Einifellshelgi

Fyrsta Einifellshelgi ársins – og í leiðinni matarklúbbur hjá Goutons Voir..

Þessar helgar hafa verið einhverjar bestu helgar ársins og sveik ekki í þetta skipti.

Við Iðunn mættum til þess að gera snemma á föstudeginum, um hálf sex og Krissi & Rúna mættu fljótlega.

Við elduðum skemmtilega blöndu af „stout“-soðnum kjúklingu og súkkulaði-kjúklinga-mole. Gin og tónik fyrir matinn og einhvers konar ávaxtakaka í eftirrétt í boði Krissa & Rúnu. En eitthvað var endingin lítil og flestir farnir að sofa upp úr miðnætti, við Iðunn entumst eitthvað lengur en ekki mikið.

Laugardagurinn var svo tekinn tiltölulega snemma og Assi & Stína mættu um hádegi með hádegismat.. sjávarréttapasta með eplaköku, frábær hádegismatur, Steini rauk til og reif heita pottinn, sem var greinilega alveg búinn..

Þá Petanque hjónakeppni sem húsbændur unnu en við Iðunn sýndum þá sjálfsögðu kurteisi að tapa öllum okkar leikjum.

Þá gufa í tunnunni í góða stund áður en eldamennska fyrir kvöldið hófst… Auður & Steini buðu upp á grillað lamb og naut.. topp hráefni og fullkomin eldamennska að hætti Einifells. Krissi & Rúna mættu aftur með eftirrétt, einhvers konar berja, súkkulaði blöndu ef ég man rétt.

Aftur var endingin frekar léleg, en við Iðunn streittumst eitthvað á móti.

Sunnudagurinn var aftur frekar snemma, nema hvað ég svaf ágætlega út.. Aftur buðu Assi & Stína upp á fyrsta flokks hádegismat, heitan túnfiskrétt á brauði..

Einifell - maí - 5