Flokkaskipt greinasafn: Frí

Sylvía og Magnús mæta

Morgunmatur, strönd, steikur aspas á svölunum með mozzarella tómatasalati, foie gras, rauðvín..

Magnús & Sylvía voru í seinna fallinu en við fórum með þeim á kínverska New Ming í götunni.. allt í lagi kínverskur staður.

Stutt stopp á Crumbles, Terry enn lasinn, getur ekki staðið í fótinn – og svo Whisky smakk á svölunum..

Gaman að fá þau, en verst hvað Magnús var lasinn..

Smábátahöfn og Da Fano

Morgunmatur á svölunum…fórum í vínsmökkun á nýja rauðvínsstaðnum seinni partinn. Smá fótbolta gláp seinni partinn á Belfry. Náði ekki að veðja á Manchester City – Chelsea vegna þess að ég var staddur á Spáni.. ætlaði að setja á 1-1 nákvæmlega. Og leikurinn fór nákvæmlega 1-1!

Tókum strætó niður á smábátahöfn og fórum á Da Fano.. frábær matur hjá mér, en Iðunn minna hrifin. Röltum um smábátahöfnina og svo á Cherrys í götunni okkar, en Crumbles var lokaður.

Benalmadena - smábátahöfn - 2

Strönd, sardínur og steik

Létum morgunmatinn nægja heima í þetta sinn, kíktum á ströndina og í hádegismat á næsta veitingastaðnum.. ég fékk mér sardínur af gömlum vana, Iðunn „calamites“. Sardínurnar voru frábærar, en eitthvert óbragð var að trufla mig langt fram á kvöld..

Kíkti á Aston Villa – Arsenal á Belfry og ekkert sérstaklega leiðinlegt að sjá Arsenal í þessum gír. Rauðvín, ostar og skinka á svölunum seinni partinn.

Fórum á argentínska steikhúsið um kvöldið.. þeir áttu bara eina Kobe steik, 300 gramma þannig að við fengum okkur annað, og heldur betur frábærar steikur… og rauðvín í takt.

Kíktum svo á Crumbles við hliðina og sátum nokkuð lengi fram eftir að spjalla við Alex og Maite.

Benalmadena - sardínur - 1

Markaður og strönd

Byrjuðum á föstudagsmarkaðnum uppi við Tivolíið – þeas. eftir morgunmat í bakaríinu – og keyptum eitthvert smádót en ekki mikið.

Á ströndina eftir hádegi og ætluðum á Casino um kvöldið til að taka þátt í póker móti. Sættum okkur við nánast óæta hamborgara á írskum / enskum stað á leiðinni – og komumst að því að vefsíða Casinosins var ekki rétt, mótin eru bara fyrstu daga vikunnar. Peningaspiliið („cash game“) var rétt að byrja, en lágmarksinnkaup voru 100 Evrur sem við ákváðum að tíma ekki.

Nokkrir bjórar á Crumbles og svo til þess að gera snemma heim að sofa.

Benalmadena - Iðunn - 2

Benalmadena

Fyrsti dagurinn á Benalmadena.. morgunmatur í bakaríinu.

En dagurinn fór svo sem að mestu í rölt og fyrstu innkaup – og að heilsa upp á Terry á Crumbles. Terry var reyndar að glíma við bilaða kæliskápa og ekki með mat í boði.

Fengum okkur bjór á ströndinni við Bil Bil, svo á nýjan vínbar að smakka vín, eðal hrá skinku, smokkfisk og svínahnakka.

Út að borða á Flying India sem aftur vann sig upp á gæðalistanum. Frábær indverskur matur, hefur einu sinni brugðist en ekki í þetta sinn..

Kíktum á Crumbles um kvöldið í nokkra bjóra, en Terry var veikur heima.. Alex sonur hans stóð þó vaktina með prýði.

Benalmadena - Alex

Amsterdam – Malaga

IBC lokið.. smárölt í miðbæ Amsterdam, meiri vindlar, meiri bjór á Pilsener Club og svo í flug.

Fluginu seinkaði og Iðunn var kominn á flugvöllinn í Malaga klukkutíma á unda mér – óneitanlega gaman að hitta hana eftir að hafa verið að þvælast einn.

Fórum nánast beint út að borða á alveg ágætan ítalskan stað á móti okkur í götunni.

En alltaf gaman að koma til Benalmadena, svona hálf heimilislegt.. mátulega stór bær, allt til alls, en ekki of troðið.

Löng helgi í Barcelona

Við fengum þrjá daga í Barcelona eftir siglingu.. komum að morgni laugardags og flugum heim seint á mánudagskvöld.

Hótelið okkar, Sunotel Central, var svo sem vel staðsett og ekkert sérstaklega dýrt, 10-15 mínútna ganga frá miðbænum, en ljóslítið herbergi og undarlegar rafmagnstengingar fóru aðeins í skapið á mér. Við uppgötvuðum allt of seint að það var sundlaug uppi i á þaki.

Laugardagurinn fór að mestu í rölt um bæinn, enduðum á frábærum ítölskum stað, Buoni e Cattivi, í hliðargötu af hliðargötu, í síðbúinn hádegismat. Um kvöldið fórum við á grænmetisstaðinn Teresa Carles, sem bauð upp á ágætis rétti og vingjarnlega en svolítið utan-við-sig þjónustu. Og skelfilegt loftleysi. Jonni kom pakksaddur eftir hamborgara og eftir matinn fórum við og sóttum forláta gítar sem Kassandra hafði gefið honum og fórum með upp á hótel til okkar – Jonni hafði áhyggjur af að geyma hann lengur í íbúðinni. Sátum svo á háskólatorginu eitthvað fram eftir, en entumst ekki lengi, enda dagurinn tekinn snemma.

Á sunnudeginum kom Haukur til okkar frá Manresa,  þar sem hann spilar körfubolta, þeas. yfir veturinn. Við fórum og reyndum að finna hvar foreldrar Sylvíu, Helgi og Doris, höfðu búið í Barcelona í borgarastyrjöldinni. Fundum líkast til staðinn en húsið hefur væntanlega verið rifið. Þaðan á Míró safnið sem var svo sem ágætt en mátulega merkilegt og stoppuðum á útsýnisstað yfir borgina á leiðinni niður í bæ. Þar fengum við okkur síðbúinn hádegismat á Senyor Parellada, eðal veitingastað þar sem við fengum frábæra rétti. Næsti staður var Reial torgi þar sem vinur Hauks bauð okkur upp á kaffi og bjór á veitingastað, Rei De Copes, sem hann, þeas. vinur Hauks, á. Kvöldmaturinn var á spænska veitingastaðinn La Luna og vorum ekki svikin þar, skemmtilegur veitingastaður með góðan mat. Eftir matinn fórum við niður á höfn þar sem mikil hátíð var í gangi, einhvers konar gamlárskvöld þeirra Barcelonabúa, dagur Sant Juan, með flugeldasýningu og endalausum hvellhettum.

Mánudagurinn var svo frídagur og flestar verslanir lokaðar, fórum reyndar stutt í verslunarmiðstöðina Maremagnum.. en duttum tvisvar í tapas – á Bilbao Bistro í seinna skiptið – og svo á 9granados um kvöldið, eftir að uppgötva að áfangastaðurinn Etapes opnaði ekki fyrr en klukkan átta. Við fengum ágætan mat þar en staðurinn stóð ekki undir væntingum þeirra sem vildu grænmetisrétti þrátt fyrir yfirlýsingar þjónanna um að grænmetisréttir væru ekkert vandamál þegar við vorum að ákveða hvort við ættum að borða þarna. Jonni hafði ætlað að koma með okkur en gekk illa að fá staðfestingu á fluginu, hann sagðist svo vera hættur við að koma með okkur, en reiknaði með að koma fljótlega og þá með Kassöndru. Við vorum svo rétt að koma á flugvöllinn þegar Jonni hringdi aftur og sagði að þau væru bæði búin að bóka sig í flugið með okkur.. og það gekk eftir, þau rétt náðu í flug og komu með okkur.

Flugið, með Vueling, var með þeim leiðinlegri sem ég hef lent í, enn þrengri sæti en ég á að venjast, sem betur fer vorum við Iðunn með þrjú sæti, gat aðeins dottað þegar leið á, en var einhvern veginn í hnút alla ferðina.

FB - Vefur - Barcelona - eftir siglingu - 50