Flokkaskipt greinasafn: Ferðir

IBC á mánudegi

Dagurinn fór í IBC, aðallega að skoða kerfi fyrir íþróttagrafík.. og reyndar kíkja við hjá gömlum kunningjum og samstarfsaðilum. Við Jón gripum smá sushi seinni partinn en fórum svo að hitta Iðunni og Jóhönnu á Rembrandtplein.

Amsterdam - IBC helgi - 7

Um kvöldið fórum við á nokkuð sérstakan stað, Senses, að mörgu leyti fínn staður, en þunglamaleg þjónusta og ruglingur á pöntunum voru ekki að hjálpa.. maturinn þokkalegur, en ekki mikið meira, þannig að fínn staður, en kannski ekki alveg að standa undir væntingum eða samanburði við bestu staðina sem við höfðum dottið inn á.

En ég svef lítið um nóttina, vaknaði við að vera bitinn af einhverjum pöddum, sennileg moskító.. í annað skiptið í ferðinni á hóteli í Amsterdam. Ofnæmisviðbrögðin auðvitað þau sömu og var nokkra daga að hverfa, með tilheyrandi Histasin áti og Hydrocortison.

 

Aftur til Amsterdam

Þá var komið að IBC í Amsterdam, tékkuðum út af Best Western í Gouda, tékkuðum inn á  A Train Hotel, rétt hjá aðal lestarstöðinni í Amsterdam. Skemmtilega innrétt hótel sem er allt skreytt eins og lest.. en frekar lítið og allt of dýrt.

Kíkti aðeins á IBC, hitti Jón, en vorum ekki lengi.

Jón hafði bókað mat á Guts & Glory um kvöldið og sá stóð undir væntingum, fengum tilbúinn sex rétta matseðil þar sem hver réttur var bæði skemmtilega samsettur og spennandi. Þeir voru eingöngu með fiskrétti og höfðu verið með síðustu þrjá mánuði. Á miðvikudag tekur svo við þriggja mánaða törn, eingöngu með kjötréttum.

Gripum bjór á EuroPub eftir matinn, hittum Jens, frænda Barða.. og Árna Finns..

Cottbus

Í einhverjum vitleysisgangi hafði ég pantað hótel, Radisson Blu, í Cottbus, fann tilboð og hafði heyrt vel af þessu látið. Það tók ekki langan tíma að keyra frá Berlín og við fórum niður í nokkuð skemmtilegan lítinn miðbæ þar sem við fengum frábæra smárétti með ágætis úrvali af bjór. Eitthvað riðluðust upphaflegar áætlanir þannig að við fórum í sauna á hótelinu og fengum okkur að borða á veitingastað hótelsins. Fínn matur, flott þjónusta og maturinn hefði verið enn betri ef kokkurinn hefði verið örlítið sparsamari á saltið.

Cottbus - 5 Cottbus - 10

Sátum svo að sumbli fram eftir kvöldi á hótelbarnum, enda mátti reyka inni..

Berlín, fimmtudagur

Við byrjuðum daginn (eftir morgunmat) á hjólaferð um Berlín, sem Anna hafði stillt upp.. Katrín? íslensk kona sem býr í Berlín sér um svona ferðir með félögum sínum.

Við leigðum hjól og það var í rauninni í fyrsta skipti síðan ég var ellefu / tólf ára sem ég hef hjólað. Eitthvað óöruggur á jafnvæginu á köflum en þetta gekk stórslysalaust.

Berlín - hjólaferð - 16

Skemmtileg leið og gaman að heyra nýjar sögur, rifja upp gamlar og sjá borgina frá öðru sjónarhorni. Við enduðum svo í bjórgarði þar sem við (Iðunn amk.) fengum okkur snitsel og bjór áður en hjólað var til baka. Allt í allt voru þetta 22 kílómetrar sem við hjóluðum, seinni hlutinn nánast í striklotu og satt best að segja var ég aðeins orðinn aumur síðasta spölinn.

Eftir að við skiluðum hjólunum fórum við upp á hótel bar þar sem við gripuum eiginlega í tómt. Og eitthvað varð lítið úr því að fara út að borða saman. Við Iðunn fórum svo á indverska staðinn Chelany sem TripAdvisor stakk upp á, fínn, en ekkert meira.

Berlín - Ísland Tyrkland - 3

Svo var komið ferðalagi í upphitunarbjór á Holiday Inn, sem er við hliðina á leikhöllinni, reyndar tvisvar því Iðunn hafði gleymt bakpokanum á indverska staðnum.

En þetta var alvöru leikur við Tyrki, íslenska liðið jafnaði í blálokin en Tyrkirnir voru stekari í framlengingunni. Aftur vorum við einmana fyrir leikhlé en stálumst til íslenska hópsins eftir hlé.. fín stemming og gaman að vera þarna.

Eftir leik var einn (eða tveir) drykkur á hótel barnum og svo var fínt að láta gott heita.

Berlín, leikur við Serba

Leikur körfuboltalandsliðsins við Serba var frekar snemma að deginum, hálf þrjú þannig að við fórum upp að höllinni strax eftir síðbúinn morgunverð. Við vorum búin að finna mjög fínan kaffistað beint á móti hótelinu, Café Backerei Suisse, fínt, ódýr og fljótleg þjónusta. Geitungarnir héldur reyndar að við værum að bjóða til veislu, held að ég hafi aldrei séð svona marga geitunga samankomna.. sumir að gæða sér á sykrinum í karinu.

Í öllu falli þá mættum við tímanlega á leikinn, þurftum að senda afgreiðslufólkinu miðana í tölvupóst, sem þau prentuðu út og þannig að við kæmumst inn. Iðunn reyndar með sérstöku leyfisbréfi vegna þess að þau gátu bara prentað eina síða af tveimur.

Berlín - Ísland Serbía - 2

Íslenska liðið átti svo sem aldrei alvöru möguleika, enda andstæðingarnir firna sterkir. Við vorum pínulítið einmana í fyrstu tveimur leikhlutunum, sátum ein langt til hliðar. En við stálumst yfir til hinna Íslendinganna eftir hlé.. og miklu betri stemming þar. Einhvern veginn fannst mér samt að örlítið betri hittni í þriggja stiga skotum hefði skilað talsvert betri árangri.

Eftir leik leituðum við, með Önnu & Palla og Sonju & Tryggvar að einföldum hádegismat við Alexander Platz, fundum loks stað sem var með þokkalegum mat, en vorum ansi seint á ferð. Um kvöldið nenntum við ekki að fara langt að borða, enda hádegismaturinn um fimm leytið þannig að við leituðum að stöðum í nágrenninu og fundum spænskan / baskneska stað, Txokoa þar sem við fengum tvo rétti sem voru eitthvað stærri en tapas og eitthvað minni en venjulegir réttir. Mjög flottur staður og góður matur. Fundum svo bar rétt hjá sem leyfði reykingar innandyra.

Berlín, fyrsti dagur

Það var svo sem ekki mikil dagskrá undirbúin í Berlín.. morgunmatur á Café Backerei Suss, mjög skemmtilegur kaffistaður / bakarí, mikið úrval og frábær þjónusta.

En við tékkuðum á Palla og hann sagði að flestir væru að fara í dýragarðinn en Anna væri að fara að versla.

Við ákváðum að kíkja aðeins í Karstadt verslunarmiðstöðina hjá hótelinu (þar sem við geymdum bílinn) og taka svo lestina í átt að Potsdam torgi. Þar ráfuðum við í búðir, KaDeWa og fleiri milli kaffi, bjóra og svo fórum við í síðbúinn hádegismat. Ákváðum að fara á Vapiano, sem er svona einhvers konar millistig af veitingahúsi og skyndibitastað, svo sem allt í lagi.

Svo komu boð frá Palla að þau ætluðu að hitta Hauk á hótelinu og við mættum þangað. Það stemmdi, við gripum einn drykk og fylgdum svo hópnum á stað (sem ég held að Haukur hafi valið), einmitt Vapiano… aftur, allt í lagi, en ekkert spennandi.

Svo upp á hótelbarinn í einn drykk, Iðunn komin á bragðið með Yellow Swan í takt við Önnur & Palla.. Vorum samt ekki lengi og fórum snemma að sofa.

Amsterdam – Berlín

Alli hafði farið út á flugvöll kvöldið áður, Gústi og Matti voru að fara í flug og við vorum búin að kveðja Dísu & Magga og Þórhall, sem tók reyndar flug til Berlínar.

En við tókum rútu upp á Schiphol og sóttum alveg ágætan bílaleigubíl, Renault 308.

Aksturinn tók heldur lengri tíma en við höfðum gert ráð fyrir, vorum aðeins að velta fyrir okkur að ná að sjá Ísland – Kasakstan, þó ekki væri nema í símanum.. en fyrsti hluti ferðarinnar, frá Amsterdam og sá síðasti tók tíma. Það tók meira að segja óratíma að finna bílastæði þegar við vorum komin á áfangastað í Berlín. En við lögðum að lokum í bílastæðahúsi rétt hjá hótelinu.

Hótelið, Days Inn, var svo sem fínt, en WiFi lélegt og takmarkað við eitt tæki á mann. Og það var ekki nóg að sýna þeim tölvupóst og staðfestingu á bókun, þeir þurftu nauðsynlega að fá pappír. Þannig að ég sendi þeim bókunina í tölvupósti, þeir prentuðu út og voru alsælir.

En það voru allir veitingastaðir lokaðir nema um það bil átján kebab skyndibitastaðir (og jú reyndar, einn McDonalds, en við teljum það valla með).

Ég var svo sem mjög sáttur, en Iðunn minna spennt með Falafel. Fórum samt snemma að sofa, einn bjór á hótelinu.

Svo var öllu verra að við vorum heldur betur útbitin af einhverjum pöddum, kláði, histasin og hydrocortison í nokkra daga.