Parísarrölt

Þetta var skoðunarferðadagurinn og við ætluðum að grípa einhver söfn, td. sem Freyr Eyjólfs hafði bent okkur á. En dagurinn gekk hægt, fyrst röltum við að Eiffel, svo bjór, þurfti Viktor (eðlilega) að sjá þinghúsið, svo röltum við þangað til við hittum Hafstein og Sigga (sem býr þarna). Viktor „skaust“ aðeins að skoða Sigurbogann og svo röltum við undir leiðsögn Sigga sem leið lá inn að næsta bjór og snarli. Við Iðunn fengum ostaplatta sem var akkúrat það sem við þurftum. Þarna hittum við Steve McManaman og náðum að sannfæra hann um að Englendingum stafaði engin hætta af Íslendingum ef svo skyldi fara að liðin mættust (sbr. fá vopn).

Áfram stýrði Siggi okkur að næsta íþróttabar, The Great Canadian Pub, þar sem við horfðum á leiki kvöldsins, átum hamborgara og grísasamlokur, drukkum talsvert af bjór og leystum málin. Tommi kíkti með okkur á seinni hálfleik Spánverja og Króata og við slógum upp fámennum Sambindisfundi.

Þessi dagur var einhver sérstakur tónlistardagur og tónlistarmenn að spila frá 17:00 og fram undir morgun, nánast á hverju götuhorni. Við duttum á mjög skemmtilegt götuhorn, hlustuðum á einhvers konar trommusveit, horfðum á Norður-Íra – sem voru að fagna sæti í sextán liða úrslitum – baða sig í gosbrunni á staðnum og gripum svo Kebab fyrir svefninn. Og Leffe og vindil í garðinum á hótelinu, svona líka rétt fyrir svefninn!

París - nótt - 3

Til Parísar

Þá var komið að ferðinni til Parísar.. Við gerðum svo sem ekki meira um morguninn en að pakka og fá okkur morgunmat og auka kaffi. Tókum bíl upp á flugvöll um hádegi og flugum til Parísar um hálf þrjú. Við vorum svo komin niður í miðbæ þar sem hótelið okkar, Carina, var á besta stað í bænum, rétt hjá Eiffel. Þeir eru hins vegar ekkert að gefa bjórinn á veitingastöðunum, 10 Evrur fyrir hvern, takk fyrir.

Um kvöldið hittum við Gyðu & Jón í mat á ítalska staðnum, Au Moulin á Vent, í latínuhverfi Parísar – svona í miðri þvottatörn hjá Alla. Iðunn og Viktor fengu sér froskalappir og snigla og við fengum okkur öll nautalund. Mín var full mikið steikt.. jafnvel eftir að við Gyða skiptum (enda höfðu pantanirnar sennilega ruglast). Fínasta steik, en ég geri nú betur sjálfur þegar vel tekst til.

Kíktum svo á seinni hálfleik á England – Slóvakía á bar í nágrenninu. Þar var bjórinn á viðráðanlegu verði á þokkalega skemmtilegum bar, en af svipnum á Jóni að dæma þá var rauðvínsglasið hálfgert sull. Við entumst svo sem ekki lengi og tókum bíl upp á hótel.

París - kvöld - 2

 

Veikur í Marseille

Enn sár lasinn en skrölti aðeins af stað um hádegi, svo aftur inn á hótel. Alli, Iðunn og Viktor fóru hins vegar í bátsferð út í eyju sem mér skilst að hafi verið frábær. En heilsan fór að skána þegar leið á daginn og ég hitti þau við höfnina þar sem ég hafði fundið ítalskan veitaingastað, Il Canaletto, svona ekta gamaldags ítalskan veitingastað þar sem eina undantekningin var diskóljósin í krananum á klósettinu.

Pastað var frábært, en allt of mikið sem forréttur, og fiskurinn (barri) allt of mikið eldaður. En fínasti staður.

Eftir matinn gengum við beint í flasið á Árna & Gunnu Odds og Magga & Þóreyju og einhverjum barnanna, Óskar sonur Árna & Gunnu var þarna. En Gunna var dugleg að dæla Pastis í sig og Iðunni og við horfðum á fyrri hálfleik Frakka og Svisslendinga. Eitthvað var heilsan ekki komin í gott horf og hálf ónotalegt að sitja úti í golunni þannig að við Alli og Viktor tókum bíl upp á hótel. Við Alli settumst á barinn við hornið að horfa á seinni hálfleikinn en Viktor var búinn að fá nóg. Iðunn vildi hins vegar ná að skemmta sér með hópnum.

Rétt eftir að við settumst niður hringdi Iðunn, hún hafði verið að aðstoða Gunnu á klósettinu, þegar þær komu út voru allir farnir… hún fann svo hópinn með því að hringja en þá var kominn tími til að fara heim. Iðunn bjargaði sér svo sem, gekk sem leið lá meðfram ströndinni að hótelinu.. og var komin undir lok leiksins. Alli var góður en við gripum einn drykk í viðbót.

Marseille - speglar - 1

Ísland – Ungverjaland

Næsti leikdagur og heilsan eitthvað með lakara móti. Reyndar þegar leið á daginn var ég alveg að sálast, hafði varla heilsu til að horfa á leikinn og skreið heim á hótel þar sem ég ýmist skalf eða kófsvitnaði.

Allt of margir að reyna að hitta á okkur og við að reyna að hitta á allt of marga.. sérstaklega á stað sem við þekkjum ekkert til… eiginlega gengur ekki mikið að stilla svona saman í tölvupóstum Facebook skilaboðum, SMS-um .. maður veit varla hvar maður er sjálfur, lítið hægt að ákveða hvert við förum næst eða hvenær.

En.. við hittum Helgu & Tomma & Arnheiði í strætó á leiðinni á FanZone.. sá strætó hætti að ganga og sendi okkur í Metró. Flest Metróin voru hins vegar lokuð, en við fundum á endanum eitt sem nægði inn að vellinum. Þá fengum við þau skilaboð að það væri ekkert gagn að þessu FanZone og þar sem það var ansi langt að fara þangað ákváðum við að rölta í áttina að vellinum og fá okkur bjór. Ekki tókst að hitta á Þorvald & .. Jón Einars & Gyðu eða Dísu & Magga.

Okkur var ráðlagt að mæta snemma inn á völl, enda í fersku minni hversu illa gekk að komast inn á völlinn í St. Etienne. Á vellinum kom í ljós að Dísa & Maggi & sonur voru í sætunum við hliðina á okkur! En fín stemming og ógleymanlegt að vera þarna… þó það hefði verið enn ógleymanlegra ef Gylfi eða Eiður hefðu haft heppnina mér sér í blálokin.

Marseille - fyrir leik - 1

 

Marseille, 17. júní

Við ákváðum að þiggja ekki að fara aftur í litla herbergið og „tékkuðum“ okkur út. Þá heimtuðu þau 30% greiðslu fyrir þær nætur sem við nýttum ekki, sem var vissulega samkvæmt bókunarskilmálum, en þeir voru ekkert að standa við bókunarskilmálana.

Hvað um það, við héldum okkar striki, pöntuðum hótel í Marseille á fínum stað og fínu verði. Við vorum komin þangað um hádegi og hittum Alla á flugvellinum, þar sem við skiluðum bílnum og tókum bíl með honum og Almari (sem Alli hafði hitt á leiðinni frá Prag) inn á hótel. Gripum léttan hádegismat og biðum eftir Viktori, sem var að koma með félögum sínum frá Avignon. Viktor var með miða á einhvers konar Íslendingahátíð í Marseille og við létum okkur hafa það að fylgja honum inn, 25 Evrur á mann og eitthvað þekktum við af fólki – Tony var þarna, Tóti & Jórunn, Þorvaldur & Auður og auðvitað fullt af öðrum. Okkur fannst kannski ekki mikið til skemmtiatriðanna koma (en við stoppuðum svo sem ekki lengi) og sölumennskan á bjór stór furðuleg.

Við tókum svo hlé og fórum í kvöldmat á Au Coeur du Panier, virkilega góður veitingastaður en hef hann (buff tartar) samt grunaðan um að vera rótina að heiftarlegri magakveisu sem ég fékk.

Aftur á Íslendingabarinn en entumst ekkert sérstaklega lengi, enda stór dagur fram undan.Marseille - kirkja

Lourmarin, 15.-16. júní

Lögðum af stað um tíu og stefndum til Lyon að hitta Krissa, Rúnu og Salóme í hádegismat.. en Rúna átti pantaðan tíma hjá lækni og það var víst ekki einfalt að keyra inn í borgina og fá bílastæði, hefði sennilega tekið daginn. Þannig að við keyrðum aftur til Lourmarin og vorum komin þangað seinni partinn. Bastide hótelið hafði fært okkur í almennilegt herbergi, með svölum og alvöru skápum og baðherbergi. En því miður fylgdi sögunni að við gætum bara verið þar í tvær nætur. Við tókum því svo sem rólega og borðuðum á Le Recreation, ég fékk önd sem var allt í lagi en ekkert meira en það. Enduðum kvöldið á að horfa á leik L’Insolite.

Dagin eftir var frábær morgunmatur á hótelinu og svo þurfti ég aðeins að sinna vinnunni. Netsamband var bilað og það gekk hægt að sannfæra þau um að vandamálið væri hjá þeim en ekki okkur. Það tók svo allan daginn að fá sambandið í lag og ég þurfti að vinna með netsamband í gegnum símann. En það var leiðindaveður og við tókum því rólega áður en við fórum á smá rölt. Ég fór í klippingu og rakstur og þaðan fórum við að smakka vín frá framleiðanda í nágrenninu áður en við kíktum á L’Insolite barinn að horfa á leik. Eitthvað af Íslendingum var þarna, eiginlega var barinn fullur af Íslendingum, sem einmitt vorum með hús í svona hálftíma fjarlægð.

Við ákváðum að nýta okkur „spa“ hlutann á hótelinu, en það opnaði ekki fyrr en þrjú þennan daginn. Þegar þar að kom var Hammam-ið bilað, ekkert nudd í boði nema einn ákveðinn klukkutíma og það þurfti að láta vita með klukkutíma fyrirvara ef við ætluðum að nota Saunu-na. Frekar dapurt, fannst okkur.

Við ákváðum að þiggja ekki litla herbergið og ákváðum að tékka okkur út á morgun.. þau gerðu svo sem engar athugasemdir við það.

Um kvöldið fórum við á Le Moulin og fengum svo sem allt í lagi mat. Ég pantaði nautasteik og þegar hann spurði hvernig ég vildi hana steikta sagði ég að það væri kannski best að leyfa kokkinum að ákveða, stundum þarf nautakjöt aðeins meiri steikingu en að vera hrá, fer svona eftir fitunni.. En steikin sem ég fékk var steikt í tætlur, ekki beint vond, en mér fannst illa farið með góðan mat.

Ísland – Portúgal

Leikur í St. Etienne og við fórum af stað rétt fyrir hádegi. Stoppuðum aðeins á leiðinni og vorum kominn upp úr þrjú að borginni. En það tók óratíma að komast inn í borgina, finna hótelið, „Centre International de Séjour André Wogenscky“ og koma okkur fyrir þar. Ekki merkilegt hótel, eiginlega nær því að vera gistiheimili, en vel staðsett og hreint. En engin handklæði og engar sápur. Við gátum leigt handklæði en það var einfaldlega engin sápa í boði.

Við fundum veitingastað rétt hjá hótelinu sem leit vel út en var lokaður og sá næsti var niðri á einu torginu. Þar var okkur sagt að það væri ekki matur í boði fyrr en eftir þrjú korter.. allt í lagi, fengum okkur bjór og settumst niður. En þegar þar að koma var heldur enginn matur í boði.. Vorum orðin sátt við að fá bara eitthvað, hittum Aniku & Örn, sem voru nýbúin að panta pizzu á næsta torgi, laust borð við hliðina á þeim, en þá var okkur sagt að það væri allur matur búinn. Við fundum á endanum stað sem seldi rétt svo ætar pizzur og létum okkur hafa það. Við sátum við hliðina á fjórum skotum sem voru spenntir fyrir leiknum. Viktor var svo kominn og fann okkur að lokum á staðnum. Orðið ansi langt síðan við hittum hann… En ákváðum að rölta á FanZone og fá okkur bjór, þegar þangað kom voru flestir farnir á völlinn þannig að við stoppuðum stutt og fórum svo líka. Enda kannski eins gott, það tók sinn tíma að komast inn. Við vorum búin að reyna lengi að hitta Krissa & Rúnu og Salóme, en þau voru alltaf einu skrefinu á undan okkur og eftir leik þurftu þau að drífa sig til baka til Lyon.

Það var ótrúleg stemming á leiknum og við höfum nú eiginlega ekki upplifað annað eins.. og vorum við þó í Amsterdam í haust þegar Ísland vann Holland. Frábært að ná þessu jafntefli og fýlupúkagangurinn í Ronaldo gerði nú ekki annað en að gera þetta enn sætara.

Eftir leikinn langaði okkur Iðunni að fá okkur bjór í örlítið meiri rólegheitum en var í boði á börunum við völlinn þannig að við röltum af stað í áttina að hótelinu en Viktor varð eftir með vinum sínum.. Það fækkað alltaf opnum stöðum eftir því sem við fjarlægðumst völlinn, helst Kebab staðir með dósabjór í boði. Iðunn vildi eiginlega bara fara inn á hótel en eitthvað tókst mér að þrjóskast við, duttum að lokum inn á torgið frá því fyrr um daginn og þar var nóg opið. Og þarna hittum við fullt af fólk í góðum gír, Bjössi, Árni Páll, Þórhallur (Dagbjartar og tengdasonur Hákonar og Kötu), skotarnir sem við hittum fyrr um daginn og fullt af fólki sem við höfum ekki hitt áður – við sátum fram til tvö, þorðum ekki að sitja lengur enda þurftum við að losa herbergið klukkan tvö daginn eftir.

St. Etienne - leikur - 2