Til Manchester

Andrés skutlaði okkur og Alla til Keflavíkur í flug til Manchester. Náði ekki að sofa mikið, Guðjón var að fara í flug tveimur tímum fyrr, hafði tínt skjali vegna hótels, fann hvergi og vakti mig til að prenta út nýtt og skrifa undir. Það kom þó ekki til þess, Andrés fann skjalið undir smjörinu inni í ísskáp. En þar var sá litli svefn sem ég hafði gert ráð fyrir farinn að mestu..

En fínt flug til Manchester, smá hringl vegna þoku en vorum kominn inn á hótel fyrir tólf. Ég hafði séð að það væru reykherbergi á hótelinu, spurði um þau, en þá kom í ljós að það mátti reykja inni á nokkrum herbergjum. Iðunn afþakkaði.. en þegar við vorum komin upp fór hún að velta fyrir hvers vegna hún ætti að afþakka að fá að reykja inni á herbergi.. Þannig að ég fór niður og fékk herbergi sem mátti reykja í. Kannski mistök, því það var ekki hægt að opna glugga og ansi stæk reykjarfýla í herberginu.

En Matti kom til okkar og fékk að geyma töskurnar á meðan þeir Alli biðu eftir að komast inn í íbúðina. Fórum í hádegismat á Dmitri’s, einn af uppáhaldsstöðum okkar í Manchester.. Frábær matur eins og alltaf.

mancesther-dmitri-1

Þaðan á jólamarkaðinn, Alli þurfti reyndar að sinna vinnu í tvo tíma en hitti okkur svo. Skoðuðum markaðinn, fengum okkur bjór á Waterhouse og hitað kryddað rauðvín með líkjör á jólamarkaðinum. Létum samt vera að kaupa osta, kæfur eða pylsur en gripum einn jólakökulíkjör.

manchester-jolamarkadur-2

Við áttum svo miða á Comedy Store klukkan 19:00, alltaf gaman að uppistandi. Einn þeirra gerði sér mat úr því að nokkrir Íslendingar væru í salnum, en Alli var ekki að kveikja á því að einn skemmtikrafturinn var blindur.

Við áttum svo borð á steikarstaðnum Fazenda.. mjög skemmtileg uppsetning, forréttir og meðlæti á hlaðborði, talsvert betra en það hljómar, og síðan komu þjónarnir með alls kyns kjötrétti á teini og skáru fyrir okkur eftir óskum.

Við ákváðum að reyna að ná einum drykk fyrir svefninn en fengum ekki að fara inn á þann bar sem fékk bestu meðmælin í nágrenninu. Iðunn var orðin þreytt og fór að sofa, en Matti fylgdi okkur á stórskemmtilegan Whisky bar rétt hjá hótelinu.. þó við hefðum labbað ansi langa leið til að finna.