IBC

Fór enn eitt árið á IBC, eins og áður, þetta verður nú sennilega í síðasta skipti.. en hvað veit ég… ég hef nokkrum sinnum haldið áður að ég sé að fara á mína síðustu sýningu.

Föstudagur

Alexandra skutlaði mér á flugvöllinn, ég spurði fljótlega hvort hún héldi að ríkisstjórnin myndi lifa miklu lengur, „ha, vissir þú ekki að hún er fallin?“ Nei, nei, við fórum að sofu um hálf-tvö og ég þurfti að vakna klukkan þrjú, en við höfðum hætt að fylgjast með. Við fylgdumst með fréttum á leiðinni og ég man ekki eftir ferð til Keflavíkur sem hefur liðið eins hratt.

Ég hitti nokkra RÚVara á flugvellinum í Keflavík sem sögðu mér þær harmafréttir að Örn Sigurðsson, sem var einn þeirra helsti hugbúnaðarmaður, væri látinn. Eitthvað voru kosningakerfi nefnd til sögunnar en fórum svo sem ekki langt.

Flugið var svo sem óþægilegt eins og alltaf og ekki bætti að ég var, til þess að gera, lítið sofinn. En komst upp á hótel eftir að hafa þurft að labba í rúmlega korter til að hitta á „snelltaxa“ sem ég hafði bókað. Fínasta hótel og ágæt staðsetning. Ég kíkti á IBC eftir stuttan hádegismat og á dagskrá dagsins var helst að skoða hvað væri nýtt og spennandi. Og ég get eiginlega ekki sagt að það hafi verið mikið, amk. ekki fyrir mig – stærri diskar, meiri þjöppun, meiri upplausn, sýndarveruleiki og „róbótar“… sumt spennandi og sum þrívíddar sjónvörpin ótrúleg. En ekkert fyrir mig, þeas. ekkert sem gæti nýst mér í vinnu.

Ég heilsaði aðeins upp á RtSoftware en fór svo upp á hótel að ná smá blundi fyrir kvöldið.  Fór á Vasso í kvöldmat og eins og stundum áður, varð ég fyrir talsverðum vonbrigðum, kálfakjötið þurrsteikt og dressingin að drekkja Carpaccio-inu. Eins og maturinn getur verið góður hjá þeim. Þaðan lá leiðin á „skrifstofuna“ (EuroPub) þar sem ég hitti talsvert af gömlum félögum, aðallega frá RÚV og Stöð2.

Laugardagur

Laugardagurinn fór í mikið labb á IBC, einn fund með RtSoftware og Stöð2… svo heimsókn til um tuttugu fyrirtækja, en fæst höfðu nokkuð fram að færa sem hentaði.

Fór svo á flakk og fékk þessa frábæru nautasteki á Toro Dorado áður en ég fór í nudd, upp á hótel að skipta um föt, inn á Casino að tapa 50 evrum og svo á barinn sem RtSoftware héldu til á.

Náði svo nokkrum af Íslendingunum undir svefninn á „staðnum hans Varða“.

Sunnudagur

Eiginlega bara heimferðardagur, smá búðarráp, fótboltagláp og frábær matur á Savini.

Samt hálf slappur og feginn að komast heim.. flugið heim talsvert miklu betra en flugið út – það er óneitanlega talsvert annað að fljúga með IcelandAir en Wow.