Teppakaup 

Það hefur verið á dagskrá hjá okkur að bæta við teppum – og þess vegna kjörið að skoða í Marokkó.

Við kíktum á Souk El Had markaðinn og eftir að hafa ráfað um óteljandi teppasölubása – sem voru samt bara brot af markaðnum – þá sáum við einn sem virtist vera með eigulegri teppi en aðrir.

Sá hafði ekki bara komið til Íslands heldur var hann með mynd af sér á Skólavörðustígnum uppi við og búinn klippa sig inn á mynd af fótbolta landsliðinu, svona gamaldags „fótósjoppun“.

En við vorum hrifin af einu teppinu og eftir að Iðunn hafði stutt hann dyggilega í prúttinu samþykktum við að borga 2.800 Dimara, sennilega of mikið, en teppið var fallegt og Iðunni langaði mikið í það. Hún skuldar honum reyndar enn að mæta í te..

Það var ekki hægt að vera að prútta mikið.

Lestarferð og fuglagarður

Við ákváðum að taka nokkurs konar leikfangalestarferð um bæinn, sem var svo sem allt í lagi, en við ákváðum að rölta aðeins um eftir ferðina og duttum inn í einhvers konar fuglagarð – sem var nokkuð skemmtilegur. Þegar þaðan kom duttum við inn í hræ ódýra verslun, UniPrix og gleymdum okkur aðeins. Smá Petanque seinni partinn og talsvert letilíf.

Við Iðunn röltum niður göngugötuna í áttina að ströndinni og kíktum í búðir og keyptum eitthvert smáræði. Einn búðareigandinn bauð 1.000 kameldýr fyrir Iðunn, sem ég hafnaði auðvitað, en komst að því seinna um kvöldið að þetta voru um 242 milljónir króna… ég bara fann hann ekki aftur.

Fuglagarður - 2 - Album

Petanque

Það kom okkur á óvart að finna Petanque völl lá Kenzi Europa hótelinu.. við byrjuðum að spila og kenna Önnu-Lind, Skúla og fjölskyldu.

En Asis mætti klukkan þrjú, þá var einmitt skipulagður Petanque tími. Hann hafði greinilega spilað mikið og var stöðugt að kenna okkur. En það var mjög sérstakt að spila á grjóthörðum vellinum, svona þegar við erum vön að spila á Einifelli.

Kenzi - petanque - 1 - Album

Agadir, Kenzi Europa, hammam og nudd

Kenzi Europa er eiginlega frábært hótel, allur matur innifalinn, allir drykkir innifaldir.. eins og við gátum í okkur látið.

Kenzi - garður - 4

Mikið úrval af mat á morgnana, reyndar ekki „bacon“, en verulega fjölbreytt hlaðborð og hægt að fá eggjabökur, pönnukökur og ferskan ávaxtasafa. Svo var talsvert löng bið í appelsínusafann á hverjum morgni, enda bara einn starfsmaður að pressa safann úr 2-8 appelsínum í hvert glas. Kannski við gefum þeim afkastameiri pressu næst þegar við komum.

Í hádeginu var líka mjög mikið úrval af alls kyns réttum og oftast eitthvað grillað á útigrillinu.

Við Iðunn slepptum síðdegiskaffinu flesta dagana, ég fékk mér pönnukökur með súkkulaði og sýrópi einn daginn – en Iðunn lét þetta alveg vera.

Kvöldmaturinn var fínn, svona eins og við mátti búast í svona hlaðborði, mikið úrval af salötum og alls kyns réttum.

Og já, við vissum að bjór, hvítvín og rauðvín væri marokkókst og bjuggumst svo sem ekki við miklu. En bjórinn var fínn, svolítið hlutlaust, Kenzi kokteillinn ágætur – og við höfum yfirleitt fengið mun verri húsvín með matnum á veitingastöðum.

Það eina sem var neikvætt við matinn var fyrir Önnu, Skúla og fjölskyldur.. þó það væri mikið úrval af alls kyns grænmeti og salötum þá vantaði í raun alla grænmetisrétti. Síðustu dagana, eftir að þau höfðu bent nokkrum sinnum á þetta, voru þau farin að fá betri rétt, einu sinni sérstaklega eldað Lasagna, það átti reyndar ekki mikið skylt við Lasanga, en samt, virðingarverð tilraun. En þau voru hins vegar dugleg í eftirréttunum og síðdegiskaffinu, eftir að við uppgötvuðum það.

Svo ég haldi nú áfram að hrósa hótelinu þá var fyrirtaksaðstað, sundlaug, sólbekkir, rennibrautir, tennisvöllur, fótboltavöllur, borðtennisborð – og Petanque völlur. Það var fullt af starfsfólki að sinna hvers kyns afþreyingu og voru óþreytandi að sinna börnunum.

Kvöld dagskráin var svo sér kapítuli út af fyrir sig.. mikil dagskrá á hverju kvöld og börnin fengu alltaf sinn skammt. Glói var vel liðtækur í dansinum en Jóna hélt sig oftast til hlés. En þarna voru töframenn, tónlistarmenn, fimleikakappar, karaókí og ég veit ekki hvað. Ef eitthvað var hefði verið vel þegið að hafa eitthvert afdrep þegar diskótónlistin stóð sem hæst. Að ég tali nú ekki um fugladansinn, en tónlistin glumdi eiginlega um öll sameiginleg svæði.

Í öllu falli, fyrsta daginn höfðum bókað hammam og nudd fyrsta daginn fyrir okkur eldri kynslóðina á meðan Bergur passaði Glóa og Jónu – heldur betur vel þegið eftir þvæling gærdagsins.

Við Iðunn kíktum svo með Skúla að sjá Everton vinna Leicester á „English Pub“ rétt hjá hótelinu.

Við tókum því svo rólega um kvöldið.

Út til Agadir

Það var smá seinkun á fluginu til Manchester, náðum einum bjór og hittum Ými og Hrefnu á bjórbarnum í Keflavík. Við áttum svo nokkra klukkutíma og fórum á bar nálægt flugvellinum í Manchester. Annar leigubílstjóri ákvað reyndar að senda okkur á „Romper“ í stað „39 Steps“, en fengum fínan hamborgara og ítalskan disk.

Manchester - Romper - 3 - Album
Fluginu til Casablanca seinkaði svo um hálftíma og við höfðum smá áhyggjur vegna þess að það var mjög stuttur tími frá lendingu í Casablanca þar til vélin til Agadir ætti að fara í loftið. Við vorum fullvissuð um að þeir í Casablanca vissu af seinkuninni og að vélin myndi bíða – við vorum búin að tékka okkur inn alla leið. Flugið gekk svo sem vel, smá fortíðar upplifun að fá (ókeypis) matarbakka að hætti Flugleiða í gamla daga, mjög vel þegið.

Þegar við komum Casablanca tók við vopnaleit – þó svo að við værum að koma úr millilandaflugi og ekkert hægt að fara annað en í vélar í innanlandsflugi. Það var bókstaflega múgur og margmenni og mjakaðist hægt, en mjakaðist samt. Við sáum svo loks vopnaleitina og þá kom í ljós að það var eitt hlið og aðeins einum hleypt í gegn í einu. Svo stoppaði allt. Eftir drykklanga stund kom einhver viðgerðarmaður og náði að koma hliðinu aftur í gang. Nokkrir farþegar voru sendir til baka, að mér sýndist á þeim forsendum að vélin þeirra væri farin. Svo kom einhver frá einhverri ferðaskrifstofunni og sagði verðinum að vélin biði. Við komumst loksins í gegn, hlupum út í rútu og beint upp í vél. Flugstjórinn var að afsaka við aðra farþega að brottför seinkaði vegna þess að það hefði þurft að bíða eftir farþegum, svona rétt eftir að við komum inn, án þess að tiltaka nokkuð að það hefði verið vegna tafa í vopnaleit. En það kom annar hópur á eftir okkur. Svo leið hálftími og enn kom hópur, líkast til þeir sem höfðu verið sendir til baka.

En við komumst til Agadir og vegabréfaskoðunin virtist ekki ætla að taka mikinn tíma. Og svo vorum við svo heppin að það opnaði nýtt hlið þegar við vorum hálfnuð og við stukkum á það. Því miður. Sá sem settist þar við afgreiðslu var bæði afar vandvirkur og skrafhreyfinn – og einn farþegi fékk alveg sérstaklega langa „meðferð“ hjá honum. Á meðan afgreidd unga konan í fyrri röðinni okkar 7-8 farþega á móti hverjum einum.

En það passaði, loksins þegar við komumst í gegn sá ég Önnu-Lind og Skúla – og auðvitað Berg, Pétur Glóa og Jónu. Þau höfðu átt að vera löngu lent, en þurftu að bíða marga klukkutíma á Gatwick vegna bilunar hjá EasyJet, án þess að fá nokkrar nothæfar skýringar.. og hvorki vott né þurrt á meðan þau biðu.

Við Iðunn tókum leigubíl og vorum komin inn á Kenzi Europa Hotel um eitt leytið.

Afmæli hjá Berglindi og Gumma

Berglind og Gummi buðu í tvöfalt fimmtugsafmæli, glæsileg veisla, eins og svo sem við mátti búast, frábærar veitingar og fín atriði.. en aðallega fullt af skemmtilegu fólki.

Sálfræðingarnir hittust í Kaldaseli til að undirbúa atriði, sem tókst eiginlega bara nokkuð vel.. Iðunn og Sassa spiluðu undir söng á ukulele.

Og svo var smá eftirpartý hér í Kaldaseli þar sem Whisky smökkun var á dagskrá, en það slökknaði á mér rétt eftir að við duttum inn.