Valdi vallarstjóri

Mætti á Kópavogsvöll þar sem afhjúpuð var lágmynd af Valda vallarstjóra fyrir leik Breiðabliks og KR í efstu deild kvenna. Náði ekki að bíða eftir leiknum en við fengum leiðsögn í aðstöðu leikmanna.. nokkuð sem mér skilst að Pétur Ómari eigi svona eitthvað meiri heiður að en aðrir, þykist vita að Andrés Pétursson hafi lagt eitthvað að mörkum.

En.. Valda verða seint þökkuð störf hans fyrir fótboltann í Kópavogi.. Eldri kynslóðin talaði reyndar um Valda fisksala, en fyrir minni kynslóð var hann Valdi vallarstjóri – hann var, held ég, í sólarhrings starfi við að hlúa að og styðja uppeldi knattspyrnumanna í bænum. Mér skilst að hann hafi átt ómetanlegan þátt í uppbyggingu kvennaliðs Breiðabliks, sem vann ófáa titlana fyrstu áratugina.. og eru enn að. Þá var hann líka stuðningsmaður þess að stofnað yrði annað félag í bænum á sínum tíma, ÍK.

En aðallega var hann alltaf boðinn og búinn að aðstoða, hvort sem það var að mæta og opna búningsklefana fyrir hin ómerkilegustu tilefni, gera við bolta, keyra strákana út um allar trissur í leiki eða bjarga því sem vantaði. Einhvern tímann vantaði mig fótboltaskó og auðvitað fann Valdi ekki bara einhverja skó, heldur Hummel (sem ég vildi endilega spila í) og seldi mér á góðum kjörum.

Það er ekki hægt að minnast Valda án þess að nefna ástríðuna fyrir fótboltanum og sérstaklega gengi Breiðabliks. Brandarinn um áhorfandann sem þurfti bara að borga hálfan aðgangseyri, vegna þess að hann sá bara annað liðið, var stundum sagður um Valda – en passaði auðvitað engan veginn.. það hefði enginn farið að rukka Valda um aðgangseyri.

Valdi - lágmynd