Parísarrölt

Þetta var skoðunarferðadagurinn og við ætluðum að grípa einhver söfn, td. sem Freyr Eyjólfs hafði bent okkur á. En dagurinn gekk hægt, fyrst röltum við að Eiffel, svo bjór, þurfti Viktor (eðlilega) að sjá þinghúsið, svo röltum við þangað til við hittum Hafstein og Sigga (sem býr þarna). Viktor „skaust“ aðeins að skoða Sigurbogann og svo röltum við undir leiðsögn Sigga sem leið lá inn að næsta bjór og snarli. Við Iðunn fengum ostaplatta sem var akkúrat það sem við þurftum. Þarna hittum við Steve McManaman og náðum að sannfæra hann um að Englendingum stafaði engin hætta af Íslendingum ef svo skyldi fara að liðin mættust (sbr. fá vopn).

Áfram stýrði Siggi okkur að næsta íþróttabar, The Great Canadian Pub, þar sem við horfðum á leiki kvöldsins, átum hamborgara og grísasamlokur, drukkum talsvert af bjór og leystum málin. Tommi kíkti með okkur á seinni hálfleik Spánverja og Króata og við slógum upp fámennum Sambindisfundi.

Þessi dagur var einhver sérstakur tónlistardagur og tónlistarmenn að spila frá 17:00 og fram undir morgun, nánast á hverju götuhorni. Við duttum á mjög skemmtilegt götuhorn, hlustuðum á einhvers konar trommusveit, horfðum á Norður-Íra – sem voru að fagna sæti í sextán liða úrslitum – baða sig í gosbrunni á staðnum og gripum svo Kebab fyrir svefninn. Og Leffe og vindil í garðinum á hótelinu, svona líka rétt fyrir svefninn!

París - nótt - 3