Flokkaskipt greinasafn: Fótbolti

Blikatap

Kíkti á Kópavogsvöll og sá Blikana tapa fyrir Fylki.. 0-1, ósanngjarnt, fúlt og ekki fótboltanum til framdráttar.

Jú, Fylkisliðið barðist vel, varnarleikurinn var vel skipulagður og þeir eru með mann sem getur skorað. En leikurinn gekk eiginlega þannig að Blikar spiluðu megnið af tímanum milli miðju og vítateigs Fylkis, en ekkert gekk þegar þangað var komið.. einhvers konar ráðleysi, of flókið og of margir háir boltar á sterka skallamenn í vörn Fylkis. Þess á milli lúðruðu Fylkismenn boltanum eitthvað, stundum í áttina að marki Blika, en alveg eins eitthvað annað, bara eitthvað. Ótrúlegt að horfa á fullorðna karlmenn spila eins og börn að mæta á sína fyrstu æfingu. Þeir fengu auðvitað nokkur dauðafæri úr spark-og-spretta tilburðunum.

En Fylkismenn komust líka upp með grófan leik, dómarinn missti þetta úr höndunum með því að grípa ekki strax í taumana og spjalda fyrstu hugsunarlausu árásina í upphafi leiks.

Blikasigur

Sáum öruggan sigur Blika á Fjölni í efstu deild karla í fótbolta..

Reyndar spilaði Fjölnisliðið ágætlega eftir að þeir lentu undir og hefðu svo sem nokkrum sinnum getað skorað. En Blikaliðið virðist nokkuð þétt, menn vita hvað þeir eiga að gera, leggja sig fram og ekki vantar hæfileikana. Ef ekki væri fyrir tvö rán þá væri liði á toppnum.. Og, kannski ekki svo fráleitt að liðið nái góðum árangri í sumar.. engir Evrópuleikir, ekki fleiri bikarleikir.

Breiðablik – Víkingur

Ég hef ekki náð neinum Blikaleik í sumar, þannig að það var kominn tími til að nýta ársmiðann.

Bauð Gavin með og við sáum Blikana vinna Víkinga 4-1, Kristinn skoraði tvö fín mörk í fyrri hálfleik. En um tíma, þegar staðan var 2-1, leist mér ekkert á. En fráært mark hjá Höskuldi gerði eiginlega út um leikinn.

Fullt af færum á báða bóga, fín markvarsla og leikurinn hefði getað endað 7-3.

Samt átti ég von á betri spilamennsku frá Blikum, það sem ég hef þó séð, í sjónvarpi, hefur verið talsvert betra. En kannski er ákveðinn gæðastimipill að vinna slöku leikina af öryggi.

Fyrsti fótboltatími vetrarins

Þá er kominn vetur, fótboltinn byrjaður í Álftamýri.. við Postular erum núna 14, enda farnir að eldast og forföllin sífellt meiri.

En ansi var maður nú stirður í fyrsta tíma, mörg klaufamörk sem duttu inn og færi sem ekki nýttust, fyrstu fjórir leikirnir töpuðust illa en svo unnum við þrjá af síðustu fjórum – og jafntefli í þeim fjórða – og björguðum aðeins andlitinu með nokkrum góðum mörkum.

En gaman að hitta hópinn og alltaf einhver skemmtilegustu kvöld vetrarins, bjórinn og umræðurnar á eftir ekki síður hluti af stemmingunni.

Manchester, Leeds og Liverpool

Vöknuðum eftir örfárra tíma svefn í vel þeginn og glæsilegan morgunmat á Premier Inn. Miðarnir okkar fundust ekki fyrr en í annarri tilraun. Og leigubílstjórinn neitaði að standa við fast tilboð um verð á ferðinni til Leeds. En annar leigubíll sveif að og bauðst til að taka við á umsömdu verði. Við skröltum í demparalausum leigubílnum til Leeds og vorum komnir tímanlega fyrir leik. Það tók reyndar ansi langan tíma að panta fyrsta bjór, en það tók aftur engan tíma að koma honum niður.

Elland Road
Elland Road

Stemmingin á leiknum var skemmtileg og leikurinn opinn og bauð upp á fullt af færum. Þarna var ég að sjá mitt lið í enska boltanum, Derby County, spila í fyrsta skipti. Leiknum lauk svo með 1-1 jafntefli, enda skipti leikurinn engu máli fyrir liðin. Gripum fisk á fish’n’chips stað á móti vellinum, mjög góður en eitthvað var ég uppþembdur eftir þetta fram eftir degi. Næsti leigubíll flutti okkur til Liverpool.. við náðum (flestir) að dotta aðeins á leiðinni og vorum komnir tímanlega fyrir leik. Liverpool - lítil Ákváðum að rölta síðasta spölinn og grípa einn (eða tvo) bjóra á leiðinni. En vorum mættir vel fyrir leik, þar sem Þórhallur beið okkar, enda hafði hann mætt beint til Liverpool. Goodison Park - lítil   Leikur Everton og Manchester City var stórskemmtilegur og fyrsta markið frábært. Við misstum af einu marki vegna þess að við ákváðum að mæta tímanlega í að skipta um bjór á okkur.. reyndar er bjórdrykkja á þessum völlum tilgangslaus, þetta er bragðlaust „piss“. Eftir leikinn var svo hugmyndin að fá einn bjór á meðan mesta traffíkin væri frá vellinum. Anfield - lítil Við röltum yfir á Anfield sem er tiltölulega rétt hjá, en eini sýnilegi barinn var lokaður öðrum en innvígðum. Við fundum svo okkar leigubíl sem keyrði okkur í loftköstum til Manchester, náðum að leggja okkur örstutt og síðan komið að mat.. Kvöldmaturinn var á Dmitri’s og ég var held ég heppnastur með rétti, enda komið þarna oft.. húmmus, lamb í spínati og spænskar pylsur soðnar í rauðvíni voru frábær, eggaldin með osti og grísk svínapylsa fín, en ekki í sama klassa. Við höfðum gert ráð fyrir að við þyrftum ekki að sofa fyrir flug. Ég man ekki eftir verri IPA bjór en þeim sem ég fékk á bar ekki langt frá, fótum á írska barinn Mulligan’s, þar sem var þröngt setið og dansað við ágætlega spilaða (en ekkert sérstaklega spennandi) lifandi tónlist. Þarna var ég eiginlega orðinn of þreyttur til að standa í stórræðum en við fórum samt á Casino við hliðina á hótelinu og spiluðum í rúman klukkutíma, bætti aðeins við sjóðinn en gafst upp um tvöleytið. Alli og Maggi entust fram að flugi..

Seinni landsleikurinn…

Fór heim hálf slappur og missti af karate.. Brynja & Gauti og Unnur & Arnar & Unnsteinn komu svo að horfa á landsleikinn með okkur. Og mættu öll með hlaðið veisluborð. Leikurinn auðvitað vonbrigði, nema kannski rétt vonarglætan í lok fyrri hálfleiks. En liðið var ekki sjálfu sér líkt og ég get ekki varist að velta fyrir mér hvernig hefði farið ef þeir hefðu náð eðlilegum leik.

Ég hef aðeins verið að grínast með að nærvera forsetans hafi haft slæm áhrif, menn hafi verið dofnir eftir að hlusta á vaðalinn í honum.. og jafnvel hvarflaði sú skýring að mér að hann hafi lofað (hótað) að mæta til Brasilíu ef liðið færi áfram… En svona gamni fylgir auðvitað sú alvara að allt brot á venjum fyrir leik getur haft sín áhrif, hversu vel meint sem það er. Það má ekki mikið út af bregða þegar komið er á þetta stig, spennustigið þarf að vera nákvæmlega rétt. En Ólafur sleppir auðvitað ekki svona tækifæri til að komast í fjölmiðla og klappa sjálfum sér á bakið. Er ekki rétt munað hjá mér að þetta sé í annað eða þriðja skipti sem hann bankar upp á hjá landsliði fyrir mikilvæga leiki? Og að þeir leikir hafi tapast illa og liðin spilað langt undir getu?