Einifell

Kíktum á Einifell um helgina í jólalaxareykingu. Þetta er orðin hálfgerð hefð hjá okkur fyrir jólin. Óvenju hlýtt og þægilegt að standa í þessu núna.. reykingar gengu vel, laxinn óvenju fallegur og afraksturinn ansi girnilegur.

Svo var eitthvað eldað af góðum mat, alls kyns aðkeyptu snarli gerð góð skil, jólabjór smakkaður og eðalvín opnuð. Steini eldaði önd á laugardagskvöldinu og Silverado rauðvínið frá Hafliða var frábært.

Iðunn náði reyndar að sulla fyrsta flokks víni yfir gestgjafana. Og kannski hefðum við mátt fara varlegar í Gin og Whisky þegar leið á laugardagskvöldið, þeas. fyrir utan Steina sem hafði rænu á að kasta inn „drykkju-handklæðinu“ tiltölulega snemma.

Karate gráðun

Þá var komið að gráðun fyrir fjólubláa beltið í karate.

Það hafðist, en rosalegur munur er á gráðuninni núna og fyrri árin, þá var kannski hátt í tveggja tíma bið eftir að komast að.. núna vorum við fjórir og þetta tók ekki nema um hálftíma.

Þetta hafðist.. en mig grunar að næsti áfangi verði talsvert þyngri.

Sambindisjólamatur

Sambindið kíktí í jólamorgunmat („julefrokost“) til okkar í Kaldaselið. Kengúra og dádýr og paté og gæsabringa og ostar og tvíreykt lamb og alvöru eftirréttur í boði Diljá. Að ógleymdum réttunum sem Haddi & Ellen mættu með.

Höskuldur & Sirrý náðu okkur ekki í þetta sinn og Edda var að koma frá Berlín og náði heldur ekki.

En Orri & Júlía mættu seinni partinn, Tommi fljótlega og Helga, Haddi & Ellen og Hákon & Diljá mættu svo þegar nær dró mat..

Tommi stýrði spurningaleik að venju og sveik ekki frekar en fyrri daginn, en entumst ekki lengi, aftur gildir frasinn „ekki frekar en fyrri daginn“. En mjög vel heppnað kvöld.

Fullveldispönk

Gunnar Lárus Hjálmarsson (Dr. Gunni) skipulagði svokallaða Fullveldispönk hjómleika á Hard Rock í nafni pönksafnsins.

Upphaflega áttum við Fræbbblar, Taugadeildin, Q4U og Jonee Jonee að spila. Árni Daníel veiktist og bæði Taugadeild og Q4U duttu sjálfkrafa út [þrátt fyrir loforð Gunna að hlaupa í bassaskarð Taugadeildar] – en Suð komu inn í staðinn og Tappi Tíkarrass.

Þannig að tvær hljómsveitir (JJ og TT) voru að spila í fyrsta sinn (að mestu) í hátt í þrjátíu og fimm ár! Og Suð nýlega komnir í gang aftur – og með flotta plötu.

Hard Rock er með frábæran hljómleikastað, mjög skemmtilegt umhverfi.

Fullt af fólki mætti og við Fræbbblar fórum fyrstir á svið – enda vorum við fyrstir! Í þetta sinn langaði okkur einfaldlega að slaka á eftir spilamennskuna og sjá aðra, enda ekki á hverjum degi sem svona hljómsveitir taka upp þráðinn [það er ekki við hjómleikahaldara að „sakast“ að við byrjuðum, einhverjir voru að benda á að þetta hafi kannski ekki verið besta röðin, en þetta var sem sagt okkar ósk].

En… okkur gekk vel, spilamennskan var fín, við skemmtum okkur mjög vel og móttökurnar og viðbrögðin eftir á bentu til að gestum hafi ekkert leiðst sérstaklega á meðan við spiluðum.

Suð eru alltaf mjög skemmtileg hljómsveit, liðu kannski í þetta sinn fyrir að flestir hljómleikagestir voru mættir í svona um það bil 1981 stemmingu.. en topp hljómsveit.

Tappinn var flottur, Gummi og Jakob með því besta sem ég hef heyrt hjá trommu- og bassaleikara – ekki svo að skilja að aðrir meðlimir hafi verið slakir! Gaman að sjá hvað Viktor kveikti vel á að heyra í þeim í fyrsta skipti.

Og Jonee Jonee eru einstakir, trommur + bassi + söngur, man alltaf þegar ég sá þá í MS í fyrsta skipti. Og þeir voru heldur ekkert sérstaklega leiðinlegir í kvöld..

Sem sagt, alveg sérstaklega vel heppnað kvöld, Gunni á skilið sex stjörnur af fimm fyrir skipulag og kynningu – og Stefán / Hard Rock heldur betur fyrir aðrar sex stjörnur fyrir flottan hljómleikastað – og já, ekki gleyma Silla sem sá um hljóðið, það munar alltaf svo miklu að hafa topp hljóð.