Bifröst, Fræbbblar

Við Fræbbblar mættum á Bifröst að spila á hljómleikum / balli.. lögðum af stað upp úr hádegi og vorum komin með allar græjur hálf fimm. Hljóðmaðurinn, eða réttara sagt, eini maðurinn sem kann á hljóðkerfið að einhverju ráði – var að fara á Þorrablót og rétt náði að sýna Rikka hvernig græjurnar virka. Rikki var svo með þráðlausa tengingu við gítarinn og tók að sér að vera hljóðmaður samhliða því sem hann spilaði. Þóra og Sigga slógust í för með okkur, svona til að tryggja að áhorfendur yrðu að minnsta kosti tveir.

En Óli Valur, sonur Maríu, vinkonu Iðunnar… fékk þessa flugu í kollinn þegar við stoppuðum í kaffi á leiðinni frá því að spila á Græna hattinum í nóvember. Óli og Þorvaldur sáu um að setja þessa hljómleika upp.. okkur leist ekki meira en svo á að nokkur myndi mæta.. Þorrablótin í sveitinni virðast hafa alla athygli þessa helgi.

En við fórum í heitan pott, fengum eðal kvöldmat og byrjuðum að spila um hálf ellefu. Framan af var frekar fámennt, en það fjölgaði þegar á leið og undir lokin var komin fínasta stemming og þokkaleg mæting. Við vorum uppiskroppa með efni og vorum farin að taka efni sem við höfðum hvorki æft né spilað í nokkur ár..

Svo var ekki leiðinlegt að hitta talsvert af fólki sem við þekktum til, eða þekktum næstum því til.. við Iðunn og Rikki létum draga okkur í partý um fjögur leytið, en entumst svo sem ekki lengi.. en það var engan bilbug á heimamönnum að finna – voru komin í heita pottinn þegar við gengum til náða… svona um hálf fimm!

Staðurinn kom svo skemmtilega á óvart, talsvert fjölmennara en ég gerði mér grein fyrir og virkilega skemmtileg aðstaða.