Flokkaskipt greinasafn: Fréttir

Sigling 2008

Ferð út

Við stoppuðum í London á leiðinni út, lentum á Stansted rétt fyrir hádegi og fórum frá Heathrow um kvöldið. Við vorum samferða Krissa og Rúnu í fluginu út, rétt náðum að segja skál við Arnar og Unni í Keflavík en misstum af Hjálmari, ótrúlegt en satt. Við kvöddum Krissa og Rúnu með bjór á Stansted. Við áttum svo nokkra klukkutíma milli flugferða þannig að við skildum töskurnar eftir á Euston og fórum í Camden Town.

Skemmtileg stemming á markaðnum þar, en stoppuðum ekki lengi og eyddum allt of löngum tíma í að reyna að finna ítalskan veitingastað, sem reyndist svo vera of langt í burtu fyrir þennan tíma, og enduðum á snarli á pöbb.

Aþena

Lentum svo í Aþenu um hálf þrjú nóttina eftir og ekkert mál að finna leigubíl. Bílstjórinn gaf aðeins tóninn fyrir Aþenu, keyrði allt of hratt, fór yfir á rauðu ljósi og reykti í bílnum. Viðhorfið var gjarnan þegar Iðunn ætlaði að drepa í sígarettunni áður en hún fór inn, „Hvað ertu að hugsa? Hafðu ekki áhyggjur, þú ert í Aþenu“.

Fyrsti dagurinn í Aþenu fór svo í rölt, höfðum hugsað okkur að fara í skoðunarferð á Akrópólis daginn eftir. Út að borða um kvöldið á stað sem vinkona Iðunnar hafði mælt með, Abyssina, ekkert sérstakur matur, en fínt umhverfi, brenndi mig á báðum höndum á einum disknum.

Akrópólisferðin klikkaði svo á því að það var líka fyrsti maí í Grikklandi. Allt lokað. Röltum samt upp á hæðina og skoðuðum bæinn. Fórum um kvöldið á veitingastað sem hótelið mælti með, fengum kjötsúpu í smjörpappír, ekkert sérstakur matur en skemmtilegt umhverfi og stemmingin fín, tveir náungar að spila gríska tónlist og syngja.

Sigling

Við vissum auðvitað ekkert hverju við áttum von á, gerðum okkar talsvert miklar vonir, en sáum þetta engan veginn fyrir. Skipið sló út öll fimm stjörnu hótel sem við höfum verið á. Erfitt að lýsa þessu í nokkrum setningum, en það voru 600 starfsmenn á skipinu en 1.300 farþegar og allir starfsmennirnir á tánum að passa upp á allt væri í lagi, herbergið (eða á ég að segja káetan?) var þrifin amk. tvisvar á dag, morgunmaturinn gat verið á hvaða lúxushóteli sem var, við gátum valið milli ótrúlega margra rétta í hádeginu, og svo var fjórrétta kvöldmatur. Allur matur og gisting var innifalin í tiltölulega hóflegu verði. En við drukkum auðvitað líka, það var vínsmökkun á hverju kvöldi og 13 barir á víð og dreif um skipið. Það var auðvitað Casino á skipinu og það voru sýningar á hverju kvöldi, sem við slepptum reyndar, bókasafn, listaverkasafn, málverkasafn, Picasso, Dali, Rembrandt, líkamsrækt (sem við hefðum kannski betur mætt í), innisundlaug, útisundlaug, körfuboltavöllur, útitafl og Spa. Gott dæmi um að þeir voru ekki að sleppa ódýrt frá hlutunum var að það spilaði hljómsveit fyrir balli og stundum við sundlaugina, kammersveit fyrir framan matsalinn, „dinner“ tónlist við einn barinn og Billy Joel afrit á píanóinu við annan.

Herbergið var þrifið tvisvar á dag og enn eitt dæmið um smáatriðin var að á hverju kvöldi beið okkur „dýr“ úr vöfðum handklæðum, fréttabréf, dagskrá morgundagsins og upplýsingar um næsta áfangastað.

Ferðin var eins konar blanda af sólarlandaferð, siglingu og borgarferð, nema hvað við þurftum ekki að pakka fram og til baka, og keyra langar leiðir, hótelið var jú með okkur.

Einhverra hluta vegna duttum við inn á Casino á hverjum kvöldi, ekki til að sóa stórum fjárhæðum, heldur var skemmtilegasta stemming þar, skemmtikrafturinn Barnaby, Rússinn Boris sem var í rauninni frá Úkraínu en leit á sig sem Rússa þar sem hann hafði flutt til Bandaríkjanna 1979, Úkraínumaðurinn Sasha, sem leit á sig sem Úkraínumann, konan hans Tania, vinkona hennar Elaine og maður Elaine, Jim, frá Californiu. John spilaði við okkur á meðan konan hans Caitlin var í rúllettunni. Systurnar Gail og Jackie frá Kanada og bræðurnir Howard og Bob frá Arizona (ef ég man rétt).

Þar fyrir utan kynntumst við talsvert af fólki við kvöldmatinn. Við vorum ekki með föst sæti í kvöldmatnum heldur vorum við sett til borðs með þeim sem til féllu hverju sinni. Tvisvar sátum við til borðs með hinum 86 ára Raymond Wynne og japönsku eiginkonunni hans Judy til 51 árs. Bæði mjög hress og Raymond sagði að kvöldið áður hefði hann verið unglingurinn við borðið. Joyce og George, Victoria og Mike, Penelope og David að ógleymdum mægðunum Rene og Hillary, sem við hittum nokkrum sinnum þar sem þær voru að tefla á útitaflinu við sundlaugina.

Istanbúl

MS Rotterdam stoppaði tvo daga í Istanbúl, fórum niður í bæ, keyptum „smá“ gull á gamla basarnum, fórum í tyrkneskt bað, Hamami, sem var frábært. Það er að segja hjá mér, Iðunn villtist aftur og aftur sín megin og fékk endurgreitt. Við báðum leigubílstjóra að fara með okkur á dæmigert tyrkneskt veitingahús, sem hann gerði, fínn matur og þjónarnir allir af vilja gerðir, reyndar frekar mikil óreiða, en mjög skemmtileg. Fimm þjónar fyrir hvert borð, einn til að færa okkur matseðlana, annar til að taka við pöntuninni, þriðji til að koma með matinn, sá fjórði til að segja honum hvert hann átti að fara með matinn og sá fimmti til að leiðrétta þann fjórða. Þegar Iðunn var ekki klár á hvernig hún átti að bera sig við að borða kebab-ið kom þjónninn og brytjaði ofan í hana eins og litlu börnin. Vorum svo næstum búin að týna skipinu, leigubíllinn fór með okkur á vitlausa höfn, en náðum að finna réttan stað á endanum.

Seinni daginn fórum við í skoðunarferð, létum pranga inn á okkur þremur rándýrum teppum, skoðuðum bláu moskuna, Ayasofia og safn sem bauð upp á staf Móses, sverð Davíðs og hendi Jóhannesar – eða svo sögðu þeir. Frábær matur í hádeginu í fyrrum sumarbústað þjóðhöfðingjans.

Varna

Við slepptum skoðunarferðum þennan dag, tókum leigubíl niður í bæ og höfum sennilega byrjað á vitlausum enda. Slepptum morgunmatnum á skipinu og ætluðum að fá okkur einfaldan morgunmat í bænum, kaffi, appelsínusafa og croissant, eða einhvers konar horn. Það var hins vegar hvergi í boði, pizzusneiðar í lúgum og kaffistofur sem buðu bara upp á sætar kökur. Fundum svo skárri bæjarhluta þar sem verið er að byggja upp og kannski þess virði að heimsækja seinna. Síðasti bjórinn var á ströndinni rétt hjá skipinu. Við höfðum rölt óvart í áttina að höfninni og leigubílstjórinn sem hafði skutlað okkur í bæinn, lofað að skutla okkur til baka og elt okkur þegar við löbbuðum fram hjá honum, missti af góðum bita.

Odessa

Þó ekki væri nema að koma á Potemkin tröppurnar í Odessa þá var ómissandi að fara í land. Að mörgu leyti svipuð og Varna, mikil uppbygging í gangi, fengum frábært Carpaccio á veitingastað sem var að mestu úr stáli og gleri.

Vorum samt ekki lengi, brúðkaupsafmælisdagurinn, fórum á Pinnacle, grillið á skipinu, um kvöldið og fengum frábæra steik en gleymanlega forrétti og eftirrétti.

Constanta

Kannski minnst spennandi borgin við Svarta hafið, stoppuðum reyndar ekki lengi, tókum rútu í bæinn, reyndum að finna hraðbanka sem virkaði eða peningaskiptilúgu sem vildi skipta búlgörskum eða úkraínskum peningum. Þegar þeirri þrautagöngu lauk leituðum við að bar, hittum systurnar Gail og Jackie og buðum bjór með okkur. Röltum aðeins meira en tókum svo rútuna „heim“. Kannski eins gott að við völdum ekki skoðunarferð, hittum fólk sem kom niður á skip og sagði sínar skoðunarfarir ósléttar, farastjórinn hafði týnt þeim ásamt tíu öðrum.

Svartahafið

Svo var mjög sérstakt að sigla niður Svartahafið meðfram strönd Tyrklands. Við fengum sögustund á skipinu sem rifjaði upp bardagana við Gallipolí, „And The Band Played Waltzing Matilda“ söng í hausunum á okkur í steríó.

Þess á milli lesið, legið í leti, lesið, mót í 21 með viðbúanlegum árangir og lesið meira.

Ísrael

Tókum langa skoðunarferð til Jerúsalem og Betlehem. Ef eitthvað var átti ég von á að Ísrael væri auðugra að sjá, þó ekki væri annað. Leiðsögumaðurinn dældi í okkur sögu sem var farin að ryðga eða við höfðum alls ekki heyrt. Mjög fróður og sagði vel frá, en á köflum aðeins of góður með sig og sína, fyrir minn smekk. En sagan auðvitað miklu flóknari og hrikalegri gegnum tíðina og reyndar miklu meiri flækjur í dag en maður fær af daglegum fréttum. Og átökin í dag, þó kaldranalegt að segja, kannki bara skuggi af því sem þau hafa verið gegnum aldirnar. Við heimsóttum Getsamanegarðinn, grátmúrinn, krossfestingarhæð og upprisuhelli í Jerúsalem og fórum seinna um daginn til Betlehem að skoða fæðingarstað Jesú. Í rauninni nöturlegt að rifja upp allar þær hörmungar sem þessir staðir hafa kostað, þetta eru bara staðir, steinar og dót. Allt saman heilagt og þess virði að drepa miskunnarlaust fyrir. Hlægilegt að hugsa til þeirra trúuðu andans manna sem tala niður til (okkar) sem ekki trúa á neitt sem fólks sem „trúir á stokka og steina“, sem er auðvitað ekki rétt, við trúum heldur ekki á stokka eða steina. Og að sjá svo þessa stokka og steina sem þeir trúuðu hafa verið að eltast við gegnum aldirnar, er það ekki að trúa á stokka og steina?

Kýpur

Stysta stoppið í ferðinni var í Limasol á Kýpur, við tókum rútu í bæinn og til baka, á milli fengum við okkur bjór, keyptum Muscat vín og Elato, kýpverskt nammi og hnetur, fengum okkur Moussaka og fórum til baka.

En sennilega sá staður sem við færum helst til í sumarfrí af þeim sem við heimsóttum, þó stoppið væri stutt þá minnti þetta á ódýra og rólega Nice.

Egyptaland

Fórum í skoðunarferð frá Alexandríu til Kaíró, pýramídar, Sfinx og matur á Níl. Sláandi fátækasta svæðið sem við keyrðum um, þriggja tíma ferð hvora leið, ekki kannski skemmtileg, en gaman að sjá hvernig þeir eru að rækta upp eyðimörkina, sem okkur var sagt að væri að frumkvæði Sadats.

Pýramídarnir voru svo sem nógu stórir og svakalegir en samt ekki svo heillandi. Allar kenningar um að pýramídarnir væru svo mikil og vönduð smíð að þetta hlyti að vera gert af geimverum eða öðrum máttarvöldum virkuðu jafnvel enn hlægilegri í návígi. Vissulega stórt og mikið og hefur kostað einhverja mannmánuði í vinnu, en greinilega bara fullt af fólki að vinna í marga áratugi. Leiðsögumaðurinn sagði okkur að það hefði komið í ljós að þeir hafi verið byggðir af bændum í sumarfríi en ekki þrælum. Má vera að þeir hafi unnið líka við þetta en það er ofvaxið mínum skilningi að einhver hafi puðað sjálfviljugur yfir sumarmánuðina við þetta, amk. miðað við hitastækjuna í maí.

Fórum inn í stærsta pýramídann gegnum loftlaus, lág göng og komumst að því að þar var ekkert að sjá og engin ástæða til að taka af okkur myndavélarnir.

Sölumennirnir fyrir utan voru enn ágengari en áður, einn hirti 20 dollara og 500 krónur (já, íslenskar) af Iðunni. Túristalöggan sem átti að passa ferðamennina fyrir óprúttnum sölumönnum var líka að maka krókinn á myndatökum, „aðeins 4 dollarar“.

Sfinxinn var, svona fyrir minn smekk, merkilegri en pýramídarnir, en hitinn var orðinn kæfandi og við stoppuðum ekki lengi.

Maturinn á fljótabátnum á Níl var svo sem ekki spennandi, magadansinn flottur og eins náunginn sem snerist hring eftir hring með einhvers konar pils eða hatt, en hvort tveggja full langdregið.

Síðasti dagurinn

Mót í 21, gekk betur en fyrra skiptið, en rétt misstum af úrslitunum, annars sama letilíf og fyrri siglingadaga. Fórum í fyrsta skipti í Spa hlutann og fengum frábært nudd.

Aþena

Fengum nokkra klukkutíma í Aþenu eftir að siglingunni lauk og áður en við flugum til London og ákváðum að reyna aftur að komast á Akrópólis, sem tókst og kom nokkuð á óvart, fengum einka leiðsögumann, sem rifjaði fullt af sögu upp, og vorum eiginlega nokkuð heilluð. Hefði ekki viljað missa af þessu.

London

Vorum eiginlega hálf lasin og hálf kvefuð, alltaf gaman að rölta um London og drekka bjór, en stóðum ekki í miklum stórræðum. Sáum Lewis Schaffer, uppistandara á The Arts Theatre, mjög góður og 3 frekar dapra uppistandara á Comedy Club kvöldið eftir. Fínn matur á indverska Rasa og hinum Thaílenska Busaba Eathai, frábær matur á japanska Roka en Passione nokkur vonbrigði. Spaghetti House og Cafe Pasta í Covent Garden buðu upp á fínt miðdagssnakk. En engir hljómleikar og ekki laust á Derren Brown. Sparks voru reyndar með hljómleikaröð þar sem þeir spiluðu eina stóra plötu á hverju kvöldi, „A Woofer In A Tweeter Clothing“ á laugardagskvöldinu, en þó ég hafi hlustað aðeins á hana í tónlistarhallærinu á fyrri hluta áttunda áratugarins þá endist hún ekki vel, og Iðunn hafði engan áhuga.

2007

23.-31. desember 2007

Hefðbundin en samt óvenju afslöppuð jól. Skata hjá Öggu á Þorláksmessu, mamma hjá okkur í mat á aðfangadag, fjölskyldan mín kom á jóladag, svo með Iðunnarfjölskyldu á annan. Árlegt Jólamót Jonnaí skák og Áramót Iðunnarí Bridge. Matur hjá Sylvíu og Magnúsi á gamlárskvöld, Hafsteinn, Jóna, Bjarni og Hafdís með, gamaldags partý hjá okkur eftir miðnætti.

16-18. nóvember 2007

Fórum til Manchester að sjá Sex Pistols, ég, Iðunn og Brynja, flugum til London og til Manchester með lest. Hittum þar Helga, Þóru, Sigga og Írisi. Ógleymanleg ferð, alltaf gaman í London, þó stoppið hafi verið allt of stutt í þetta sinn, Manchester kom skemmtilega á óvart. En aðalatriðið auðvitað hljómleikarnir, hálf döpur gestahljómsveit í hálftíma, hörmungar teknó hávaði í einn og hálfan tíma, og um það bil að gefast upp. En Sex Pistols stóðu heldur betur fyrir sínu, frábærir hljómleikar. Eini gallinn var að þetta var frekar stór salur, 22.000 manns, og við föst í sætum fjarri sviði, og ekki hleypt niður á gólf. Að öðru leyti frekar heppin með matsölu og skemmtistaði. Nokkrar myndir hér.

5. nóvember 2007

Mamma níræð – og eldhress – kaffiboð fyrir fjölskylduna í Fögrubrekku.

3. nóvember 2007

Við systkinin fórum til Dalvíkur til að vera viðstödd jarðarför Hillu, systir pabba, sem lést í vikunni. Þó tilefnið hefði mátt vera skemmtilegra var samt gaman að hitta ættingjana aftur. Heimir fór með okkur í útsýnisferð um Dalvík.

26.-28. október 2007

Árleg sumarbústaðaferð Sambindisins, á Laugarvatni í þetta sinn, fín helgi eins og alltaf en, að venju aðeins of mikið af heilsusamlegum atburðum og vondri tónlist og aðeins of lítið a vitleysu – svona fyrir minn smekk.

11.-15. október 2007

Til Madrid í langa helgarferð, Iðunn og vinnufélagar og hinir helmingarnir. Og… nokkuð margir sem við þekktum á sama róli. Skemmtilegur hópur og Madrid spennandi, þurfum að komast þangað fljótlega aftur, og hafa meiri tíma. Duttum inn á mjög góðan ítalskan stað á Gran Via, DiBocca, en Studio31 stóð ekki alveg undir væntingum eða verði. Tvær vínkynningar, tapas, argentínsk steik – fyrir utan alla barina og litlu veitingastaðina. Nokkrar myndir hér.

29. september 2007

Nokkurs konar ættarmót heima, Sævar, Mundi, Egill og fjölskyldur. Einstaklega vel heppnað kvöld…

6.-11. september 2007

Á IBC sýningu og ráðstefnu í Amsterdam. Talsvert af fólki frá Rúv, Stöð2, Sýn, Skjánum, Latabæ, Símanum, Vodafone, Nýherja og fleirum. „IPTV“ tískufrasinn og mikið að gerast, en mér sýnist hugtakið ansi losaralega notað – „MobileTV“ líka áberandi. En, nokkrar breytingar í sjónvarpsgrafíkinni, samkeppnin meiri, fleiri betri kerfi og verðin viðráðanleg.

Og, alltaf gaman í Amsterdam, afslappað andrúmsloft, en hefði alveg þegið aðeins meiri tíma á bjórbörunum sem við Jón Eyfjörð duttum inn á, að Whisky barnum ógleymdum, komumst full stutt með þessar 900 tegundir af Single Malt sem þeir bjóða upp á…

24-26. ágúst 2007

Matarklúbbur, GoutOnVa, á Einifelli hjá Auði og Steina. Og heimsmeistaramót í Einifells-Petang. Tilraunakennt fiskibrauð merkilega gott á föstudagskvöldið og stórkostleg fiskisúpa frá Steina, skolað niður með „tári Krists“ hvítvíni og Balbas rauðvíni amk. Fimmtán tegundir af Foie Gras í forrétt og grillað lambalæri með grilluðuð grænmeti á laugardagskvöldið, með truflaðri sósu, Amarone sennilega besta rauðvínið. Steini vann Petang titilinn og Auður og Steini parakeppnina. Nokkrar myndir
hér.

18. ágúst 2007

Menningarnótt – Fræbbblarnir spiluðu að venju með MegaSukk og Palindrome á bak við „Við Tjörnina“. Fín stemming að venju, en eitthvað fámennara en áður, enda búið að teygja svæðið og stilla upp hljómleikum á Miklatúni. Í sjálfu sér fínt að halda „stórhljómleika“ ef menn vilja – bara ekki blanda því saman við menningarnótt. Andrúmsloftið á fyrstu árum menningarnætur var einfaldlega miklu skemmtilegra, flestar búðir, söfn, salir og veitingastaðir opnir, hægt að rölta á milli og detta smástund inn á eitthvað nýtt og spennandi – eða ekki – en að minnsta kosti fullt af möguleikum. Þessi sauðamenning, það er að segja að smala öllum á stórhljómleika er fráleit og á eftir að drepa menningarnóttina. Samt, mjög fín stemming að deginum og skemmtilegir hljómleikar á „Við Tjörnina“ um kvöldið, eins og alltaf. Viktor tók nokkrar myndir.

10-12. ágúst 2007

Fórum á Fiskidaginn mikla á Dalvík, hittum ættina og afhentum Dalvíkurbæ málverk af Dalvík eins og hún leit sennilega út 1920 sem pabbi málaði 1979. Fórum öll systkinin með öll börnin, nema Þóra Kata, gistum á Akureyri og keyrðum nokkrum sinnum fram og til baka til Dalvíkur. Næst, og það verður örugglega „næst“, reynum við að fá gistingu á Dalvík. Myndavélin var stöðugt að bila en náðum einhverjum myndum.

Byrjuðum á föstudagskvöldinu að heimsækja ættingjana og smakka súpu, mættum svo upp úr hádegi á Fiskidaginn, þurfum að mæta fyrr næst til að ná fleiri „smökkunum“, náðum „Friðik V“., ætluðum til hans í mat á sunnudeginum, en opnaði ekki fyrr en 18:00.

Á laugardeginum var svo ættarmót sem Hilla og Heimir áttu veg og vanda af að skipuleggja. Komum aftur fullseint um kvöldið og orðið frekar fámennt í bænum.

4. ágúst 2007

Gamaldags partý í Kaldaseli, að hluta til afsökun fyrir að halda skemmtilegt partý og að hluta til söfnun fyrir Mauro. Mauro er ítalskur vinur Brynju og Kristínar, býr í Florens og gæti lent á götunni fljótlega. Hann hefur átt í erfiðleikum eftir mótorhjólaslys, en alltaf verið þeim – og okkur – innan handar með gistingu, nokkrar myndir.

18. júlí 2007

Þetta er öruggt ellimerki, Kiddi bróðir minn sextugur í dag, og þá eru bæði systkinin komin á sjötugsaldurinn.

29. júní – 21. júlí 2007

Við fórum í sumarfrí í lok júní – eyddum nokkrum dögum í London. Viktor, sem aldrei hafði farið annað en til Spánarstranda, hitti frændurna Anthony og Richard, tók „túristahring“ á London – og við fórum með, ellefta ferðin til London og alltaf látið þetta eiga sig. Sáum Spamalot, byggt á Monty Python þáttum og myndum, Gay Pride var á laugardegi, Comdey Club á föstudegi og Englendingar hættu að reykja á pöbbum á sunnudeginum. Auðvitað rigndi, jafnvel meira en venjulega í London, og einhver órói var eftir hryðjuverkatilraunir, ma. þurftum við að rýma svæði við Shakespeare leikhúsið við Thames á sunnudeginum. Ekki spillti að við vorum einstaklega heppin með veitingastaði, Giardinetto í Mayfair sennilega toppurinn. Og tókum rúnt í London Eye, myndirnar eru hér, en myndir frá London eru að öðru leyti hér.

Fórum svo til Spánar á miðvikudag, í letilíf á Benalmadena á Costa Del Sol. Markaður, Tívolí, Vatnaland, upp í fjöllin í kláf, Sea Life, Minigolf, ströndin og pool. Þurftum aðeins að hafa fyrir að finna betri veitingastaði, staðurinn orðinn aðeins breskari en hann var, á samt enn langt í land með að vera eins og Benidorm. Myndir úr kláfnum eru hér, en myndir frá Benalmadena að öðru leyti hér.

Viktor fór heim eftir rúma viku og nokkrum dögum seinna komu tengdaforeldrarnir, hefði reyndar verið gaman að ná fleiri dögum með þeim.

En toppurinn var að detta inn á hljómleika með Elvis Costello á ströndinni rétt hinum megin við Malaga. Aldrei séð hann áður á svið þrátt fyrir að hafa fylgst með honum í rétt tæp 30 ár. Frábærir hljómleikar, ekki spillti að hann tók mörg af okkar uppáhaldslögum, Watching The Detectives, High Fidelity, I Can’t Stand Up For Falling Down og I Don’t Want To Go To Chelsea – svo ég nefni nú einhver.

Á heimleiðinni stoppuðum við í sólarhring ekki langt frá Gatwick, fórum til Crawley, sem má örugglega heimsækja aftur, sérstaklega ítalska veitingahúsið ASK.

22-24. júní 2007

Heimsóttum Auði og Steina og Egill og Elínu að Einifelli, frábær ferð, heimsklassa matur og vínin í stíl. En Steini vann Petang mótið. Myndir hér.

10. júní 2007

Minningarathöfn um Tómas Sæmundsson, forfaðir Iðunnar, á Breiðabólsstað og veisla með tilheyrandi í Njálsbúð á eftir.

9. júní 2007

Fertugsafmæli hjá Guðmundi Einars, glæsileg veisla og skemmtileg og gaman að sjá Miklholtshelli. Gistum á Hótel Heklu um nóttina í góðu yfirlæti hjá Sigrúnu.

30. maí 2007

Anza og Síminn sameinast þannig að ég verð aftur starfsmaður Símans eftir nokkrar vikur.

24. – 30. maí 2007

Í helgarferð til Berlínar með Brynju og Kalla, flugum eftir miðnætti til Kaupmannahafnar, hittum Alla og Kristínu rétt fyrir hádegi eftir að ráfa um Köben frá 6 um morguninn, Hjálmar hitti okkur og fór með okkur á ekta smurbrauðstað – flugum svo til Berlínar seinni partinn.

Berlín er enn svolítið stór, ekki beint leiðinleg, vorum tiltölulega heppin með veitingastaði, ítalskan, japanskan, tapas og indverskan – en megnið af villta næturlífinu, rokk klúbbum og börum slapp við skoðun hjá okkur, enda ekki margir dagar. Fórum út að borða með Bryndísi, sem var í Berlín sömu helgi, og duttum inn í einhvers konar ungmenna listamiðstöð á mörgum hæðum seint á sunnudagskvöldið, mjög skemmtilegur staður.

Engu að síður fín ferð, góð afslöppun, frábær hópur, fullt af nuddi, aðeins of mikið búðarráp fyrir minn smekk, smá ferðamannarúntur – CheckPoint Charlie safnið, múrleifar, ofur hallærisleg þýsk „cover“ hljómsveit við Brandenborgarhliðið, er hægt að komast neðar en að spila gamla 10cc lagið „I’m Not In Love“ og setja stefið úr „Eye Of The Tiger“ inn?

Myndir hér.

18. maí 2007

Kosningalögin skoðuð í fréttum Rúv og Kastljósi. Vonandi verður þessu fylgt eftir og vonandi verða gerðar breytingar fyrir næstu kosningar.

16. maí 2007

Lokahóf Postulanna, alltaf skemmtileg kvöld, Arnar (og Unnur) buðu í matinn, hringurinn fékk sinn tíma og nokkrar breytingar á fyrirkomulagi samþykktar. Svo á Ölstofu og þaðan á eitthvert stefnulaust ráf..

15. maí 2007

Vefsíða Kolviðar opnuð, Ótrúlega gaman að sjá þetta verða að veruleika eftir þetta langan tíma, og ekki verra að finna að okkar hlutverk gleymist ekki, þó upphæðirnar hafi ekki verið háar.

13. maí 2007

Langri kosningaútsendinu lokið, vorum á vakt til 10:30 og vaknaði aftur 13:00. Mest spennandi kosninganótt sem ég man eftir og hef þó fylgst lengi með. Upptökur og fundir fram eftir degi, dottaði í hálftíma um kvöldmatarleytið og svo á Ölstofuna með RTSoftware mönnum, entumst til hálftvö.

16. apríl 2007

Kolviður að verða að veruleika. Kaupþing, Orkuveitan og ríkisstjórnin skrifa undir samninga og loksins komið af stað.

12. apríl 2007

Morgun upptaka fyrir þáttinn hjá Jóni Ólafs. Alltaf erfitt að komast í gír svona snemma að morgni en tókst þó merkilega vel á endanum. Tókum „New Head“ , en komið nýtt nafn, „Judge A Pope Just By The Cover“.

30. mars 2007

Stiff Little Fingers á Astoria í London. Iðunn kom út til að mæta líka, vildi ekki lesa eftir nokkur ár að þeir væru hættir eða jafnvel dauðir og hún hefði aldrei séð þá, talsvert mikið miklu betri en hljómleikaplöturnar sem við eigum fyrir. Undarlegt að það þekkir þá nánast enginn heima, nema við og nokkrir félagar, en úti voru þeir nokkuð stórir og þvílíkt úrval frábærum lögum. Tóku reyndar ekki „Gotta Getaway“, en öll hin… fullt hús, frábær stemming og hljómsveitin framar öllum vonum. Man ekki eftir nokkurri hljómsveit sem er jafn lítið þekkt heima en á jafn mikið af frábærum lögum.

27. mars 1. apríl 2007

Í London í vinnuferð með Stefáni og fleirum. Iðunn mætti síðustu dagana. Fyrir utan gagnlega vinnuferð þá er alltaf einhver sjarmi yfir London.

6. mars 2007

Stranglers á Nasa, frábært kvöld, þokkaleg mæting en hefðu mátt vera fleiri.. skil ekki, og kem aldrei til með að skilja, fullt af fólki sem virtist hafa áhuga, en sat samt heim, Fræbbblarnir oft verið betri, en fín stemming og virkilega gaman að sjá Stranglers eins og þeir eiga að vera.

3. mars 2007

Árshátíð hjá Anza, nokkuð vel heppnað, að mestu leyti hjá Bláa lóninun, Óli Palli sá um tónlistina,

9. febrúar 2007

Á Hótel Örk, með Öggu, Magga, Helga, Þóru, Sylvíu og Magnúsi.

8. febrúar 2007

48. ára… ekki til að tala um. Kiddi, kíkti í heimsókn, annars Hótel Örk á morgun.

12. janúar 2007

Kjartanskvöld heima hjá Orra, Sambindið hittist og minntist Kjartans.

6. janúar 2007

Önnur skæða pestinn á tveim mánuðum, eftir að hafa verið tiltölulega laus við flökkupestir síðan 1999.

5. janúar 2007

Guðjón Heiðar er fluttur heim eftir árs sambúð með félögum sínum.

5. janúar 2007

Uppskeruhátíð Postulanna, heima hjá Þórhalli, „hringurinn“ tekinn, öl afhent og drukkið að hætti postula.

2. janúar 2007

Fluttur til Anza frá Símanum, spennandi tímar framundan..

2006

31. desember 2006

Gamlárskvöld í fyrsta skipti í Kaldaseli, sögusagnir um frábært útsýni og fjölmenni á hæðinni áttu ekki við rök að styðjast. En Magnús og Sylvía og svo Sæunn, Friðjón, Sylvía Dagmar, Hólmbert og Marel mættu í sérstaklega vel heppnaðan mat. Og áramótapartýið svo aftur til þess að gera fámennt. En Krissi og Rúna mættu með ostrurnar.

30. desember 2006

Áramót Iðunnar í bridge haldið í 11 sinn (eða svo), Bjarni Torfi og Óskar unnu en við Iðunn náðum öðru sæti, talsverðar framfarir frá síðasta ári.

29. desember 2006

Matarklúbbur og afmæli hjá Assa og Stínu. Frábær matur en vínsmökkun kom okkur niður á jörðina, vissum einfaldlega ekki neitt. Assi taldi 16 léttvínsflöskulík eftir okkur 8. Ostrurnar urðu hins vegar eftir í tengifluginu hjá Krissa.

28. desember 2006

Jólamót Jonna í skák, vorum að hugsa um að sleppa þessu – eða fresta – vegna daprar mætingar, en reyndist fjölmennasta mótið, 13 mættu.

13. nóvember 2006

Kjartan Árnason, vinur minn frá í sjö ára bekk dó í morgun eftir 25 ára baráttu við MS sjúkdóminn, til minningar um hann.

3-6. nóvember 2006

Fór með postulunum Magga og Þórhalli til London, sáum West Ham – Arsenal og Tottenham – Chelsea sama dag. Hitti umboðsmann Stranglers og gekk frá því að þeir koma aftur, 6. mars 2007.

15.-20. september 2006

Frábær ferð til Krissa og Rúnu í Luxemborg með Assa og Stínu og Auði og Steina. Matarklúbburinn skírður GoutOnVa, eða eitthvað í þá áttina.

10-13. september 2006

IBC sýningin í Amstersdam. Mikið að sjá og gaman í Amsterdam.

26. ágúst 2006

Fertugsafmælið hjá Iðunni heima í Kaldaseli, fullt af fólki, rosalega vel heppnuð veisla, myndir hér

22. júní – 11. júlí 2006

Sumarfrí, fyrst hjá Krissa og Rúnu í Luxembourg, svo keyrðum við gegnum Frakklandi og stoppuðum 10 daga í Nice, þaðan gegnum Ítalíu og Austurríki til Berlínar, þar sem við settumst aftur upp á Krissa og Rúnu – og sáum úrslitaleik HM í Sony Center í næst-bestu sætum í borginni.

13. apríl 2006

Þá er Agga systir mín orðin sextug, mér finnst ég alltaf verði eldri systkinin eiga afmæli en þegar ég sjálfur bæti við ári.

16.-21. febrúar 2006

Fertugsafmælisferð Brynju, Kristínar og Iðunnar. Löng helgi á Lúxushótelinu Krasnapolski í hjarta Amsterdam, myndir hér

Kjartan Árnason, til minningar

Við Kjartan kynntumst í 7 ára bekk. Okkur þótti báðum óstjórnlega fyndið að bekkurinn var látinn standa upp og syngja lag í upphafi skóladags – ég gjóaði augunum aftur á næsta sæti og við sprungum úr hlátri. Traustur grunnur að ævilangri vináttu.

Við veinuðum af hlátri yfir dægurlögunum í óskalagaþáttum gufunnar, ef ekki óbreyttum, þá okkar eigin útgáfum. Við gerðum okkar eigin „útvarpsþætti“ 9 ára, rugluðum nöfnunum okkar saman og máluðum klessumálverk undir listamannanöfnunum KjarVal og Tan[n]Garður 10 ára, við stofnuðum hljómsveit 11 ára, spiluðum fótbolta í strákafélagi, að ógleymdum leynifélögum og öðrum hefðbundnum uppátækjum þessara tíma.

Eftir stutt hlé lágu leiðir okkar aftur saman í Menntaskólanum í Kópavogi. Nú var drifkrafturinn, greindin og húmorinn farinn að beinast í markvissari farveg. Kjartan var formaður nemendafélagsins, ritstjóri skólablaðins og sat í skólastjórn. Ein minning situr öðrum ofar, seint um nótt, þegar verið var að klára skólablaðið eftir margra sólarhringa vinnu, Kjartan búinn að sitja lengi að, en var samt manna líflegastur að leiðbeina öðrum og bæta sjálfur við efni á síðustu metrunum.

Eftir MK skildu leiðir um stund, Kjartan bjó erlendis, en var samt aldrei fjarri. Í heimsókn til þeirra Eddu í Osló, rétt undir dögun á mánudagsmorgni, eftir góða helgi, ákváðum við að norskur félagi hans mætti gjarnan við því að halda að hann væri að vakna með kvenmann hjá sér eftir stífa bjórdrykkju. Okkur kom saman um að Kjartan þyrfti að leika „hlutverkið“ en það flækti málið aðeins að Kjartan var þá fúlskeggjaður. Hann tímdi ekki skegginu en eftir miklar vangaveltur sættumst við á þá, að okkur fannst, frábæru málamiðlun að raka skeggið af öðru megin og snúa þeirri hlið að norðmanninum. Einhverra hluta vegna féllu viðbrögð félagans þegar við vöktum hann í skuggann af viðbrögðum Eddu þegar hún mætti Kjartani með hálft skegg um morguninn.

Það ræður enginn sínum örlögum en við ráðum hvernig við bregðumst við þeim. Kjartan var ótrúlegur að þessu leyti, hvernig hann brást við erfiðum aðstæðum með jafnaðargeði, æðruleysi og húmor. Hann neitaði að gefast upp og var alltaf tilbúinn að sjá hina hliðina á öllum málum. Nafnið á útgáfufyrirtæki hans, Örlagið, var gott dæmi um húmorinn, hann hafði þó stjórn á einu „örlagi“.

Núna er sorgin og söknuðurinn yfirþyrmandi. En þegar frá líður lifir minningin, þakklæti fyrir að kynnast Kjartani og hafa þó fengið að hafa hann þetta lengi hjá okkur.

Sjúkdómurinn hafði betur að lokum í baráttunni við líkamann, en enginn tekur frá okkur minninguna um Kjartan og enginn sjúkdómur getur sigrað þau verk sem hann sendi frá sér. Og ef við lifum áfram gegnum börnin okkar þá lifir Kjartan góðu lífi.