Norðanpaunk og Stakaferðasögugrill

Gönguferðahópur Staka boðaði grill [með afgöngum úr ferðinni], myndir og ferðasögu eftir vinnu. Eitthvað var fyrirvarinn stuttur og/eða áhuginn lítill en við mættum þrír, ég, Alli og Hákon. Við drógum konur og eitthvað af börnum með og fengum fínasta mat og úrvals rauðvín. En gaman að sjá myndir og heyra ferðasöguna.

Við Iðunn fórum svo með Alla og Áslaugu á Gaukinn þar sem upphitun fyrir Norðanpaunk var í gangi.

Ég vil ekki vera leiðinlegur [jú, gott og vel, sennilega er ég leiðinlegur]

En, ég geri ekki lítið úr kraftinum og hraðanum og hversu vel spilandi hljómsveitirnar voru. En fyrir minn skrýtna smekk þá á þetta ósköp lítið skylt við „punk“, að minnsta kosti var tónlistin víðsfjarri því „punki“ sem ég féll fyrir í lok áttunda áratugar síðustu aldar [úff, næstum fjörutíu ár!], jú, jú það komu alveg fyrir skemmtilegir hljómagangar og jafnvel taktar, en.. það er bara ekki nóg.

Því ekkert af því sem ég heyrði á nokkuð skylt við þá tónlist sem ég hafði gaman af og kveikti minn áhuga á „punkinu“, frá hljómsveitum eins og Ramones, Clash, Jam, Sex Pistols, Stiff Little Fingers, Stranglers [og ég er að gleyma slatta].

Einhverra hluta vegna enduðum við heima hjá Áslaugu að hlusta á tónlist, byrjuðum á Strange Little Girl frá Stranglers, en drukkum svo meiri bjór, sem reyndist ekki góð hugmynd daginn eftir.. þeas. meiri bjórdrykkja, gaman að kíkja heim með Áslaugu.