Dante frá Fræbbblum

Við Fræbbblar gefum út lagið Dante í dag.. hvað svo sem „að gefa út“ þýðir þessa dagana.

Amk. erum við að vonast til að útvarpsstöðvarnar spili lagið, bjóði jafnvel upp á það á vinsældalistum. Þá er myndband til, að mestu samhengislausar klippur úr bíómyndinni L’inferno frá 1911 um ferðalag Dante’s – og svo fylgir textinn með.

En lagið er hér Dante á YouTube.

Þorrablót

Hittumst í nokkurs konar Þorrablóti í Fögrubrekkunni hjá Gunnu & Kidda, með Öggu & Magga og buðum systrunum Öggu Hrönn og Elínu & Gumma. Nonni & Þóra Kata kíktu aðeins við og Tumi & María voru heima…

Allt um það, mjög skemmtilegt kvöld, og þorramaturinn með besta móti.. aðeins of mikið af snöfsum og sátum kannski full lengi, en mjög vel heppnað og alltaf gaman að hitta þær systur – og Gumma.

Þorrablót

Fimmtudagsflakk

Dagurinn fór allt of mikið í flakk, klára umslag fyrir vinyl útgáfu Fræbbbla plötunnar, Í hnotskurn, fara með plötuspilarann í viðgerð, svo ég geti nú hlustað sjálfur, kíkja á söngkerfi, kaupa fótbolta, fá fleiri lykla.

Svo á Fræbbbla æfingu þar sem við þurftum að æfa fyrir Rosenberg án söngs, vegna söngkerfisleysis – reyndar fínt að æfa einu sinni þannig.

Stutt stopp heima áður en ég mætti í karate.. ótrúlegt hvað maður er stirður og tregur (eða hvað líkaminn hlýðir illa þegar þreytan fer að segja til sín).

Aftur heim og svo að sækja Adda í vinnuna. Okkur tókst að púsla saman flakki þannig að ég náði að kíkja á Dillon þar sem Ofvitarnir og Hellvar voru að spila. Alltaf gaman að kíkja á hljómleika og þó svo að ég sé nú stundum duglegur, þá mætti óneitanlega gera betur. En Ofvitarnir eru fín rokkhljómsveit, vel spilandi og þétt. Hellvar voru að langmestu leyti með nýtt efni, og hljómaði eiginlega nokkuð vel, sennilega eina hljómsveitin sem kemst upp með að halda athygli í þetta löngum lögum. En Hellvar hefur lengi verið ein af mínum uppáhaldshljómsveitum.

Sambindisferð

Árleg helgarferð Sambindis og maka.. Óvenjuleg að þessu sinni að því leyti að við gistum á hóteli og slepptum eldamennskunni. Alltaf viss sjarmi yfir að elda sjálf, en svo sem fínt að sleppa við tiltekt og frágang.

Við gistum á Hótel Geysi, eða Litla Geysi, skemmtilegur gististaður, allt til alls, frábær matur og afslappað umhverfi og starfsfólk.

Við mættum á föstudagskvöld, fengum okkur hreindýrahamborgara sem voru hreint frábærir og sátum aðeins að sumbli – en ekki lengi og ekki miklu.

Laugardagurinn fór svo í flakkum sveitirnar, eftir veglegan morgunmat.. Secret Lagoon er skemmtileg og óvenjuleg blanda af heitum potti og sundlaug. Finnst samt ansi hátt aðgangsgjald, amk. miðað við aðstöðuna. En Friðheimar voru næstir á dagskrá, einstaklega skemmtilegur staður, Bloody-Mary í í fordrykk og lamba tómatsúpa í hádegismat. Þaðan í stutt stopp í Skálholti, þar sem við litum inn á safnið í kjallaranum. Og þó við værum nýkomin úr langri heimsókn í heitan pott þá var Fontana á Laugarvatni næst. Mjög flott aðstaða og frábært gufubað, eitt það besta sem við höfum prófað.

Eftir Fonatana kíktum við á sumarbústað og land sem Höskuldur og Sirrý voru að kaupa í nágrenni við sumarbústaði fjölskyldunnar og skáluðum fyrir nýju landi á staðnum.

Aftur á Geysi og einhverjir lögðu sig á meðan við hin settumst yfir bjór.

Gin og tónik og snarlpylsur úr Kjötpól fyrir matinn.. og svo kvöldmatur. Verulega góður matur, frábær humarsúpa, skemmtilega lamba- og nautakjötstvenna í aðalrétt og alvöru eftirréttur, súkkulaðikaka, ís og jarðarber.

Skemmtinefndin klikkaði ekki, spurt úr sögu Búnaðarbankans, vísbendingar, söngæfing, skák og skipst á fjölskyldufréttum.

Laugarvatn - 1 - lítil