Tréport

Okkur fannst við vera búin að skoða Mers-les-Bains þokkalega þannig að við ákváðum að rölta yfir í næsta bæ, Tréport, enda höfðum við fundið á TripAdvisor að það væri fínasta hugmynd að fara upp á klett í þar til gerðum kláf. Tréport var mun stærri og skemmtilegri en við höfðum áttað okkur á úr fjarlægðinni. Við fundum einhverjar peysur og boli, fínan bjór og fórum svo að leita að kláfnum. Google Maps misskildi okkur hins vegar og sendi okkur gangandi á lokastöð kláfsins uppi á fjallinu. Svo sem ekki mikið mál, en 96 metrar upp á stuttum tíma og stórkostlegt útsýni. Þarna gripum við að sjálfsögðu bjór og fórum aðeins lengra út á horn þar sem útsýnið var tilkomumikið í allar áttir.

Við tókum kláfinn niður og fengum okkur hádegismat og horfðum á Frakkland – Írland. Það var ekkert rosalega stemming hjá Frökkunum á meðan á leiknum stóð, þeir virðast horfa heima hjá sér og svo sest öll fjölskyldan út í bíl og keyrir um flautandi í tvo tíma.

Síðasta kvöldmáltíðin á hótelinu, en barinn lokaði frekar snemma og þrátt fyrir að hann væri í rauninni opinn og þjóninn sæti aðgerðalaus rétt hjá í anddyrinu þá var ekki til umræðu að fá bjór fyrir svefninn undir leik Belga og Ungverja.

Þráðlausa netið á hótelinu var endanlega að gera okkur gráhærð (gott og vel, við vorum eitthvað farin að grána fyrir) því við þurfum stöðugt að vera að slá inn einhverja auðkenniskóda, í hvert skipti sem við skiptum um forrit eða vefsíðu.. og svo kvartaði aðgangsstýringin yfir að við værum þegar skráð inn. Við gáfumst að lokum upp á þessu og Iðunn fór í ferðapakka Símans.Treport - útsýni - 14