Út á strönd

Enn einn ferðadagurinn, en Sóley býr þarna rétt hjá og ekki annað í boði en að hitta hana (með soninn Kristófer) í hádegismat, rölt um bæinn og bjór – verulega gaman að ná góðri stund með henni.

Alli ætlaði að vera degi lengur í París, áður en hann færi heim í veiðiferð og Viktor var búinn að panta flug til Malaga og ætlaði að vera hjá ömmu sinni nokkra daga í Benalmadena. En fluginu hans Viktors var aflýst og honum gekk ekkert að fá annað flug.

Þegar við komum inn á hótel að sækja töskurnar var Viktor enn að reyna að finna út úr ferðinni til Spánar. Við höfðum pantað lestarmiða frá París til Mers-les-Bains (eða Tréport) og vorum allt í einu orðin full sein í lestina, tókum leigubíl, rétt náðum inn á Gare du Nord, fórum fyrst á vitlausan brautarpall (við vorum svo vitlaus að taka stefnuna á þann hluta stöðvarinnar sem var merktur „allar lestir“), en þetta slapp. Við þurftum að skipta um lest en gripum tvo bjóra í Abbeville á meðan við biðum eftir seinni lestinni. Þetta var frekar lítill en skemmtilegur bar með óvenjulega tónlist og pókermót um kvöldið.

Seinni lestinni seinkaði en við komum svo á lestrarstöðina í Tréport um hálfníu. Þar var engan leigubíl að fá en á hóteli við lestarstöðina fengum við númer á leigubílum. Sá fussaði og sveiaði yfir að við skyldum vilja leigubíl fyrir ferð sem tæki tíu mínútur að ganga og sagði okkur að vera ekki með þessa vitleysu! Þetta tók nú nær 20 mínútum með þungar töskur á ekkert allt of greiðfærinni leið.. en hafðist og við fengum að borða þó við kæmum full seint.

Við vorum á Bellevue hótelinu í Mers-les-Bains, sem var sennilega stærsta hótelið á staðnum, alveg við ströndina, en frekar lítið, herbergin lítil, okkar á þriðju hæð og engin lyfta. Við höfðum keypt hálft fæði, þeas. morgunmat og kvöldmat og gátum valið um fjóra forrétti, fjóra aðalrétti og fjóra eftirrétti.. þá sömu öll kvöldin, og svo komu ostar fyrir eftirréttinn.

Mers-les-Bains - 1