljóðið í lag.

Einhverra hluta vegna vorum við mjög seint á dagskrá, náðum þó að færa okkur til 2:00 í stað 3:00.. en ekki heppilegasti tíminn fyrir okkur og ekki góður tími fyrir þá sem kannski hefðu mætt til að sjá okkur. Einhverjir komu nú aðallega til þess en gáfust samt upp á biðinni..

En, mættum frekar seint, enda erfitt að fara að spila eftir að hafa verið að hlusta í marga klukkutíma. Við rétt náðum Sign – sem hljómuðu ágætlega, það sem við heyrðum – síðan kom Guns & Roses Tribute band, rosalega vel gert, en afskapleg finnst mér þetta lítið spennandi tónlist. Einhver kallaði þetta skallapopp með metalhljóm, ekki ég, en skil hvað átt er við. Þá kom 3B blúsband sem var líka mjög vel spilandi en aftur ekki mín tónlist. Við áttum þokkalegt kvöld, held ég, ekki kannski okkar bestu hljómleikar, en langt frá því að vera okkar verstu. Mosi músík (ekki skylt Mosa frænda) luku svo kvöldinu, komu þægilega á óvart.

En frábært framtak hjá Ölstofunni… vonandi fáum við með ef þetta verður endurtekið að ári og vonandi fyrr á ferð.

Bjórhátíð

Ákváðum að mæta tímanlega á bjórhátíðina á Kex í dag.. Í þetta skipti var hátíðin í kjallaranum og einstaklega vel heppnað. Gaman að prófa bjóra sem fást ekki að öllu jöfnu á landinu.

Rikki kíkti með okkur og Brynja & Óskar mættu undir lokin.. nánar annars á blogginu mínu.

Við fórum svo á Kryddlegin hjörtu og fengum mat sem var á mjög sanngjörnu verði og eiginlega bara mjög góður.

Einn bjór að lokum á Ölstofu Kormáks og Skjaldar en fórum snemma heim – og snemma að sofa.

Afmæli

28. júlí var lengi tvöfaldur afmælisdagur.

Pabbi átti afmæli þennan dag, hefði orðið 95 ára.

Og Þóra, konan hans Helga á líka afmæli þennan dag. Þóra bauð í eðal-fiskisúpu að hætti þeirra hjón, að ógleymdum tveimur kökum í eftirrétt.

Pallur

Fyrsti raunverulegi frídagurinn, „hjóluðum“ í að mála pallinn.. Addi og Viktor fluttu allt draslið af pallinum, ég bar á hann og Iðunn bar á þann hluta veggjanna sem þurfti til. (Og Addi sagði þrisvar sinnum brandarann um „áberandi“ 🙂

En gott að vera búin að þessu.. eitt af örfáum hreinum „skylduverkum“ í sumarfríinu.

Garður, flakk, naut, sirkus, hljómleikar og bjór

Byrjuðum á að rífa upp rætur 10 trjáa úr garðinum, nokkuð sem hafði staðið lengi til, og skotgekk með hjálp bílsins.

Ingólfshátíð - 1
Þá niður í bæ að kíkja á Ingólfshátíðina á Austurvelli,hittum Monicu og dætur – og þaðan á matarmarkaðinn í Fógetagarðinum með Krístínu og Ægi Mána. Létum eitt smakk nægja og einn bjór frá Skúla.

Fyrri áætlanir um að kíkja í grill með gögnuhóp Staka gengu ekki upp.

Þaðan heim að elda nautalund.. og ég held svei mér þá að ég hafi aldrei fengið betri nautalund, keypti í „Þín verslun“ í Seljahverfi og smellhitti á eldunartímann.. verst að ég get sennilega aldrei endurtekið þetta.
Nautalund 1 Nautalund 2
Við fórum svo með Assa & Stínu á Skinnsemi sýningu Sirkus Ísland á Klambratúni. Skemmtileg sýning og frábært framtak.

Við röltum við niður í bæ eftir sýning, fengum okkur bjór á Ob.La.Di. Ég mæti þarna allt of sjaldan, skemmtilegur staður og alltaf lifandi tónlist – Björgvin, Pálmi og Tommi voru að spila eitthvað sem þeir kölluðu kokteilmúsík, heldur betur ekkert að því. En við entumst reyndar ekki lengi, enda frekar lúin eftir gærkvöldið og þurftum þar fyrir utan nauðsynlega að prófa Mikkeler bjór fyrir svefninn.

Horfðum svo á bardaga frá Las Vegas fyrir svefninn.