Afmæli

Skúli átti afmæli og Anna-Lind bauð honum og Bergi í einhvers konar fjórhjóla- og „buggy“ ferð í nærliggjandi sveit, að okkur skildist var þetta mjög vel heppnað.. Við buðum svo upp á freyðivín fyrir matinn og svo héldum við öll út að borða. Það var reyndar ekki hlaupið að því að finna veitingastað sem bauð upp á grænmetisrétti, en við fundum „O Playa“ sem var með borð fyrir 7 með litlum fyrirvara, „vegetarian friendly“, sá sem svaraði talaði ensku, staðurinn var ekki langt í burtu og fékk fína einkunn á TripAdvisor, nr. 4 í Agadir.

Við pöntuðum öll pizzur nema Iðunn, sem fékk þennan frábæra smokkfisk, ekki djúpsteiktan en svakalega vel heppnaðan. Ég sá strax eftir pizzu pöntuninni, enda ekkert sérstök og aðrir réttir mjög girnilegir. Reyndar þurftum við að bíða talsvert eftir eftirréttunum og börnin voru farin að ókyrrast, en þeir höfðu gleymt að láta vita að það þurfti að útbúa vatnsdeigsbollurnar með ís (sem Iðunn pantaði) og aðra rétti sérstaklega – það var ekkert verið að bera fram tilbúna frosna rétti. En alvöru veitingastaður og við Iðunn settum á bak við eyrað að kíkja aftur.