Flensa

Ég verð ekki oft veikur, gleymdi flensusprautu fyrir nokkrum árum og fékk þá væna flensu.. annars hef ég verið tiltölulega heppinn. Ég mundi eftir sprautunni í haust en það eru víst nokkuð mörg afbrigði í gangi, amk. þrjú, og ekki sprautað fyrir öllum.

En, mætti í vinnu á mánudeg.. eitthvað hálf slappur upp úr hádegi og fór heim. Og var eiginlega steinrotaður fram á föstudag. Það var rétt svo að ég kæmist fram á klósett, þolraun að fara niður og upp aftur.. Samt ekki miklir verkir eða hálsbólga eða kvef, og jafnvel ekki svo hár hiti (held ég, jú, fyrstu tvo dagana).. bara óhemju orkulaus og máttlaus. Og á köflum nánast eins og með óráði.

Aðfaranótt hafði ég legið svo lengi að mig var farið að verkja, ekki kannski „legusár“, en svona „leguóþægindi“, reyndi að sofna í stólnum, en gekk ekki. Var svo eitthvað hressari um morguninn, ákvað að fara á fætur og setjast við tölvuna. Einhvern veginn var heilsan að mestu komin, frekar aumur, en í sjálfu sér í lagi. Ætlaði svo að fara og leggja mig í hádeginu, en var í rauninni engin ástæða til.

Iðunn fór í afmæli og við Addi horfðum á frábæra mynd, Glænýja testamentið.