Heim frá Amsterdam

Við tókum Krasnapolsky morgunmatinn aftur alvarlega áður en við „tékkuðum“ okkur út. Við kíktum í vindlabúðina Hajenius við Rokin, ómissandi að koma þar við þegar Amsterdam er heimsótt, þaðan í lítinn bjór á óþekktum bar og svo ákváðum við að stefna á túlípanasafnið og prófa hollenskar pönnukökur, sem afgreiðslumaður í Desigual hafði sagt Iðunni að væru bestu pönnukökur í bænum. Pönnukökurnar voru ekki að heilla okkur en við keyptum nokkra túlípanalauka og fundum nýjan bar, Café Belgique opnaði ekki fyrr en þrjú og allt í lagi að prófa eitthvað nýtt. Í þetta sinn barinn De Drie Fleschjes sem sérhæfir sig í Genever en okkur fannst full snemmt að byrja á sterkum drykkjum fyrir þrjú, sögðumst kannski koma seinna, en þjónninn sagði að þeir lokuðu hálf-sjö. Eitthvað þótti mér þetta takmarkaður opnunartími, en hann útskýrði að þetta hefði virkað vel í 360 ár og það væri engin ástæða til að breyta til. En fundum enn einn skemmtilegan bar í bænum..

Ég uppgötvaði hins vegar að vindlapakkinn var horfinn, brunaði á pönnukökustaðinn og þau höfðu fundið og geymt.

Næsta mál var svo bar við hliðina á Krasnapolsky sem sérhæfir sig í líkjörum, Wynand Fockink… ég eiginlega þorði ekki að spyrja hvernig á að bera nafnið á barnum fram. En það er í rauninni stór undarlegt að ég hef aldrei haft hugmynd um þennan bar þrátt fyrir margar heimsóknir til Amsterdam og þrátt fyrir að hafa oft gist þarna í nágrenninu. En TripAdvisor benti á staðinn sem var mjög skemmtilegur – og sá sem afgreiddi okkur var svo enn skemmtilegri. Við fengum alls kyns smakk og mér var falið að kaupa einhvers konar jólalíkjör þegar ég verð næst á ferðinni.

Síðasti bjórinn var svo með góðum vindli á De Bekeerde Suster áður en við fórum í alvöru nautasteika á Gaucho við Spuistraat. Og svei mér þá ef það toppaði ekki ferðamatinn.. frábær steik, rétt elduð, fín sósa og ágætis meðlæti. Við skiptum Parma skinku og geitaosti á milli okkar og ég fékk mér (óvart) einhvern pönnuköku eftirrétt, sem var eiginlega bara nokkuð góður og pönnukakan talsvert betri en á pönnukökuhúsinu. Það eina sem klikkaði var kaffið, „espresso macchiato“ var heit mjólk sem hafði kannski verið við hliðina á kaffibaununum.

En svo upp á Schiphol. Ég kemst enn ekki yfir ruglingslegar upplýsingar um lestarferðirnar, en þetta hafðist og við komumst um borð, en vélin var víst yfirbókuð og ekki alveg ljóst hvað það þýddi að vera á „standby“.. og veit ekki enn, en eftir nokkra seinkun komumst við um borð.

Flugið heim var svo til þess að gera áfallalaust og töskurnar komu fljótt þrátt fyrir viðvaranir um að við gætum þurft að bíða.

Amsterdam - Gravenstraat.jpg