Fræbbblarnir á Rosenberg

Við Fræbbblar spiluðum á Rosenberg, nokkurs konar loka hljómleikar til að kynna „Í hnotskurn“.

Gaman að spila loksins á Rosenberg, hef oft mætt þar á hljómleika og kann vel að meta að einhver vilji halda úti stað með lifandi tónlist.

Mætingin var kannski ekki svo slæm og virkilega gaman að sjá þá sem mættu, en við áttum óneitanlega von á að fleiri hefðu áhuga.

Ég held að spilamennskan hafi gengið nokkuð vel, amk. skemmtum við okkur sérstaklega vel, Guðjón söng með í CBGB’s og Brynja og Kristín hoppuðu upp á svið og sungu með í Hippar, Æskuminning og Í nótt.

Megnið af lögunum af Í hnotskurn fer nú „í salt“ og við byrjum að semja nýtt efni.

Sennilega er klárt að það tekur því ekki fyrir okkur að vera að halda hljómleika og þetta voru mjög líklega síðustu sjálfstæðu hljómleikar okkar. Sama gildir kannski um spilamennsku á börum seint um kvöld, þó þetta sé oft mjög gaman, þá er þetta einfaldlega of mikil vinna til að standa í, á meðan áhuginn er ekki meiri.

En við komum örugglega til með að spila á hátíðum og viðburðum með öðrum, þannig að það er langt frá því að þetta hafi verið okkar síðustu hljómleikar, svo því sé nú haldið til haga.