Árshátíð

Við misstum af árshátíð Staka, sem var með Símanum í vor, en nú er Staki hluti af Deloitte og árshátíð Deloitte í Hörpunni í kvöld.

Þorleifur & Kristrún buðu í forhitting yfir fótbolta, bjór, brauði og víni – nokkuð vel heppnað þó leikurinn hefði mátt fara betur.

En Árshátíðin var sem sagt í Silfurbergi í Hörpu, frábær matur, fín stemming, fullt af skemmtilegu fólki, en skemmtiatriðin fóru eitthvað fram hjá mér.

arshatid

Karate hittingur

Megnið af „eldra fólkinu“ úr karatedeild Breiðabliks kíkti til okkar í bjór og smá vegis Whisky í kvöld.. Einar & Guðrún voru í bænum og kíktu. Eiginlega bara nokkuð vel heppnað kvöld og náðum loforðum frá einhverjum að fara að mæta aftur.karate-hittingur-1

Lokadagur Airwaves

Aftur varð eitthvað minna úr flakki en bestu áform höfðu gert ráð fyrir. Þurfti auðvitað að byrja að horfa á Arsenal-Tottenham.. og svo komst ég bara ekki af stað, langaði að sjá Heiðu og Svavar Knút og fleiri.

Komst svo loksins af stað og mætti í Iðnó þar sem norska hljómsveitin Make Dreams Concrete náði engan veginn að heilla mig. Finnska hljómsveitin Pertti Kurikan Nimipäivät var hins vegar ansi sérstök, sennilega eina hljómsveitin sem ég hef hlustað á sem spilar styttri lög en við Fræbbblar. Örstutt, einföld, keimlík lög og kannski frekar ómerkileg í sjálfu sér, en það er samt eitthvað heillandi við þá.

Næst yfir á BarAnanas þar sem ég náði í endann á Lefty Hooks & The Right Thingz, með „Gnúsa“ innanborðs og svo Amabadama, mjög skemmtileg – og nýja efnið virkar mjög vel… ekki leiðinlegt að heyra að gamli skólabróðirinn Jón Stefánsson, á einn textann.

Jæja, svo kíkti ég með Jonna og Skúla á PJ Harvey í Valshöllinni. Mjög flottir hljómleikar og sé ekki eftir að hafa farið. Sáum reyndar Mammút á undan og þau voru talsvert miklu betri en þegar ég sá þau síðast (reyrndar fyrir einhverjum árum), ekki kannski alveg mín deild en þeim á örugglega eftir að ganga vel.

En, að PJ Harvey, mjög flottir hljómleikar, duttu kannski aðeins niður um tíma, en virkilega góðir hljómleikar, ég segi ekki á topp tíu, enda fáránlegt að raða hljómleikum upp í ímyndaða gæðaröð.. amk vel yfir meðallagi. Hljómsveitin reyndar fjölmennari en ég átti von á, tíu manns, tveir trommarar, þrír að spila á hljómborð, fjórir á gítar, einn á bassa, nokkrir á saxófón…

airwaves-sunnudagur-4

Ég hef reyndar verið að hljómleikum þar sem flytjandi spjallar meira við áhorfendur, en kannski hafði hún ekkert að segja.

Laugardagurinn

Vöknuðum frekar seint og ætluðum aldrei að komast af stað. Fyrirfram hafði ég gert ráð fyrir að nota helst laugardaginn í að þvælast um, byrja snemma og reyna að ná sem flestum. En svo var skemmtilegt matarboð þar sem gellur voru í aðalhlutverki og við enduðum á Pedersen, fyrir ofan Gamla bíó. Mig langaði að sjá Kate Tempest aftur en var of seinn og fór aftur upp á Pedersen… Iðunn, Viktor & Dóra náðu hins vegar og voru mjög ánægð. Ég hélt áfram að sötra á Pedersen og tala við skemmtilegt fólk þar til tími var kominn til að fara að sjá Q4U á Dillon. En ég var „trompaður“ til að mæta í Hörpuna að sjá FM Belfast, „þú ert búinn að sjá Q4U nógu oft…“.

Þetta er örugglega ellin, en ég næ ekki FM Belfast.. unga fólkið í hópnum var ofsalega ánægt, fannst þau frábær, stemmingin rosaleg og frammistaðan góð. Ég sá eitthvað undarlega klætt fólk vappa umkomulaust um sviðið og hafa lítið fram að færa undir hefðbundnum trommutakti úr tölvu. Fyrir minn gamalmennasmekk þá er þetta fyrir tónlist eins og niðursoðinn saxbauti er fyrir matargerð. Ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið þetta, enda skil ég heldur ekki hvers vegna saxbautinn var (er?) vinsæll.

En, eins og ég segi, Viktor & Dóra skemmtu sér konunglega…

AirWaves, annar dagur

OK, þetta er auðvitað þriðji dagur á Airwaves, en sá annar hjá okkur. Við tókum daginn ekkert rosalega snemma, enda vinnudagur, en..

Fórum með Jonna á Kex að hlusta á Kate Tempest á Kex, rétt sluppum inn áður en röðin lengist úr hófi… Krissi & Rúna komu einhverjum mínútum seinna og áttu ekki möguleika á að komast inn.

En Kate var flott, minnti að einhverju leyti á Streets, að einhverju leyti á Crass en svo sem aðallega á sjálfa sig.

Þaðan röltum við svo á Dillon og hittum Krissa og Rúnu. Sátum reyndar úti í tjaldi lengi vel, en Grit Teeth voru ekki okkar tebolli, Captain Syrup voru mjög skemmtilegir í byrjun, en ég var ekki alveg að átta mig á þeim þegar á leið.

Við höfðum hugsað okkur að hitta Önnu-Lind & Skúla og Viktor & Dóru í miðbænum, OMAM á Nasa en fengum þær fréttir að biðröðin væri komin út að Café Paris löngu áður en þau áttu að byrja. Þannig að við ákváðum að halda okkur á Dillon og sjá Dr. Spock.. Á jákvæðu nótunum var þetta vissulega kraftmikið og þétt og gaman að þeim í nokkra stund.. en fúli-kallinn í mér varð fljótt frekar þreyttur í loftleysinu á að hlusta á svo sem ágæt riff en ekki annað en (þori ég að segja?) tveir æstir kallar að gjamma eitthvað óskiljanlegt, engar laglínur og einhvern veginn frekar einhæft, sem þarf ekki endilega að vera slæmt. En nei, nei, þeir voru fínir, en ég er kannski ekki að missa mig eins og margir félaganna..

Í öllu falli, þurftum við aðeins næði og fengum okkur litla rándýra bjóra á Mikkeler áður en við stefndum á að ná Önnu-Lind og Skúla á Iðnó. Þau voru auðvitað nýfarin þegar við komum, Valdimar átti tvö lög eftir, svo sem fínasta efni og mjög vel flutt. Trommarinn í næstu hljómsveit, Moji & The Midnight Sons.. benti okkur á að við þyrftum endilega að kíkja á þau, sem við gerðum. Iðunn var svona rosalega heilluð og dansaði nánast allan tímann. Ég var minna spenntur, eiginlega alls ekki heillaður, vel gert og fín söngkona.. en ég get ekki svona efni, örugglega mitt vandamál, en ég er bara svona skrýtinn.

Þá var að reyna að hitta Viktor & Dóru, reyndum að kíkja á Hótel Borg, skilst að barinn þar sé fínn.. en Viktor & Dóra voru á Húrra að kíkja á Shades Of Reykjavík. Við gripum sitt hvora bæjarins bestu áður en við fórum þangað, en aftur var allt of löng biðröð. Þannig að við duttum inn á Dubliner, þau komu svo þangað.. og ég var eiginlega búinn að fá of mikið af bjór þannig að við kláruðum ekki einu sinni bjórana áður en við gripum leigubíl og fórum heim.

En… þetta biðraðakerfi er út úr öllu korti.

airwaves-fostudagur-1

AirWaves, fyrsti dagur (hjá mér)

Kíkti í Hörpuna um kvöldið, fyrsta mál á dagskrá var að heyra í Lydon, en var aðeins of seinn.. Viktor & Dóra voru einhverjum mínútum á undan mér og fóru beint inn, en það smellpassaði, ég var nánast næstur inn þegar hann hætti. En Viktor náði einhverjum skemmtilegum spurningum og þau höfðu mjög gaman af..

Ég sé á myndum að Bubbi er farinn að hlusta á Ramones, vonandi hefur JL ekki tekið því illa að hann væri að flagga þeim.

Næst voru Fufanu, sem voru alls ekki slæmir, frekar rólegt og kunnuglegt – nokkuð sem þarf auðvitað alls ekki að vera slæmt í sjálfu sér – vel gert og allt það – en óneitanlega afskaplega óspennandi og gleymanlegt. (æ, þetta átti ekki að hljóma svona neikvætt).

Rölti með Heiðu yfir á Húrra þar sem Die Nerven voru að spila en náðu engan veginn að heilla mig þannig að ég ákvað að rölta aftur yfir í Hörpu þar sem Sonics voru að fara að byrja.. margir félaganna mjög spenntir fyrir þeim. Sonics voru svo sem ekkert slæmir, ágætlega þétt og svona klassískt sjöundaáratugar rokk. En einhvern veginn stóðu þau ekki undir öllu lofinu og væntingunum, ætli yfirkeyrt hljómborðið hafi ekki farið mest í taugarnar á mér.. á köflum var þetta eins og að hlusta á einn gaur með skemmtara. (já, ég hef skrýtinn smekk, ef einhver er að undrast að hafa ekki getað lesið í það).

Þannig að ég ákvað að kíkja aftur yfir á Húrra þar sem Pink Street Boys voru að spila, hafði einmitt hitt einn þeirra á leiðinni frá Die Nerven, og sagði mér að hann hefði gaman af að sjá mig. Og það var svo sem gagnkvæmt, alvöru kraftur og líf og einhver skemmtilegasta hljómsveit sem ég hef lengi séð – flottir grunnar að lögum, en ef ég má gefa þeim einhver ráð [já, ég veit að þeir lesa þetta varla] þá mættu sönglínur vera meira sjálfstæðar [já, ég veit líka, það er ekki eins og ég hafi mikið fram að færa um hvað virkar og hvað virkar ekki – bara minn undarlegi smekkur].

En, einhverra hluta vegna ákváðu barþjónarnir að hætta að selja bjór af krana rétt þegar röðin kom að mér og buðu bara upp á flöskubjór.. átta mig ekki á hvaða stælar það eru.. en mig langaði í góðan bjór þannig að ég kvaddi, sama saga á Frederiksen þannig að ég rölti yfir á Nasa, þar sem Viktor og Dóra voru að horfa á Úlf úlf… kraftur og mikil stemming, en tónlistin kannski ekki minn tebolli.

 

John Lydon og punksafnsopnun

Kíktum á blaðamannafund John Lydon’s í ekki-svo-góða veðrinu í Bankastræti en hann var mættur til að opna punksafnið á núllinu.

Það fékk svo sem enginn (nema fjölmiðlar) að koma með honum að opna safnið, sem lítur út fyrir að vera skemmtilegt, þó það sé lítið og þröngt.. en ákváðum eiginlega að koma aftur í betra tómi.

En svo sem gaman að hlusta á hann, það sem ég heyrði, skondið þegar hann misskildi spurninguna um YouTube og fór að tala um U2. En sem sagt gaman að heyra í honum.

Kíktum svo til Sylvíu með mat frá Austurlandahraðlestinni og horfðum á Ísland-Tékkland í handbolta.