Mers-les-Bains, 24.-25. júní

Eftir ágætis morgunmat röltum við aðeins um bæinn, ströndin var að mestu steinótt, frekar hvasst og kalt og ekki í boði að leigja stóla eða dýnur. Bærinn sjálfur virtist ekki mjög stór, eða réttara sagt var strandhluti bæjarins frekar takmarkaður. Fyrsta verkefni dagsins var að finna þvottahús, sem fannst og við sötruðum bjór á meðan. Veitingastaðirnir voru svo búnir að loka fyrir mat þegar þvotturinn var afgreiddur, en einn barinn rétti okkur einhverja undarlega bita úr kartöflum, eggjum og karrí – sem bjargaði okkur. Keyptum svo brauð, opnuðum rauðvín og drukkum með eggaldin mauki.

Um kvöldið kíktum við á írska barinn O‘Brien, sem virtist eini barinn sem var opinn – en bauð reyndar ekki upp á neinn írskan bjór.

Daginn eftir héldum við áfram að rápa stefnulaust um bæinn, örlítið stærri hringur en fyrri daginn og svo fengum við okkur hádegismat á hótelinu. Röltum svo út á horn og keyptum einhvers konar kleinuhringja rendur með kaffinu. Upp á hótel að drekka Leffe og niður á O‘Brien að kíkja á leik Pólverja og Svisslendinga.

Fengum lítinn frið fyrir einhverjum dóna til að horfa á leik Króata og Portúgala á hótelinu þannig að við enduðum aftur á írska barnum.

Mers-les-Bains - strönd - 3